Lærisveinar Patreks Jóhannessonar í liði Austurríkis voru grátlega nálægt því að skella stórliði Spánar í undankeppni EM í kvöld.
Lokatölur 29-30 fyrir Spánverja sem leiddu einnig með einu marki í leikhléi, 13-14.
Austurríki átti frábæran leik og var með fimm marka forskot, 24-19, er aðeins korter var eftir af leiknum. Það forskot gufaði upp á sjö mínútunum.
Lokakaflinn var æsispennandi en sigurmark Spánar kom 90 sekúndum fyrir leikslok. Sole Sala skoraði það en hann var markahæstur í liði Spánverja með fimm mörk.
Janko Bozovic skoraði sex mörk fyrir Austurríki og Fabian Posch fimm.
Austurríki hefði komist upp að hlið Spánar með sigri en er núna fjórum stigum á eftir Spánverjum sem eru með fullt hús í riðli þrjú.

