Viðskipti innlent

Vilja tvöfalda veltuna eftir rússíbanareið

Haraldur Guðmundsson skrifar
Eyjólfur Magnús Kristinsson tók við starfi forstjóra Advania Data Centers í síðasta mánuði en hefur starfað hjá móðurfélaginu og forverum þess um margra ára skeið.
Eyjólfur Magnús Kristinsson tók við starfi forstjóra Advania Data Centers í síðasta mánuði en hefur starfað hjá móðurfélaginu og forverum þess um margra ára skeið. Vísir/Anton Brink
Áætlanir stjórnenda Advania Data Centers (ADC), dótturfélags Advania, gera ráð fyrir að velta fyrirtækisins tvöfaldist á þessu ári og verði um sex milljarðar króna. Tæp fjögur ár eru liðin síðan fyrirtækið byggði á einum og hálfum mánuði gagnaverið Mjölni á Fitjum í Reykjanesbæ til að mæta mikilli eftirspurn erlendra gullgrafara sem síðan þá hafa fyllt vasa sína af rafmyntum á borð við Bitcoin og Ethereum. Eyjólfur Magnús Kristinsson, nýráðinn forstjóri ADC, segir þennan uppgangstíma hafa verið mikla rússíbanareið og viðurkennir hversu mikil áhætta það var að fjárfesta í innviðum utan um sumar af stærstu rafmyntanámum heims.

„Á sínum tíma stigum við djörf skref og það voru ekki allir sannfærðir um ágæti þeirra. Þegar við reistum gagnaverið á Fitjum var það hugsað fyrst og fremst til að sinna viðskiptavinum í blockchain-tækninni,“ segir Eyjólfur en útgáfa á rafmyntum eins og Bitcoin og Ethereum byggir á hinni svokölluðu kubbakeðjutækni (e. blockchain technology). Um er að ræða eins konar dreifða skrá þar sem hægt er að sannreyna að allar upplýsingar innan hennar séu sannar og réttar. Þeim sem útvega nauðsynlegan tækjabúnað með mikla reiknigetu til að leysa flóknar stærðfræðiformúlur er launað með nýjum rafmyntum fyrir aðstoð við útgáfu nýrra skráa.

„Blockchain-tæknin hafði þá komið fram nokkrum árum áður en fáir vissu um hvað hún snerist. Ég hafði sjálfur takmarkaða þekkingu á henni og eftir á að hyggja var þetta mjög djarft. En við höfðum trú á verkefninu, þótt viðskiptavinir okkar á þeim tíma væru mjög háðir gengi Bitcoin sem þá var um 600 dalir. Það fór niður í 160 dali um tíma og við fundum fyrir sveiflunum hjá viðskiptavinum,“ segir Eyjólfur. Eitt Bitcoin kostar í dag um 12.000 Bandaríkjadali.

„Þannig lærðum við að flokka góða viðskiptavini frá vondum og fórum að velja þar á milli. Þetta var mikill lærdómur þar sem við þurftum að stíga ölduna með þeim. Samskiptin við fyrirtækin á orkumarkaðnum hafa sömuleiðis þróast með tímanum og skilningurinn á okkar þörfum hefur aukist. Þótt við séum nokkuð stór orkunotandi eru þarfir okkar aðrar en stóriðjunnar, sem semur um kaup á ákveðinni orku í tiltekinn tíma – yfirleitt mjög langan tíma. Við þjónustum viðskiptavini á grundvelli styttri samninga, til dæmis til þriggja ára og jafnvel skemur, og höfum því þörf fyrir kvikari orkumarkað,“ segir Eyjólfur og svarar því að ADC noti í dag um 25 megavött af raforku.

Sóknarfæri í ofurtölvunum

Nú er unnið að stækkun gagnaversins á Fitjum enda húsnæðið þar löngu sprungið líkt og í hinni byggingu ADC eða Thor Data Center á Völlunum í Hafnarfirði. Nýju byggingarnar verða að sögn Eyjólfs tilbúnar um næstu mánaðamót og er planið að næstum tvöfalda reksturinn þar. Aðspurður segir hann að framkvæmdirnar hafi tekið lengri tíma en vorið 2014 þegar fyrsti áfanginn reis á mettíma.

