Erlent

Lést við sjálfsmyndatöku á lestarteinum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hér má sjá lestarstöð í Bangkok, sem þó tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Hér má sjá lestarstöð í Bangkok, sem þó tengist efni fréttarinnar ekki beint. LILLIAN SUWANRUMPHA
Kona lést eftir að hún reyndi að taka sjálfsmynd með vini sínum á lestarteinum í Tælandi. Slysið átti sér stað aðfaranótt fimmtudags í höfuðborginni Bangkok og rannsaka yfirvöld nú tildrög þess.

Vinur þeirra, sem fygldist skelkaður með því þegar lestin hafnaði á tvíeykinu, segir að þau hafi setið að sumbli um kvöldið. Þegar óminnishegrinn fór að gera vart við sig hafi þau ákveðið að taka mynd af sér við hlið kyrrstæðrar lestar. Þau hafi hins vegar ekki tekið eftir lestinni sem kom aðvífandi úr gagnstæðri átt.

Konan, sem var 24 ára, lést af sárum sínum en annar fótleggur hennar rifnaði af við áreksturinn. Vinur hennar, sem einnig varð fyrir lestinni, slasaðist að sama skapi alvarlega.

Að sögn breska ríkisútvarpsins fjölgar þeim sem látast á hverju ári við það að taka sjálfsmyndir af sér í háskalegum aðstæðum. Þannig virðist það nú vera í tísku á Indlandi að taka myndband af sér á lestarteinum og stökkva af þeim í þann mund sem lestin keyrir framhjá.

Indverskur karlmaður lést við athæfið í janúar og fimm ungmenni í landinu urðu fyrir lest þegar þau reyndu slíkt hið sama undir lok síðasta árs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×