Skoðun

Bætum vinnuaðstæður kennara

Skúli Helgason skrifar
Reykjavíkurborg hefur í samstarfi við fulltrúa kennara, skólastjóra og fleiri, gripið til aðgerða til að bæta vinnuaðstæður kennara í grunnskólum. Kynntar hafa verið ríflega 30 tillögur sem snúa að bættu vinnuumhverfi, aukinni nýliðun, breytingum á kennaramenntun og starfsþróun og hefur rúmlega 600 milljónum króna þegar verið varið í að hrinda fyrstu tillögunum í framkvæmd til viðbótar tæpum 700 milljónum sem bættust við fjárhag grunnskólanna í fyrra. Félag grunnskólakennara og skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar efna í dag til málþings á Grand hóteli kl. 13.15 um vinnu starfshópsins. Málþingið er liður í víðtækri samræðu við kennara í Reykjavík um tillögurnar og við leggjum mikla áherslu á samvinnu við kennara um forgangsröðun og innleiðingu tillagnanna.

Ný úrræði

Í viðamikilli rýnivinnu meðal kennara í borginni í fyrra birtist sterkt ákall þeirra um að auka beinan stuðning við nemendur með fjölbreyttar sérþarfir í skólastofunni. Fyrstu skrefin hafa nú verið stigin í þessa átt með ráðningu hegðunarráðgjafa í öllum borgarhlutum sem munu starfa úti í skólunum við hlið kennara. Þá hafa brúarsmiðir sem þjóna börnum af erlendum uppruna tekið til starfa á vegum Miðju máls og læsis og talmeinafræðingum verður fjölgað. Fjölgað verður úrræðum til að mæta börnum sem glíma við fjölþættan vanda. Ætlunin er að setja á á fót farteymi sérfræðinga, sem munu vinna að lausn þeirra mála sem eru mest krefjandi. Til að bregðast við miklu brotthvarfi ungra kennara úr starfi er nauðsynlegt að styrkja handleiðslu, ráðgjöf og stuðning við unga kennara. Við leggjum til að allir nýir kennarar hafi sinn leiðsagnarkennara og við munum bæta til muna aðbúnað kennara og nemenda varðandi tölvukost og hagnýtingu upplýsingatækni í skólastarfi, þar með talið með markvissri kennsluráðgjöf í samræmi við nýja stefnumótun um upplýsingatækni.

Allar tillögur starfshópsins verða til umræðu á málþinginu í dag og eru allir sem hafa áhuga á framþróun skólamála hvattir til að mæta.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×