Tónlist

Plataði unnustuna í fyrsta tónlistarmyndbandið

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
María Rut og Ingileif
María Rut og Ingileif Skjáskot
Laganeminn og fjölmiðlakonan Ingileif Friðriksdóttir stígur í dag sín fyrstu skref í tónlistarbransanum með útgáfu nýs lags og myndbands. Lagið heitir At Last og er framleitt af Ásgeiri Orra Ásgeirssyni úr StopWaitGo.

„Lagið fjallar um mína vegferð frá því að halda að ég væri tilfinningalaus yfir í að koma út út skápnum og átta mig á því að ég var bara alls ekki tilfinningalaus,“ segir Ingileif í samtali við Vísi.

„Lagið varð til mjög óvart. Ég var í sturtu síðasta vor þegar ég fór að raula það og Maríu unnustu minni fannst melódían strax catchy og hvatti mig til að gera eitthvað meira við hana. Ég ákvað að gamni að semja texta og tók svo lagið upp á símann minn.“

Til að byrja með gerði Ingileif ekkert við lagið en eftir pressu frá Maríu Rut Kristinsdóttur, unnustu sinni, sendi hún lagið á Ásgeir Orra.

„Hann tók vel í það og leist strax vel á og upp úr því hófst þetta allt saman.“

Ástin allskonar

Endanleg mynd var komin á lagið í desember að sögn Ingileifar en þá stakk hún af til Taílands ásamt unnustu sinni og beið með útgáfuna þangað til hún kom heim. Þá var komið að því að búa til tónlistarmyndband og segir Ingileif að hún hafi verið með ákveðna hugmynd um myndband sem myndi tóna við lagið. Hún hafi haft samband við Birtu Rán Björgvinsdóttur sem leikstýrði myndbandinu og Arnar Stein Einarsson sem tók myndbandið upp.

„Ég sagði þeim mínar pælingar um að hafa lesbísk pör að horfast í augu, hlæja og kyssast - og við ákváðum að kýla á það. Ég auglýsti eftir pörum á Facebook grúppunni Hinseginspjallinu og fékk nokkur skilaboð eftir það og heyrði svo sjálf í nokkrum stelpum sem ég þekki og þær voru allar til í að vera með. Birta og Arnar gerðu þetta svo ótrúlega fallega og ég er mjög ánægð með útkomuna,“ segir Ingileif.

„Ástin er allskonar og í mínu tilviki er hún svona og mig langaði að það myndi skína í gegn í myndbandinu. Svo plataði ég unnustu mína til að vera með í lokaskotinu svo það rammar þetta aldeilis inn.“

Útkomuna má sjá og heyra í spilaranum hér fyrir neðan.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.