
Ofsi á undanþágu
Erfitt er að vita hvað þessir menn eru eiginlega að tjá með þessum látum, en svona umferðarofstopi er í besta falli ofbeldi gagnvart samborgurum, þetta er andfélagsleg hegðun, eins og að ganga um í mannfjölda og fara upp að fólki og garga upp í það, steyta framan í það hnefann, vingsa stórri sveðju af gáleysi. Svona hegðun vitnar um stórfelldan félagslegan vanþroska og einstaklingshyggju sem stappar nærri sturlun. Svona menn þarf að taka úr umferð og kenna þeim á bíl – og samfélag.
Í Formúlu eitt á Reykjanesbraut
Nýlega staðfesti Hæstiréttur úrskurð Héraðsdóms um að leggja hald á Tesla-bifreið Magnúsar Ólafs Garðarssonar. Þann 20. desember síðastliðinn var hann á ferð á Reykjanesbraut í slæmu veðri og vondu skyggni, á hálum og blautum veg. Samkvæmt frétt RÚ mældist bifreið hans ítrekað á yfir 160 kílómetra hraða og allt upp í 183 kílómetra hraða á klst. Tilkynningar um ofsaakstur bílsins bárust til neyðarlínunnar og svo fór að lokum að hann rakst utan í annan bíl með þeim afleiðingum að hinn ökumaðurinn var fluttur með sjúkrabíl á spítala.
Magnús hefur krafist þess að fá bílinn sinn aftur. Hann segir að hann hafi misst stjórn á bílnum „vegna ytri aðstæðna“. Hann talar líka um að lögreglan hafi farið fram úr valdheimildum sínum við rannsókn málsins og „brotið gegn friðhelgi einkalífsins“ með því að skoða upplýsingar sem bíllinn geymir um aksturinn.
Þetta er ekki eina dæmið um slíkan akstur hjá Magnúsi – tíu hraðakstursmál hafa komið upp hjá honum hér á landi undanfarið og eitt í Danmörku.
Það er ágæt regla að sýna fólki tillitssemi þegar það ratar í ógæfu eða verður eitthvað á sem ámælisvert getur talist; þá fer ekki vel á að hreykja sér eða efna til fjöldafordæmingar, enda eiga allir sér einhverjar málsbætur og rétt á því að taka sig á í lífinu. Það á Magnús vonandi eftir að gera og farnist honum vel. Það er hins vegar freistandi að gera þetta mál hans að umtalsefni vegna þess að það er dæmigert fyrir ákveðið hugarfar sem ríkt hefur hér á landi, og ekki bara í umferðinni.
Magnús Ólafur stendur sem sé í þeirri meiningu að hann sé undanþeginn reglum um hámarkshraða.
Uppbygging á undanþágu
Hann er nefnilega vanur undanþágunum. Magnús er einn stofnenda United Silicon og var til skamms tíma forstjóri þess fyrirtækis, hafði væntanlega veg og vanda af þeirri uppbyggingu sem skilar fyrirtækinu nú nærri vikulegum hneykslisfréttum vegna mengunar sem enginn virðist almennilega vita hversu mikil er, skulda við verktaka og málaferla kringum það, slysa og verkamanna sem látnir eru vinna án réttinda á vandasöm tæki og við vondar aðstæður. Allt vitnar um það hvernig ætt hefur verið áfram við uppbyggingu fyrirtækisins í þeirri vissu að undanþágur verði veittar frá reglum. Nú bregður hins vegar svo við að umhverfisráðherra Björt Ólafsdóttir hefur farið sköruglega fram í málefnum fyrirtækisins og komið þeim skilaboðum rækilega á framfæri að við þetta fúsk verði ekki unað og að það sé liðin tíð að horft sé í gegnum fingur sér með ólöglega mengun eins og löngum hefur tíðkast hér á landi.
Reglan hér á landi hefur verið þessi: þegar spurt er um hagsmuni náttúru og hagsmuni stóriðju skal stóriðjan njóta vafans, undantekningarlaust; þegar spurt er um heilsu almennings og hagsmuni stóriðju skal stóriðja njóta vafans, ævinlega. Stóriðja, verksmiðjurekstur, er nefnilega „atvinnusköpun“. Og „atvinnusköpun“ er íslenska orðið yfir „nirvana“; hið endanlega alsæluástand sem allt miðar að.
Afleiðingin er sú að uppbyggingu stóriðju hér á landi má líkja við ofsaakstur í umferðinni og eru þar dæmin mýmörg, það nýjasta brjálæðisleg áform um sjókvíaeldi á laxi. Forljótum verksmiðjum hefur verið dritað niður þar sem hentar framkvæmdaaðilum sem fá allar þær ívilnanir sem hugsast geta, skattahagræði, gjafverð á orku, frámunaleg framlög úr lífeyrissjóðum, að drasla að vild ...
Málsvörn Magnúsar er líka kunnugleg þeim sem fylgst hefur með málsvörn bankstera og útrásarvíkinga í markaðsmisnotkunarmálum. Talað er um „ytri aðstæður“, rétt eins og hrunverjar gera alltaf og fjasað um „friðhelgi einkalífs“. Vantar bara að hann fari að reyna að ryðja dóminn með vanhæfiskröfum á þeim forsendum að dómarar séu andvígir ofsaakstri. Mengunin getur birst á margs konar hátt; meðal annars í hugarfari.
En það er kominn tími til þess að sveitarstjórnarmenn og kjördæmaþingmenn átti sig á því að það sem er undan þágu er ekki í þágu annarra, heldur bara í eigin þágu.
Skoðun

