Félagið Haldleysi, áður Fáfnir Holding, sem er einkahlutafélag í eigu Steingríms Erlingssonar, fyrrverandi forstjóra Fáfnis Offshore, var í síðasta mánuði tekið til gjaldþrotaskipta.
Steingrímur stofnaði Fáfni Offshore árið 2012 og gegndi starfi forstjóra þess þar til í desember árið 2015, þegar hann var rekinn.
Í kjölfarið hófust miklar deilur milli Steingríms og meirihlutaeigenda í Fáfni, sem eru meðal annars framtakssjóðirnir Akur og Horn II.
Félagið sérhæfir sig í þjónustu við olíu- og gasborpalla á norðlægum slóðum og rekur skipið Polarsyssel, sem er dýrasta skip Íslandssögunnar.
Stjórn Fáfnis hefur tvisvar ráðist í skuldabréfaútgáfu upp á samtals 345 milljónir króna til að tryggja áframhaldandi rekstur. Hlutur Haldleysis í Fáfni Offshore minnkaði um leið úr 21 prósenti í lok árs 2015 í rúm tíu prósent, en félagið tók ekki þátt í útgáfunum.
Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.
Leiðrétting: Ekki er rétt, líkt og fram kom í upphaflegri frétt, að Jóhannes Hauksson, stjórnarformaður Fáfnis Offshore, hafi tekið við starfi framkvæmdastjóra félagsins tímabundið eftir að Steingrími var sagt upp í desember 2015. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.
Félag Steingríms úrskurðað gjaldþrota