„Þetta tekur aðeins lengri tíma núna enda skilur enginn hvernig okkur tókst þetta 2014. Við erum núna að byggja á lóð við hliðina á þeirri fyrstu sem við byggðum á árið 2014 og munum nýta þriðju lóðina á svæðinu fljótlega. Stækkanirnar hafa verið í undirbúningi síðan í september og í rauninni höfum við þegar selt allt plássið í gagnaverunum sem eru að rísa,“ segir Eyjólfur og svarar því að stór hluti nýja húsnæðisins fari til viðskiptavina ADC sem byggja starfsemi sína á kubbakeðjunni.

Framkvæmdum við stækkun gagnavers ADC á Fitjum á að ljúka um næstu mánaðamót. Fréttablaðið/Ernir
„Reksturinn hjá okkur byggir á þremur stoðum. Í fyrsta lagi öllu sem tengist Blockchain-tækninni þar sem er óþrjótandi eftirspurn. Þar höfum við reynt að velja viðskiptavini okkar vandlega og höfum samið við fyrirtæki með góða rekstrarsögu og sem stunda vöruþróun byggða á tækninni. Sem betur fer höfum við lent í fáum skakkaföllum. Þjónusta við þessa viðskiptavini skapar allt að 75 prósent af okkar veltu. Við höfum sóst eftir þeim sem nota tæknina í fleira en einungis að grafa eftir rafmyntum. Þau fyrirtæki eru ekki jafn viðkvæm fyrir sveiflum á gengi myntanna en nokkuð hefur verið um lukkuriddara í þessum bransa sem ekki geta staðið af sér sveiflur á markaði.

Allt í allt eru um 70 fyrirtæki sem byggja á blockchain í viðskiptum við ADC. Eðli málsins samkvæmt eru mörg fyrirtækjanna frá Evrópu en nú eru að bætast við viðskiptavinir frá Asíu og Bandaríkjunum líka. Kínverjar eru frægir fyrir sína hlutdeild í Bitcoin en Japanir nota rafmyntina einna mest. Evrópa er því ekkert sérstaklega framsækin í þessum efnum.

Í öðru lagi er hið hefðbundna high-performance computing (HPC) eða rekstur ofurtölva, þar sem viðskiptavinir kaupa í rauninni reikniafl. Við erum eitt fremsta fyrirtækið í heiminum þegar kemur að ofurtölvu-skýjaþjónustu. Við erum með nokkuð marga stóra alþjóðlega viðskiptavini og það er mannafls­frekasti þátturinn í okkar starfsemi. Þar sjáum við fyrir okkur mikla vaxtarmöguleika. Við höfum til dæmis verið að vinna að verkefnum með læknadeild Stanford-háskóla og fleirum. Þessi hluti starfseminnar krefst talsverðrar orku en þarf litla bandvídd. Hann hentar okkur því mjög vel, auk þess sem íslenskar veðuraðstæður eru mjög hentugar þar sem kuldinn nýtist til að kæla tölvubúnaðinn. Það eru ótrúlega spennandi hlutir að gerast í þessum ofurtölvuheimi en mikill vöxtur er á notkun þeirra í hönnun, þróun og rannsóknum.

Nýjustu afkastamælingar okkar sýna að ofurtölvurnar ná 6-7 prósentum meiri afköstum en sams konar búnaður annars staðar í heiminum. Það er hægt að ná sama árangri annars staðar en þá þarf sérstakan búnað til að stilla raka og hita, sem leiðir til aukins kostnaðar,“ segir Eyjólfur og bætir við að þriðja og síðasta stoðin sé hefðbundin hýsingarþjónusta. Advania hafi keypt fyrirtækið Thor Data Center á Völlunum í desember 2011. Fljótlega hafi þó komið í ljós að staðsetning Íslands sé ekki eins samkeppnishæf ef flytja þarf mikið af gögnum á milli notanda og gagnaversins þar sem gagnaflutningur til og frá landinu geti eðli málsins samkvæmt verið óhagkvæmur.