Ferðaþjónustan er burðarás í íslensku efnahagslífi
Þórir Garðarsson skrifar

Hversu lítill fiskur yrðum við?
Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Þjóðin vill eitt, Kristrún annað
Ole Anton Bieltvedt skrifar

Lélegir íslenskir læknar...eru ekki til!
Steinunn Þórðardóttir skrifar

Þjóðin sem selur sjálfri sér: Vangaveltur um sölu Íslandsbanka
Guðjón Heiðar Pálsson skrifar

Hagsmunir heildarinnar - Þriðji kafli: Skálmöld
Hannes Örn Blandon skrifar

Valkyrjurnar verða að losa okkur við Rapyd
Björn B. Björnsson skrifar

Söngur Ísraels og RÚV
Ingólfur Gíslason. skrifar

Ófullnægjandi vinnubrögð ófaglærðra „iðnaðarmanna“: Áhrif á húskaupendur
Kristinn R Guðlaugsson skrifar

Uppiskroppa með umræðuefni í málþófi? Talið um Gaza!
Viðar Eggertsson skrifar

Kærleikurinn pikkaði í mig
Guðmunda G. Guðmundsdóttir skrifar

Friðun Grafarvogs
Stefán Jón Hafstein skrifar

Torfærur, hossur og hristingar!
Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir skrifar

NÓG ER NÓG – Heilbrigðiskerfið er í neyðarástandi
Ásthildur Kristín Björnsdóttir skrifar

Við munum aldrei fela okkur aftur
Kári Garðarsson skrifar

Er Kópavogsbær vel rekinn?
Bergljót Kristinsdóttir skrifar

Oft er forræðishyggja hjá fjölskyldum og á heimilum fatlaðs fólks
Atli Már Haraldsson Zebitz skrifar

Um sjónarhorn og sannleika
Líf Magneudóttir skrifar

Lýðræðið er farið – er of seint að snúa við?
Einar G. Harðarson skrifar

Er gagnlegt að kunna að forrita á tímum gervigreindar?
Henning Arnór Úlfarsson skrifar

Málþóf og/eða lýðræði?
Elín Íris Fanndal skrifar

Umdeildasti fríverslunarsamningur sögunnar?
Arnar Þór Ingólfsson skrifar

Ísafjarðarbær í Bestu deild
Sigríður Júlía Brynleifsdóttir,Gylfi Ólafsson skrifar

Þjóðarmorð í beinni
Arnar Eggert Thoroddsen skrifar

Allt þetta máttu eiga ef þú tilbiður mig
Birgir Dýrfjörð skrifar

Atvinnufrelsi!
Lilja Rafney Magnúsdóttir skrifar

Að mása eða fara í golf
Jón Pétur Zimsen skrifar

Leiðréttum kerfisbundið misrétti
Jónína Brynjólfsdóttir skrifar

Leikjanámskeið fyrir fullorðna við Austurvöll
Þórður Snær Júlíusson skrifar