Tilefnið er nýtt myndband Íslenska gámafélagsins þar sem ýjað var að því að Sorpa láti stjórnast af „hagsmunum en ekki hugsjónum“ í afstöðu síðarnefnda fyrirtækisins til banns við notkun á einnota plastpokum. Gámafélagið er þeirrar skoðunar að slíkt bann skuli leitt í lög en Sorpa sagðist ekki sjá rökin fyrir því í umsögn sinni um plastpokabannið.

Í yfirlýsingunni eru jafnframt talin upp dæmi um aðgerðir Sorpu í gegnum árin í viðleitni til að sporna við notkun á plasti. Þannig hafi fyrirtækið gefið almenningi yfir þrjátíu þúsund fjölnota burðarpoka og haldið úti fræðslu- og kynningarstarfi.
„Það eru ekki hagsmunir hjá SORPU að leyfa eða banna notkun plastpoka. Ef banna á notkun þeirra, þá þarf að gera það að yfirveguðu ráði byggðu á vísindalegum grunni þar sem m.a. er tekið tillit til þess hvað kemur í staðinn og með hvaða hætti það er innleitt. Það er ljóst að það að skipta einnota plastburðarpoka út fyrir einnota poka úr öðru efni (t.d. úr lífrænu efni) er engin töfralausn. Ákvörðun um bann við notkun höldupoka verður því að vera byggð á haldbærum rökum sem byggjast á einhvers konar ábatagreiningu,“ segir í yfirlýsingunni.
Þá er bent á að endurnýting á plasti hafi margfaldast á undanförnum árum og að nýsköpun hljóti að sjálfsögðu að vera hluti af lausninni. Hana þurfi þó alltaf að byggja á faglegum forsendum og ræða málefnalega hverju sinni.
„Í grunninn hljótum við öll að starfa að sömu markmiðum, að minnka plast í umferð og lágmarka allan úrgang.“
Umrætt myndband Íslenska gámafélagsins má sjá hér að neðan.