Skoðun

Rétt'upp hönd strákar

Eva Magnúsdóttir skrifar
Rétt' upp hönd ef þú vilt taka raunveruleg skref í átt að jafnrétti. Þetta er einfaldlega ekki komið og staðreyndin er sú að með sama hraða þá verður fullu jafnrétti ekki náð í atvinnulífinu fyrr en á næstu öld. Lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja með yfir 50 starfsmenn voru sett 2010 og tóku þau gildi 2013. Lögin gera ráð fyrir því að hlutfall hvors kyns í stjórninni skuli vera að minnsta kosti 40% í lok ársins 2013. Eftir gildistöku laganna var hlutfall kvenna orðið að 33% í stjórnum fyrirtækja en hefur staðið í stað síðan lögin tóku gildi. Lögin hafa að auki lítil áhrif haft á stöðu kvenna í framkvæmdastjórnum eins og vonir stóðu til og sem dæmi í félögum sem eru skráð á hlutabréfamarkað eru konur í framkvæmdastjórnum einungis 25%.

Til þess að bregðast við þessari stöðnun hleypti FKA af stokkunum verkefninu Jafnvægisvoginni í samstarfi við velferðarráðuneytið, Deloitte, Sjóvá, Morgunblaðinu og Pipar\TBWA. Er markmiðið með verkefninu að auka á jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja í íslensku viðskiptalífi með það að markmiði að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja 40/60 í framkvæmdastjórnum.

Í anda markmiða Jafnvægisvogar framleiddi auglýsingastofan Pipar\TBWA metnaðarfullt myndband sem tók flugið á samfélagsmiðlunum í síðustu viku. Myndbandið lýsir mýtunni sem byggir á því að konur séu ekki nægilega vel menntaðar, þær hafi ekki reynslu og séu tregar að rétta upp hönd og taka ábyrgð. Konur hafa rétt upp hönd í mörg ár og hjá FKA eru listar þar sem fjöldi kvenna hefur lýst sig reiðubúna að koma fram í fjölmiðlum og taka sæti í stjórnum. Myndbandinu Rétt' upp hönd er ætlað að vekja athygli á uppréttum höndum kvenna.

Mælaborð jafnréttis verður kynnt á ráðstefnu FKA og samstarfsaðila þann 31. október næstkomandi á hótel Nordica. Karlar eru sérstaklega hvattir til að koma og taka þátt í umræðunni um eitt mikilvægasta málefni framtíðar, jafnrétti.




Skoðun

Skoðun

Um dánaraðstoð

Steinunn Þórðardóttir,Oddur Steinarsson,Thelma Kristinsdóttir,Katrín Ragna Kemp,Magdalena Ásgeirsdóttir,Margrét Ólafía Tómasdóttir,Ragnar Freyr Ingvarsson,Teitur Ari Theodórsson,Theódór Skúli Sigurðsson skrifar

Skoðun

Hún

Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×