Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Fram 24-23 | Haukakonur skoruðu fjögur síðustu mörkin

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
Maria Ines Silva Pereira.
Maria Ines Silva Pereira. Vísir/Ernir
Frábær lokakafli Hauka skilaði þeim sigri gegn Fram á Ásvöllum í dag, 24-23. Haukar voru mest 8 mörkum undir en staðan í hálfleik 10-12 Fram í vil. 

Haukar og Fram buðu uppá ótrúlegan leik, Haukar áttu fínar fyrstu mínútur og leiddu fyrstu 10 mínúturnar á meðan var Fram að fínstilla vörnin sína og finna taktinn. Fljótlega fór Fram að ná yfirhöndinni á leiknum, vörnin var þétt, hávörnin var að verja mikið af skotum frá Haukum og sóknin gekk vel. Fyrri hálfleikurinn var jafn en Fram alltaf skrefinu á undan, staðan þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks 10-12 Fram í vil, verðskulduð staða. 

Í seinni hálfleik gat allt gerst og það gerðist allt. Haukar byrjuðu seinni hálfleikinn illa, það gekk ekkert upp í sókninni, þær töpuðu mikið af boltum og vörnin var illa skipulögð. Fram hélt áfram að bæta á forskot sitt og þegar 15 mínútur voru til leiksloka var staðan 13-21, átta marka munur og aðeins formsatriði fyrir Fram að klára leikinn. Elías Már gerði þá breytingu á sínu liði, breytti vörninni sem hafði ekki verið góð til þessa en breytingin varð til þess að Fram skoraði aðeins 2 mörk síðusta stundarfjórðunginn á móti 11 mörkum frá heimastúlkum. Haukar snéru leiknum sér í vil og unnu síðasta korterið 11-2 og lokatölur 24-23 í mögnuðum leik. 

Af hverju unnu Haukar

Þeirra góði kafli kom síðasta korterið og það var nóg. Karakterinn sem liðið sýndi í dag var frábær og þær sýndu að það er allt hægt á meðan maður gefst ekki upp. 8 mörkum undir þegar 15 mínútur eru til leiksloka er auðvelt að telja þetta búið en svo var ekki. Haukastelpur þéttu vörnina, nýttu færin sín og héldu haus það skilaði þeim sigrinum. 

Hvað gekk illa

Fyrst og fremst gekk Fram illa að klára leikinn, það var formsatriði fyrir þessa leikmenn að klára svona leik. Reynslan í liðinu er mikil og hreint út sagt ótrúlegt að þær hafi tapað niður 8 marka forystu á svona stuttum tíma. 

Hjá Haukum var margt ábótavant fyrstu 45 mínúturnar. Þær gerðu mikið af tæknifeilum, töpuðu ítrekað boltanum í sókninni ásamt því að leyfa vörn Fram að verja frá sér hvað eftir annað. Á löngum kafla gekk Mariu Ines illa að skora, vörn Fram kom vel á móti henni og varðist vel en hún gafst ekki upp og skoraði á lokum 7 mörk. 

Hverjar stóðu uppúr 

Hjá Fram áttu flestar góðan leik, Ragnheiður Júlíusdóttir (6) og Hildur Þorgeirsdóttir (5) voru báðar frábærar í vörn og sókn og þá átti Elísabet Gunnarsdóttir einnig góðan leik á línunni með 6 mörk. 

Í Haukaliðinu stóð Maria Ines uppúr, hún var þar atkvæðamest með 7 mörk úr ansi mörgum tilraunum en hún gafst ekki upp og hélt alltaf áfram að ógna. Þá má gefa Alexöndru Líf hrós fyrir sína innkomu á síðasta stundarfjórðungnum en hún kom inní vörn Hauka af þvílíkum krafti og tók þátt í því að snúa leiknum við. 

Markverðir liðanna áttu báðir ágætis leik eins og svo oft áður. Þær Elín Jóna Þorsteinsdóttir hjá Haukum og Guðrún Ósk Maríasdóttir, en leikurinn þó kaflaskiptur hjá þeim líkt og leikurinn í heild sinni. 

Hvað er næst 

Næstu leikir eru eftir 10 daga, það er stutt pása aftur en þá fara Haukar til Vestmannaeyja og spila við ÍBV á meðan Fram tekur á móti toppliði Vals.

 

Elías Már: Ég er bara í sjokki

Ég er hreinlega í algjöru sjokki, sagði Elías Már Halldórsson þjálfari Hauka, að leik loknum. 

„Við spiluðum þennann leik mjög illa í 45 mínútur, við gerðum mikið af tæknifeilum sóknarlega, klukkum þær ekki í fyrri hálfleik og í upphafi seinni hálfleiks. Ég var bara ekki nógu ánægður með fyrri hálfleikinn hjá okkur, vörnin var ágæt en sóknarlega vorum við að klúðra og ekki að halda breiddinni eins og við lögðum upp með. Leikurinn bar þess merki hjá okkur að við höfum ekki spilað síðan 17 desember en það á það sama við um Fram“

Líkt og Elías Már segir þá var lítið sem stefndi í sigur Hauka, þrátt fyrir að hafa staðið í Fram í fyrri hálfleiknum var upphaf síðari hálfleiks dapurt og liðið 8 mörkum undir þegar 15 míntúr voru til leiksloka. 

