Lífið

Mannslíf meira virði en hár

Þórdís Lilja Gunnarsdóttir skrifar
Sólborg Guðbrandsdóttir er tvíeggja tvíburasystir og á eineggja tvíburabræður, en aðeins tvö ár voru á milli tvíburafæðinga hjá foreldrum hennar sem hún ber ómælda virðingu fyrir.
Sólborg Guðbrandsdóttir er tvíeggja tvíburasystir og á eineggja tvíburabræður, en aðeins tvö ár voru á milli tvíburafæðinga hjá foreldrum hennar sem hún ber ómælda virðingu fyrir. MYND/VILHELM
Sólborg Guðbrandsdóttir vakti athygli fyrir snoðklipptan koll við gullfallegt andlit sitt í tengslum við undankeppni Eurovision 2018 en hárið fauk fyrir börn á flótta.

Ég viðurkenni að hafa átt augnablik þar sem ég hef orðið lítil í mér og saknað þess að vera með hár, en þá reyni ég að minna mig á að ég þurfi ekkert sítt hár til að teljast nóg og með því að snoða mig hafi ég hjálpað öðrum, eins furðulegt og það nú er,“ segir Sólborg sem lét sólgyllta lokkana fjúka til styrktar Rohingjum sem er hópur múslima sem sótt hafa ofsóknum og hryllilegri meðferð í Mjanmar í Bangladesh.

„Viðbragð mitt við spegilmyndinni sem við blasti eftir raksturinn var hversu drullusæt ég væri svona sköllótt,“ segir Sólborg og hlær. 

„Annars hafa viðtökur annarra verið alls konar. Mörgum finnst þetta töff og einhverjum ekki flott og það er allt í lagi. Ég snoðklippti mig ekki til að uppfylla kröfur annars fólks heldur til að hjálpa börnum á flótta. Álit annarra á útliti mínu skiptir mig ekki máli og hefur ekki áhrif á ákvarðanir sem ég kýs að taka,“ segir Sólborg sem hét því að láta snoða sig ef hún, í slagtogi við fleiri ungmenni sem eru með opið Snapchat, næðu að safna einni og hálfri milljón fyrir UNICEF.

„Það gekk eftir og ég stóð við mitt,“ segir Sólborg sem á nú fullt í fangi með fólk sem reynir að snerta á henni kollinn. 

„Fullorðnar manneskjur þurfa ekki að snerta allt sem þær sjá og ég held að fæstir kæri sig um að ókunnugt fólk strjúki á þeim hausinn óumbeðið. Ég hef lent í því oftar en ég get talið og hef heyrt þetta frá mörgum snoðuðum stelpum. Ætli þetta sé ekki svipað og þegar fólk strýkur magann á óléttum konum, sem er algjörlega óviðeigandi og algjör óþarfi.“

Sólborgu þykir gaman að breyta til þegar kemur að útliti.

„Ég hef verið með alla heimsins hárliti og í dag finnst mér gaman að nota hárkollur. Ég get skipt um greiðslu á hverjum degi ef mig langar, án þess að það hafi slæm áhrif á hárið. Annars hefur notkun mín á húfum aukist verulega síðustu mánuði og ég vissi ekki að það væri svona kalt á Íslandi fyrr en hárið fékk að fjúka,“ segir hún og kímir.

Frá því Sólborg man eftir sér hafði hún verið með sítt hár.

„Ég ákvað samt að mikla þetta ekki fyrir mér því hár er bara hár. Það vex aftur og meira að segja frekar hratt. Það sem skiptir máli í þessu lífi er eitthvað allt annað en að vera síðhærð. Ég tel mig hafa meira fram að færa en hárgreiðsluna mína og það er ótrúlega kaldhæðið og skrýtið að sitja í viðtali í stóra herberginu mínu, sem er með hita og rafmagni, vitandi af allri fjölskyldunni minni óhultri innan heimilisins. Sú eina og hálfa milljón sem safnaðist í staðinn fyrir ómerkilegt hár hefur kannski lítið að segja þegar fólk missir ástvini sína í stríðsástandi sem við hin lokum bara augunum fyrir. Hárið mitt er ekki neins virði, en mannslíf er það.“

Sólborg tók kveðst ekki vera að flýta sér að verða síðhærð aftur og þess vegna fari hún snoðklippt utan ef Ég og þú skyldi sigra í söngvakeppninni hér heima.MYND/VILHELM
Fallegt og berskjaldað

Sólborg syngur eigin lagasmíð í Söngvakeppninni 2018 en lagið samdi hún með velska lagahöfundinum Rob Price og Tómasi Helga Wehmeier, sem flytur lagið með henni. 

„Ég sendi lag í keppnina í fyrra sem komst ekki í gegn, en þegar manni tekst ekki eitthvað sem maður ætlar sér í fyrsta skiptið þá reynir maður aftur þangað til það tekst. Ég hef lagt hart að mér síðastliðið ár til að komast þangað sem ég vil vera og mun halda því áfram,“ segir Sólborg.