Einfaldara líf

Markaðurinn fjallaði í byrjun nóvember um miklar fjárfestingar rafmyntanámunnar Genesis Mining á Fitjum. Hlutafé íslensks dótturfélags hennar var um miðjan október aukið um rúma 2,2 milljarða króna en starfsemin var nýverið seld kanadísku systur- og samstarfsfélagi Genesis. Forsvarsmenn félagsins eru Þjóðverjar og frumkvöðlar frá öðrum Evrópulöndum sem byrjuðu á réttum stað og tíma og hófu að grafa eftir Bitcoin hér á landi árið 2014.

„Þeir eru að grafa eftir Bitcoin og Ethereum en gera líka ýmislegt annað. Þeir eru til dæmis að taka skref í átt að ofurtölvutækninni og byggja á reynslunni úr námugreftrinum. Þeir eru að nýta sér sína reynslu og reiknigetu til að mæta þörfum sem standa kannski aðeins utan við blockchain-tæknina. Það er einnig áhugavert að stór hluti erlendra viðskiptavina okkar hefur stofnað fyrirtæki á Íslandi. Hér hafa því mörg fyrirtæki sprottið upp vegna okkar starfsemi, þau kaupa hér ýmsa þjónustu og eru innspýting í hagkerfið.“

Höfðuð þið aldrei áhyggjur af því hversu hátt hlutfall þið voruð að taka inn af fyrirtækjum í blockchain? „Jú, ég hafði áhyggjur af því á sínum tíma en er mun rólegri í dag enda eru stoðirnar undir rekstrinum fleiri núna en þá. Í dag er ég sannfærður um að blockchain-tæknin sé komin til að vera enda er ekki fjárfest jafn mikið í neinni annarri tækni í heiminum í dag. Notkunarmöguleikar hennar eru svo til óendanlegir. Sífellt fleiri fyrirtæki, stofnanir og ríkisstjórnir líta á blockchain sem framtíðarlausn.

Svo komum við að öðru eða því að viðskiptavinir okkar eru oft fyrirtæki sem hafa ekki bolmagn til að eða vilja ekki byggja eigin gagnaver, koma upp flóknum tæknibúnaði til að keyra gagnaversbúnað, semja við aðila orkumarkaðarins og fleira. Okkar sess í virðiskeðjunni er því að einfalda þeim lífið. Þegar aðili vill stunda rekstur sem byggir á block­chain þarf hann að stinga tölvunni í samband í skjóli frá veðri og vindum, og þar sem kæling hámarkar afköstin. Svo þarf að þjónusta vélarnar, hjálpa til við flutning, tryggja öryggi og fleira. Það má segja að ADC sé orðinn ákveðinn hraðall fyrir þessa aðila og módel okkar er afar sveigjanlegt. Við þekkjum þarfir og óskir ólíkra aðila og mætum þörfum þeirra. Þeir sem eru til dæmis í Ethereum-rafmyntinni þurfa öðruvísi umgjörð en Bitcoin-fyrirtækin.

Hvernig var afkoma ADC í fyrra? „Endanlegt ársuppgjör liggur ekki fyrir enn þá, en við vorum mjög ánægð með reksturinn á seinasta ári. Veltan rúmlega tvöfaldaðist og eftir því sem við stækkum náum við aukinni stærðarhagkvæmni. Velta ADC á árinu 2017 var rétt undir þremur milljörðum króna og við stefnum á sex milljarða á þessu ári. Það er tíföldun á tekjum á aðeins þremur árum. Við verðum því brátt í hópi 100 stærstu fyrirtækja landsins og starfsmannafjöldinn nálgast 50 á árinu. Við höfum byggt upp fyrirtækið án nokkurra ívilnana eða aðstoðar frá hinu opinbera og gleðjumst yfir árangrinum.“.
Nauðsynleg útrás

Nú eru öryggismál væntanlega efst á baugi þegar kemur að rekstri gagnavera? „Jú, því í gagnaverunum eru tölvur og tæki fyrir tugi milljarða og við erum að vanda okkur gríðarlega varðandi öll öryggismál. Öryggið er tvöfalt, bæði rafrænt og sýnilegt, og öryggisvarsla er við gagnaverin allan sólarhringinn. Viðskiptavinir okkar gera sífellt strangari kröfur um öryggismál og við viljum standast samanburð við það sem best þykir.