„Við náðum bara ekki takti fyrstu 40 mínúturnar, svo gerist það bara enn og aftur að karakterinn í þessu liði er ótrúlegur og í stöðunni 18-12 þá hugsaði ég bara að ég hef engu að tapa, ég verð að breyta einhverju. Ég setti Alexöndru Líf inní vörnina og hún var algjörlega stórkostleg, hún kom mér og eflaust sjálfri sér á óvart með þessari frammistöðu í dag. Alexandra ásamt Kareni Helgu klára þennann leik fyrir okkur.“ sagði Elías Már sem hrósar innkomu Alexöndru Lífar í dag. 

„Þetta var lykilskiptin hjá mér að setja Alexöndru Líf inní þetta, hún er mjög hávaxin og mjög sterk. Hún kom inn eins og hún væri búin að spila í 20 ár í deildinni þrátt fyrir að vera bara 17 ára þá rak hún hinar stelpurnar áfram“

„En við verðum að læra af þessu, það er ekki gott að mæta jafn sterku liði og Fram og vera á hælunum í 30-40 mínútur, það bara gengur ekki. En þetta dugði okkur, skilið eða ekki skilið, líklega áttum við sigurinn ekki skilið en við tókum þessi tvö stig og ég er hrikalega ánægður með það.“

Þórhildur Braga Þórðardóttir fékk alvarlegt höfuðhögg fyrr í vetur en hún fékk einnig smávægilegt högg í leiknum í dag. Hún hvíldi einhverjar mínútur en þurfti síðan að fara fljótlega útaf aftur vegna höfuðverks og segir Elías að óþarfi sé að taka einhverjar áhættur þegar um höfuðhögg sé að ræða.

„Hún fékk alvarlegt höfuðhögg fyrr í vetur og við viljum ekki taka neinar áhættur með það. Þetta er alltaf hætturlegt þegar annað og þriðja höggið kemur, hún var með smá höfuðverk og við ákváðum bara að láta hana hvíla, það eru tvær vikur í næsta leik og hún verður alveg klár í hann.“ sagði Elías Már að lokum. 

 

Steinunn: óásættanlegt hrun í seinni hálfleik

Þær voru blendnar tilfinningarnar hjá Steinunni Björnsdóttur leikmanni Fram í dag. Steinunn spilaði sinn fyrsta leik eftir barnsburð og var að vonum ánægð að vera komin aftur á völlinn en átti erfitt með að sætta sig við lokatölur leiksins. 

„Ég vildi að ég væri með einhver góð viðbrögð núna en þetta var bara skelfilegur loka kafli hjá okkur í seinni hálfleik. Við komumst í 13-21 í seinni hálfleik og síðan hrynur okkar leikur eftir það.“ 

„Ég er virkilega ánægð með fyrri hálfleikinn og byrjunina í seinni hálfleiknum, en það er erfitt að vera ánægð með það þegar við töpum síðan leiknum. Síðasta korterið verður okkur að falli í dag og við þurfum bara að skoða það hvað virkilega gerðist.“ segir Steinunn sem segist ekki vera með nein almennilega svör við því hvað gerist en jafn reynslu mikið lið og Fram á ekki að tapa niður 8 marka forystu á 15 mínútum en þær skora ekki nema tvö mörk á þeim kafla. 

„Við eigum algjörlega að klára þetta, við erum með leikmenn í okkar liði sem eiga að klára svona leik. Við erum komnar í 8 marka forystu en ég veit bara hreinlega ekki hvað gerist“

„Við fórum að verða seinar tilbaka, þær voru að keyra á okkur og við fengum þar af leiðandi á okkur hraðaupphlaupsmörk sem við erum ekki vanar að vera að fá á okkur, sóknarleikurinn, varnarleikurinn, það einhvernveginn fellur allt bara. Ég fékk brottvísun undir lok leiks þegar við erum tveimur mörkum yfir, það voru dýrar tvær mínútur sem ég fékk þar. segir Steinunn en Haukar náðu forystunni á þeim tveimur mínútum.“

Það voru eflaust ekki margir áhorfendur leiksins sem hefðu giskað á það að Steinunn hafi eignast barn þann 16. desember eða fyrir tæpum mánuði síðan. Steinunn segist sjálf ekki hafi búist við því að geta spilað fyrsta leik eftir áramót en meðgangan gekk vel og hefur hún getað æft vel síðan hún átti. Steinunn sem átti fyrir tímann var sett 2. janúar svo það var ennþá betra að litla stelpan var tilbúin í heiminn og allt gekk að óskum fyrir Steinunni sem náði að koma sér í gott form í jólafríinu. 

„Meðgangan gekk vel, ég átti fyrir tímann og ég æfði vel, átti reyndar ekki von á að ná fyrsta leik eftir áramót en ég er glöð að vera komin tilbaka. Ég er kannski ekki alveg komin í mitt gamla form, það er ennþá smá í það. Ég var í varnarskiptingu í dag svo ég náði góðri hvíld inná milli, vonandi kemur þetta bara tímanum“ 

„Ég hef svo gaman að þessu, ég væri auðvitað ekki í þessu ef mér þætti þetta ekki gaman. Minn styrkleiki er líka að vera ánægð og peppa alla og ég hef líka gaman að því.“ sagði Steinunn að lokum en það sást vel á vellinum í dag, leikgleðin var mikil og naut hún þess að vera komin aftur.  

Það styttist í annann mikilvægan leikmann Fram, Karen Knútsdóttir hitaði upp með liðinu í dag og var á bekknum Stefáni Arnarssyni þjálfara til aðstoðar. Karen sem sleit hásin í meistaraleik liðsins gegn Stjörnunni þann 8. september er á batavegi, undirbúningur gengur vel og segir Steinunn að búast megi við henni í mars. Fram ætti því að ná sínu sterkasta liði fyrir úrslitakeppnina nái þær að halda sínu sæti þar. 

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira