Formúla 1

Uppgjör eftir Ástralíu: Vettel sýndi snilli sína

Bragi Þórðarson skrifar
Vettel var á undan Hamilton í dag.
Vettel var á undan Hamilton í dag. Getty
Fyrsti Formúlu 1 kappaksturinn af 21 fór fram í Ástralíu núna um helgina. Sebastian Vettel stóð uppi sem sigurvegari fyrir Ferrari en hans helsti andstæðingur í keppninni um heimsmeistaratitilinn Lewis Hamilton varð annar fyrir Mercedes.

Annað árið í röð var Lewis Hamilton með besta tímann í æfingum, tímatökum sem og í kappakstrinum sjálfum. Þrátt fyrir þetta hefur hann lent í öðru sæti á eftir Vettel tvo ár í röð á Albert Park brautinni í Melbourne.

Hamilton átti frábæra helgi í Ástralíu og náði sínum ráspól á Albert Park brautinni í sjöunda sinn á ferlinum á laugardaginn og byrjaði kappaksturinn mjög vel. Eftir fyrsta þjónustuhléið var hann tólf sekúndum á eftir Vettel sem átti eftir að fara inn til að skipta um dekk. Á Albert Park brautinni tekur það um 23 sekúndur að fara í gegnum þjónustusvæðið í dekkjaskipti og var Hamilton því tæknilega með rúmlega 10 sekúndna forskot.

Á 24. hring tóku hinsvegar örlögin við. Þar varð Romain Grosjean frá að hverfa og stoppaði á brautinni sem leiddi til þess að öryggisbíllinn var kallaður til. Ferrari nýtti sér þetta og sendi Vettel inn á þjónustusvæðið og þar sem Hamilton gat ekki haldið fullum hraða á brautinni var það Vettel sem kom út á undan. Þjóðverjinn keyrði seinni helming keppninnar listavel og tókst að halda meistaranum fyrir aftan sig allt til loka og tryggði sér þar með 25 stig í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna. Lewis Hamilton varð að sætta sig við annað sætið í Ástralíu annað árið í röð, en Bretinn hefur aðeins einu sinni náð sigri frá ráspól í Melbourne.

Grosjean stígur úr bílnum sínum.Getty
Ólík hlutskipti Finnanna

Liðsfélagi Vettel hjá Ferrari, Kimi Raikkonen, varð þriðji sem gefur ítalska liðinu forystu í keppni bílasmiða. Hinn 38 ára Raikkonen stóð sig vel um helgina og byrjaði kappaksturinn á undan liðsfélaga sínum. Í fyrri hluta kappakstursins átti Vettel engin svör við Finnanum en Sebastian komst loks fram úr eftir þjónustuhléin.

Liðsfélagi Hamilton hjá Mercedes, Finninn Valtteri Bottas, átti slæma helgi fyrir þýska framleiðandann. Hann var hvergi nálagt Bretanum á æfingum og tímatökurnar enduðu með harkalegum árekstri við dekkjavegg. Bottas ræsti því 15. í kappakstrinum en náði að keyra sig upp í áttunda sætið á sunnudaginn.

Ameríska liðið Haas stóð sig frábærlega fyrri part helgarinnar og byrjuðu það á að sína hvað í því býr á fyrstu æfingum. Í tímatökum stóð Haas sig enn betur og ökumenn liðsins, þeir Kevin Magnussen og Romain Grosjean, byrjuðu kappaksturinn í 5. og 6. sæti. Kappaksturinn byrjaði vel og á 21. hring voru Grosjean og Magnussen komnir upp í 4. og 5. sæti. Á næsta hring ákvað liðið að kalla Kevin Magnussen inn á þjónustusvæðið í dekkjaskipti, ekki fór það betur en svo að þegar Daninn fór út á brautina aftur var vinstra afturdekk laust undir bílnum og varð hann frá að hverfa. Tveimur hringjum síðar var Grosjean kallaður inn og alveg eins og hjá Magnussen fer Frakkinn út á brautina með laust vinstra afturdekk og þurfti því að hætta keppni. Gríðarlega svekkjandi fyrir ameríska liðið sem sýndi þó hvað í þeim býr og verður gaman að fylgjast með liðinu í sumar.

Hamilton í kappakstrinum í dag.Getty
Vonbrigði Red Bull

Red Bull hefði sennilega viljað standa sig betur um helgina. Í vorprófunum stóð liðið sig mjög vel og leit út fyrir að það gæti farið að keppa um fyrsta sætið við Mercedes og Ferrari. Það varð ekki raunin í Ástralíu er enska liðið var framan af að berjast við Haas bílana um 5. sætið frekar en Mercedes um það fyrsta. Daniel Ricciardo endaði kappaksturinn í fjórða sæti eftir hamfarir Haas - aðeins 0,76 sekúndum frá verðlaunapalli. Svekkjandi fyrir heimamanninn því ef hann hefði fundið leið fram hjá Kimi Raikkonen hefði það orðið í fyrsta skiptið sem Ástrali endar á verðlaunapalli í Melbourne. Hinn ungi Max Verstappen átti ekki góðan kappakstur er hann keyrði Red Bull bíl sinn til 6. sætis.

Fernando Alonso kom mörgum á óvart með fimmta sæti fyrir McLaren en Spánverjinn er að byrja sitt 15. tímabil í Formúlu 1. McLaren losaði sig við Honda vélarnar sem hafa verið að gera liðinu lífið leitt síðastliðin þrjú ár fyrir þetta tímabil. Með nýja Renault vél undir vélarhlífinni náði enska liðið að krækja sér í 12 stig í Ástralíu þar sem Stoffel Vandoorne náði 9. sætinu. Þessi úrslit jafna besta árangur liðsins á þeim þremur árum sem það notaði Honda vélar.

Það virðist því alveg hafa borgað sig fyrir McLaren að losa sig við japanska vélaframleiðandan þar sem að Toro Rosso, sem gerðu samning við Honda fyrir tímabilið, stóð sig hrikalega í Ástralíu um helgina. Pierre Gasly varð frá að hverfa strax á 13. hring og Nýsjálendingurinn Brendon Hartley kláraði keppnina í síðasta sæti.

Vettel ók til sigurs í dag.Getty
Force India gaf eftir

Verksmiðjulið Renault varð að sætta sig við 7. og 10. sætið í ástralska kappakstrinum. Sem þýðir að bæði McLaren og Red Bull, sem nota sömu vél og franski bílaframleiðandinn, fengu fleiri stig en Renault um helgina.

Eins og búist var við fyrir tímabilið eru Force India ekki jafn samkeppnishæfir og þeir voru í fyrra en liðið endaði síðasta tímabil í fjórða sæti bílasmiða. Þeir þurftu að sætta sig við 0 stig í fyrstu keppni ársins í ár er ökumenn liðsins kláruðu keppnina í 10. og 11. sæti.

Ljóst er að mikil vinna er framundan fyrir bæði Williams og Sauber en bæði lið kláraðu keppnina með aðeins einn bíl á brautinni.

Það er því Sebastian Vettel og Ferrari sem leiða heimsmeistaramótin er liðin gera sig tilbúin fyrir Bareinkappaksturinn sem fer fram eftir tvær vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×