Þegar Ísland komst á kortið sem gagnaversland höfðum við umtalsvert forskot á Noreg og Svíþjóð. Hér voru miklir möguleikar, en skortur á ódýrri bandvídd og öruggum og hröðum gagnaflutningum var greininni til trafala. Okkur tókst engu að síður að finna okkar fjöl og hófum að selja gagnaversþjónustu til fyrirtækja sem þurfa ekki eins mikla bandvídd. Gagnatengingarnar eru því ekki stærsta vandamálið okkar í dag, en vofa alltaf yfir og þær þyrfti að bæta. Þau mál eru í sífelldri skoðun og ég er viss um að við munum halda áfram að sjá lækkandi verð og aukin gæði á gagnatengingum til og frá landinu í náinni framtíð.

Síðan vita það allir sem eru að ráða sérhæft starfsfólk á Íslandi að erfitt er að bæta við sig fólki. Við höfum til dæmis mikla þörf fyrir raf- og rafeindavirkja, en slíkir eru vandfundnir. Það er líklega auðveldara að fá tölvunarfræðinga til starfa en iðnaðarmenn og við stöndum frammi fyrir áskorunum þar. Ég geri ráð fyrir að við þurfum í auknum mæli að leita til erlendra starfskrafta, en það er ljóst að hér þarf að gera stórátak í iðnmenntun svo þjóðin verði samkeppnishæf til lengri tíma. Auðvitað er skortur á tölvumenntuðu starfsfólki einnig en þar hefur okkur þó gengið betur að ráða.“

Nú eru önnur fyrirtæki eins og Verne Global og Borealis Data Center í þessari sömu grein hér á landi. Er mikil samkeppni um kúnna? „Samkeppnin í þessum bransa er hörð. Öll íslensku fyrirtækin í okkar bransa eru að keppa um trausta alþjóðlega viðskiptavini auk þess sem við erum í samkeppni við gagnaver úti um allan heim. Íslensku fyrirtækin eru ekki í daglegum hanaslag, en þau takast á þegar áhugaverðir viðskiptavinir óska eftir tilboðum frá öllum innlendu gagnaverunum.

Noregur og Svíþjóð reyna nú í auknum mæli að lokka til sín gagnaver, með ívilnunum af ýmsu tagi. Eftir að Advania festi sig í sessi sem öflugur þjónustuaðili á þessu sviði fórum við að fá fyrirspurnir þaðan. Eftir vandlega skoðun stefnir í að við fjárfestum í útlöndum, þar sem orkan er tiltölulega ódýr og öll ytri skilyrði góð. Við erum hins vegar ekki að skoða aðrar staðsetningar hér á landi en þær sem við notum núna.

Hvernig er útlitið fyrir þetta ár? „Við sjáum fyrir okkur mikinn vöxt og sérstaklega í ofurtölvuþjónustunni. Eftirspurnin á því sviði er meðal annars drifin áfram af hraðri þróun í gervigreind, hermun af ýmsu tagi og svo framvegis. Því er spáð að fjórði hver netþjónn í heiminum verði hluti af einhverri ofurtölvusamstæðu árið 2020, sem er rétt handan við hornið. Það er gríðarlegur vöxtur fram undan á þessu sviði og við ætlum að vera tilbúin til að þjónusta þessa viðskiptavini sem þurfa mikla þjónustu. Við þurfum að vera á fleiri stöðum en á Íslandi til að veita þá þjónustu. Varðandi block­chain munu viðskiptavinir einnig vilja dreifa áhættunni og óska eftir staðsetningu á nokkrum stöðum, ekki síst þeir sem eru að keyra lokaðar keðjur og þurfa að tryggja ákveðna dreifingu á þeim búnaði sem sinnir keðjunni svo ekki sé hægt að ráðast á einn stað og þar með taka keðjuna niður.“

Viðtalið birtist fyrst í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
ICEAIR
4,31
79
484.063
EIM
2,49
10
297.262
LEQ
1,93
1
103
REITIR
1,8
10
250.982
VIS
1,75
9
173.393

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
ORIGO
-2,27
9
97.430
ISB
-0,96
23
59.908
FESTI
0
9
116.905
KVIKA
0
7
84.494
SVN
0
5
22.541
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.