Umfjöllun og viðtöl: ÍR - Stjarnan 64-87 | Stjarnan skellti toppliðinu í Breiðholtinu

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Ryan Taylor hjá ÍR.
Ryan Taylor hjá ÍR. Vísir/Hanna
Topplið ÍR fékk lið Stjörnuna í heimsókn í kvöld í Hertz höllina í Breiðholtinu í Dominos deild karla í körfubolta. ÍR fór inn í leikinn með fimm sigurleiki í röð í farteskinu en Stjarnan hefur átt erfitt með meiðsli og stöðugleika það sem af er vetri.

Leikurinn fór vel af stað fyrir bæði lið og stefndi allt í skemmtilegan og spennandi leik. Hægt og rólega fór þó að renna tvær grímur á háværu stuðningsmenn ÍR-inga er gestirnir fóru hægt og rólega að taka öll völd á vellinum.

Í hálfleik var staðan heldur betur óvænt miðað við gengi liðanna í vetur en staðan var þá 35-47, Stjörnunni í vil. Athygli vakti að Stjarnan var að eiga stórleik í þriggja stiga nýtingunni en liðið hafði þá nýtt 9 af 15 skotum á meðan ÍR hafði einungis nýtt 3 af 12.

Ef einhver var að gera sér vonir um að ÍR myndi snúa taflinu við þá varð sá hinn sami vonsvikin. Stjarnan hélt uppteknum hætti og efldist ef eitthvað var á meðan ÍR liðið var skugginn af sjálfum sér.

Stjarnan kláraði leikinn að lokum 64-87. Algjörlega verðskuldaður sigur hjá þeim frá A-Ö og verður spennandi að sjá hvernig liðin koma til að mæta til leiks á komandi vikum.

Afhverju vann Stjarnan?

Stjarnan var grimmari, árásargjarnari og þar að auki nýtti liðið skotin sín frábærlega. Þriggja stiga nýting liðanna segir ýmislegt en ÍR hitti t.a.m. úr 5 af 27 tilraunum sínum á meðan Stjarnan sveif á bleiku skýi og nýtti 14 af 29 tilraunum sínum.

Og þá er vert að taka fram að þegar sigurinn var kominn í farteskið voru gestirnir úr Garðabænum oft að leika sér að því að taka skot nánast frá miðjuhringnum. Svo sjálfsöruggir voru leikmenn liðsins.

Stjarnan skein bjartar á meðan ÍR hrapaði eftir því sem leið á leikinn. Þetta var fyllilega verðskuldaður Stjörnu sigur frá A-Ö.

Hvað gekk illa?

Allur leikur ÍR var hroðalegur. Fyrsti leikhluti var allt í lagi en þar á eftir lá leiðin beint niður á við. Ef við komum aftur að skotnýtingu liðsins þá hitti ÍR einungis 13 af 27 vítaköstum. Stjarnan nýtti 21 af 25.

Þessar tölur gefa mjög skýra mynd af leiknum og hverskonar von -og andleysi ríkti á meðal ÍR-inga.

Hverjir stóðu upp úr?

Hlynur Bæringsson var óaðfinnanlegur. Það vita allir sem fylgjast með körfubolta hvers maðurinn er megnugur en hann gjörsamlega átti leikinn. Hann var frábær í sókn og enn betri í vörn.

Þrátt fyrir að stöðva sókn eftir sókn hjá ÍR-ingum þá endaði hann leikinn með einungis tvær villur og sú fyrsta kom í 3. leikhluta.

Hann var ólýsanlega góður og ég var gjörsamlega með stjörnur í augunum er ég ræddi við hann eftir leik.

Hlynur Bæringsson, leikmaður Stjörnunnar, var að frákasta vel í kvöld eins og svo alloft áður.vísir/ernir
Hlynur: Það lifnaði eitthvað sem hefur legið í dvala

„Ég er mjög ánægður með bæði,“ sagði Hlynur aðspurður um fyrstu viðbrögð sín við frammistöðu hans og liðsins eftir öruggan Stjörnusigur á liði ÍR í Dominos deild karla.

„Það var gott fyrir okkur að rífa okkur upp eftir síðasta leik,“ sagði Hlynur en Stjarnan tapaði mikilvægum leik gegn Þór Þorlákshöfn á heimavelli í síðustu umferð.

„Þórsarar spiluðu reyndar vel en það ríkti stemmingsleysi hjá okkur og margir leikmenn náðu sér ekki á strik. Það var því mjög gaman að vinna og það hérna af öllum stöðum,“ sagði Hlynur en þrátt fyrir að ÍR hafi tapað inn á vellinum er ekki vafi um að stuðningsmenn liðsins eiga allt hrós skilið.

„Það er bara mjög gaman að spila hérna. Það lifnaði eitthvað sem var kannski búið að liggja í dvala. Ég skal alveg viðurkenna það að þegar maður kemur inn í svona stemmingu þá kveikir það eitthvað innra með manni.“

Stjarnan hefur átt erfitt með að ná upp stöðugleika í sínum leik. Liðið hefur unnið og tapað til skiptis en getur þessi leikur hjálpað þeim með átökin sem framundan eru?

„Getum við tekið þetta með okkur? Já, vonandi eitthvað sjálfstraust. Oft í vetur þegar það hefur gengið illa höfum við kannski byrjað að efast um sjálfa okkur og liðið. Vonandi tökum við þetta bara með okkur í framhaldið.“

Matthías Orri: Óásættanlegt hjá mér og liðinu

Matthías Orri Sigurðarson, leikmaður ÍR, var óneitanlega mjög ósáttur í leikslok eftir tap liðsins gegn Stjörnunni.

„Ég er mjög svekktur. Þetta var óásættanleg frammistaða hjá okkur hér í kvöld og sérstaklega á heimavelli,“ sagði Matthías og sagði hvernig liðið tapaði sérstaklega sárt.

„Við vissum að tapleikurinn myndi koma einhverntímann en þetta var full léleg frammistaða af okkar hálfu. Við viljum ekki tapa svona og hvað þá á heimavelli.“

Hann sagði að hann og allir aðrir leikmenn liðsins hefðu verið að gera byrjendamistök sem þeir borguðu með dýrum dómi.

„Opnir þristar og víti voru að fara í súginn. Ég sem leiðtogi verð að taka þetta á mig. Ég get ekki verið að eiga einhverja slæma daga í febrúar. Þetta var ekki ásættanlegt af mér og liðinu.“

Hann segir að liðið verði að nýta sér þetta tap og lýta á framhaldið sem nýja áskorun. Næsti leikur liðsins er aftur á heimavelli og þá gegn Þór Þorlákshöfn.

„Ég get ekki beðið eftir leiknum hérna á miðvikudaginn. Hann gæti ekki komið of snemma.“

 

Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnarvísir/andri marinó
Hrafn: Menn voru tilbúnir 

Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, var að vonum sáttur og hrósaði varnarleik sinna manna.

„Ég veit ekki hvort ég geti kallað þetta viðbrögð-strax-eftir-leik. Manni leið eins og mér líður núna bara í gegnum allan leikinn. Menn voru tilbúnir og það sást á varnarleiknum.“

Aðspurður hvort þessi leikur gæti hjálpað Stjörnunni á komandi vikum vildi Hrafn spara öll stór orð.

„Við þurfum að passa okkur og átta okkur á að þetta var enginn yfirlýsing. Ef þetta var yfirlýsing þá erum við búnir að eiga nokkrar í vetur,“ sagði Hrafn og hélt áfram.

„Við trúum þeirri yfirlýsingu mest sjálfir og eigum svo slæman leik á eftir. Eigum við ekki bara að segja að við getum kallað þetta yfirlýsingu þegar við fylgjum henni eftir með svipaðri frammistöðu í næstu leikjum.“

Borce Ilievski, þjálfari ÍR.Vísir/Ernir
Borche: Góð lexía fyrir mig og liðið

„Ég er af sjálfsögðu vonsvikin með tapið og hvernig við spiluðum. Við undirbjuggum okkur vel,“ sagði Borche, þjálfari ÍR, eftir leik.

Hann sagði að leikur liðsins hafði byrjað að hraka vegna skiptinga sem hann gerði og það mjög snemma í leiknum.

„Lykil stundin fyrir mér var í fyrsta leikhluta þegar ég skipti leikmönnum inn og út. Við misstum taktinn þá og eftir það fór allt að ganga á afturfótunum,“ sagði Borche og hélt áfram.

„Þetta er auðvitað bara í upphafi leiks og okkur vantaði að leikmenn snéri taflinu við. Við byrjum svo seinni hálfleik á að fá á okkur sjö ósvöruð stig og þá var það of mikið fyrir okkur.“

Hann sagði Stjörnuna hafa átt sigurinn skilið og sagði tölfræðina segja alla sögunna.

„Tölfræðin lýgur ekki. Þegar þú hittir einungis 14 vítaskot af 27 skotum þá segir það allt um muninn á milli liðanna. Við misstum taktinn og misstum sjálfstraustið eftir því sem leið á leikinn,“ sagði Borche og hélt áfram.

„Við reyndum að koma til baka en það var enginn leikmaður sem gat stigið upp í kvöld og leitt liðið áfram.“

Hann segir að liðið geti og verði að læra af þessu.

„Þetta er góð lexía fyrir mig og liðið mitt. Við verðum að vinna allt okkar inn. Það á enginn eftir að koma hingað og gefa okkur sigurinn á silfurfati.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira