Skoðun

Frá ábyrgðarleysi til ábyrgðar

Haukur Arnþórsson skrifar

Krafa almennings um að stjórnmálamenn axli ábyrgð er afdráttarlaus og fólk virðist ekki sætta sig við að fyrstu skrefin í þá átt séu ekki tekin í landsréttarmálinu. Það mál gefur ríkisstjórninni gott tækifæri til þess að fara í þá átt - þá með yfirlýsingu um að það sé hluti af mótun nýrra hefða í stjórnmálum.



Engu að síður er það svo að hafa má ákveðna samúð með Sigríði Andersen gagnvart kröfunni um að hún segi af sér og verði þannig einn af fyrstu stjórnmálamönnunum til þess að axla ábyrgð.



Vegna þess að hún er sennilega fórnarlamb í málinu; alltaf hefur leikið grunur á að um ákvörðunina hafi verið samið á Alþingi af ríkisstjórnarmeirihlutanum. Á Alþingi er samið milli ríkisstjórnarflokkanna um mál sem koma eiga fram í þinginu í nafni ríkisstjórnarinnar og þarf í því ferli að taka tillit til vilja samstarfsflokkanna.



Fullyrðinguna um að ákvörðunin hafi verið tekin af meirihlutanum á Alþingi má m.a. rökstyðja með því að Viðreisn kom strax eftir að tillaga dómnefndarinnar kom fram með að ekki væri gætt jafnræðis milli kynjanna. Tillagan gerði ráð fyrir 10 körlum og 5 konum. Við þessu var orðið og með ákvörðun dómsmálaráðherra urðu 8 karlar og 7 konur dómarar.



Munum að helsta vörn ríkislögmanns í málinu var að ákvörðunin hefði verið tekin af löggjafanum, um hans störf gilda fáar reglur og stjórnsýslulög ekki. Á þessi sjónarmið féllst Hæstiréttur ekki og gerði framkvæmdarvaldið (ráðherrann) ábyrgan. Þess vegna gilda stjórnsýslulög og fyrir hendi gæti verið bæði bótaréttur og skaðabótaréttur – sem væri ekki ef Alþingi bæri ábyrgðina.



Það er skiljanlega erfitt fyrir Sigríði að víkja vegna ákvörðunar sem hún hélt jafnvel að hún tæki ekki. Og það er ekki víst að þingmenn Viðreisnar myndu samþykkja vantraust á hana vegna þessa máls ef tillaga um það kæmi fram á Alþingi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×