Gísli Þorgeir Kristjánsson, leikmaður FH í Olís-deild karla í handbolta, er búinn að semja við þýska stórliðið Kiel til þriggja ára en hann gengur í raðir félagsins næsta sumar. Þetta kemur fram á heimasíðu Kiel.
Þetta 18 ára undur fór á kostum í úrslitakeppninni í vor og hefur verið frábær með FH í vetur. Hann fékk eldskírn sína með íslenska landsliðinu í síðasta mánuði þegar að Ísland spilaði tvo vináttuleiki við Svíþjóð.
Gísli er í 28 manna leikmannahópi Geirs Sveinssonar fyrir EM 2018 í Króatíu og gæti spilað á sínu fyrsta stórmóti í janúar.
Kiel hefur fylgst grannt með Gísla undanfarin misseri en meiðsli leikmannsins unga í sumar komu í veg fyrir að hann skrifaði undir samning við Kiel þá.
Gísli fór til Kiel í síðustu viku með föður sínum Kristjáni Arasyni þar sem hann gekkst undir læknisskoðun og samdi í kjölfarið við félagið sem er það sigursælasta í sögu þýska handboltans.
Gísli fetar í fótspor annars FH-ings, Arons Pálmarssonar, sem fór frá Hafnafjarðarliðinu til Kiel árið 2009 og vann Þýskalandsmeistaratitilinn fimm sinnum og Meistaradeildina tvívegis með Kiel.