Lagið er Ég og þú og er eitt tólf laga af rúmlega 200 sem valin voru til þátttöku í undankeppni Eurovision í ár.

Upprunalega hafði Rob samband við Tómas eftir að hafa séð hann í Voice. Þeir ákváðu að búa til lag fyrir Eurovison og Tómas stakk upp á að það yrði dúett og þar kom ég inn. Við fórum svo til London í ágúst til að semja lagið og tókum það upp daginn eftir. Allt var það frekar mikil keyrsla en ferðin var algjör draumur,“ segir Sólborg og lýsir laginu sem fallegu, berskjölduðu og hreinskilnu.

„Mér finnst gaman að syngja með Tómasi en lagið er frekar ólíkt tónlistinni sem ég syng vanalega. Mér finnst bæði gaman að syngja og rappa og ég leitast við að syngja og semja lög sem eru svolítil blanda af því. Það höfðar líka til mín að vera beinskeytt og ákveðin í textum og næstu lög sem ég gef út verða í þeim dúr.“

Frá barnsaldri hefur Eurovision fangað hug og hjarta Sólborgar.

„Ég er sannur aðdáandi og flestar keppnirnar hef ég horft á í sófanum heima með fjölskyldunni minni. Við elskum öll tónlist og það er gaman að ræða atriðin fram og til baka með þeim,“ segir Sólborg. Uppáhaldslag hennar úr Eurovision er vinningslagið frá því í fyrra, Amar Pelos Dois með Salvador Sobral. „Mér finnst lagið dásamlegt og hann sem tónlistarmaður líka.“

Sólborg kveðst ekki flýta sér að verða síðhærð aftur og þess vegna fari hún snoðklippt utan ef Ég og þú skyldi sigra í keppninni heima.

„Mér finnst þessi hárgreiðsla bæði flott og þægileg, en hárgreiðslan mín í Eurovision væri algjört aukaatriði þegar kemur að keppninni sjálfri. Ég ætla bara að gera mitt besta í undankeppninni 10. febrúar og það sem gerist í kjölfarið á því verður algjör bónus.“

Sólborg starfar sem blaðamaður á Víkurfréttum og stendur nú í ströngu við að þjálfa lið Fjölbrautaskóla Suðurnesja fyrir MORFÍS-keppnina.MYND/VILHELM
Tvöfaldir söngelskir tvíburar

Sólborg er Keflvíkingur og kemur úr söngelskri fjölskyldu. Faðir hennar er Guðbrandur Einarsson, tónlistarmaður og forseti bæjarstjórnar í Reykjanesbæ. Móðir hennar er Margrét Sumarliðadóttir hárgreiðslumeistari sem snoðaði svo fallegan kollinn á Sólborgu. Stóri bróðir Sólborgar er leikarinn Davíð Guðbrandsson og hún á tvíburasystur. Þær eru tvíeggja en svo á hún líka eineggja tvíburabræður sem eru tveimur árum yngri en tvíburasysturnar.

„Það er enginn í þessum heimi sem ég virði meira en foreldra mína, og margir hafa velt því fyrir sér hvort geðheilsa foreldra minna sé enn í lagi eftir að hafa verið með fjögur grenjandi smábörn á bleium á sama tíma,“ segir Sólborg broshýr. Hún þekkir heldur ekki annað en að alast upp með mörgum systkinum og á líflegu heimili.

„Ég held það sé mismunandi eftir tvíburum hversu samrýmdir þeir eru. Við Sigríður systir erum mjög ólíkar en samt sem áður bestu vinkonur og ég held að við verðum það alltaf. Hún býr yfir kostum sem ég hef ekki og öfugt, og við erum duglegar að kenna hvor annarri og vera til staðar þegar hin þarf á því að halda. Bræður mínir eru hins vegar ótrúlega líkir,“ segir Sólborg, en til gamans má geta að Sigríður syngur bakrödd í Ég og þú og Davíð samdi textann. „Davíð er ótrúlega flinkur og klár og ég leita mikið til stóra bróður míns þegar mig vantar aðstoð, bæði þegar ég bý til lög og með annað í lífinu.“

Sólborg hefur í nægu að snúast þessa dagana. Hún starfar sem blaðamaður á Víkurfréttum og stendur nú í ströngu við að þjálfa lið Fjölbrautaskóla Suðurnesja fyrir MORFÍS-keppnina, en í því liði var hún sjálf síðastliðin þrjú ár.

„Það er nóg að gera en mér finnst það gaman. Við syngjum öll í fjölskyldunni og bræður mínir sömdu meðal annars jólalag þegar þeir voru tíu ára gamlir sem við systkinin sungum saman. Ég hef líka lent í því að taka sjónvarpsviðtal við pabba fyrir Víkurfréttir þannig að við pabbi höfum þurft að starfa saman á fleiri sviðum en í tónlistinni,“ segir hún og hlær, lífsglöð og kát.

Fylgstu með Sólborgu á Insta­gram undir solborgg og á Snapchat undir sunnykef.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×