Viðskipti innlent

Vilja móta heimsþekktan súkkulaðirisa

Haraldur Guðmundsson skrifar
Óskar Þórðarson, framkvæmdastjóri og hluthafi í súkkulaðigerðinni Omnom, er búinn að vera í fyrirtækjarekstri meira og minna frá átján ára aldri.
Óskar Þórðarson, framkvæmdastjóri og hluthafi í súkkulaðigerðinni Omnom, er búinn að vera í fyrirtækjarekstri meira og minna frá átján ára aldri. Vísir/Anton
„Ef ég á að nefna markmið þá viljum við ná svipaðri sölu og Bláa lónið. Þetta er markmið næstu tíu til fimmtán ára en þá yrðum við samt lítið súkkulaðifyrirtæki í hinum stóra heimi,“ segir Óskar Þórðarson, framkvæmdastjóri og einn eigenda súkkulaðigerðarinnar Omnom úti á Granda.

Æskuvinirnir Óskar og Kjartan Gíslason matreiðslumaður áttu hugmyndina að stofnun fyrirtækisins árið 2012 en sá síðarnefndi vildi þá opna bakarí sem myndi framleiða sitt eigið súkkulaði. Nú fimm árum síðar framleiðir fyrirtækið um 20 tegundir, selur vörur til um 500 verslana erlendis, og í apríl síðastliðnum ákvað svissneski fjárfestingasjóðurinn Quadia að nýta kauprétt sinn á bréfum í félaginu og á nú 30 prósenta hlut. Til marks um metnað þeirra félaga þá nam velta Bláa lónsins í fyrra um tíu milljörðum króna.

„Ég var á ákveðnum krossgötum í mínum viðskiptum þegar Kjartan leitaði til mín og það var kominn tími til að breyta til. Við fórum að ræða þetta nánar og mér leist ekki alveg nógu vel á þessa hugmynd um bakaríið. En ég sé nú kannski eftir því í dag eftir velgengni Brauð & Co sem kom í kjölfarið,“ segir Óskar og hlær.

„Ég fór til New York og heimsótti fyrirtækið Mast Brothers sem eru frumkvöðlar í því að framleiða á þessum minni skala. Ég varð ástfanginn af þessu og sagði Kjartani að ég væri til. Þá fór boltinn að rúlla og við keyptum litlar vélar og gerðum prufur heima í eldhúsi hjá honum og sáum mjög fljótt að við gátum gert gott súkkulaði. Við vissum að við þyrftum flottar umbúðir utan um vöruna enda mikilvægt atriði í markaðssetningu. Þá höfðum við samband við André Úlf Visage, vin Kjartans [og fyrrverandi hluthafa í fyrirtækinu], og níu mánuðum eftir að við byrjuðum að pæla hófst framleiðslan eða í nóvember 2013,“ segir Óskar.

Byrjuðu í 100 fermetrum

Framleiðsla Omnom hófst í gamalli bensínstöð Skeljungs við Austurströnd á Seltjarnarnesi. Þar var fyrirtækið rekið á um 100 fermetrum en það framleiðir súkkulaði beint úr kakóbauninni og flytur ekki inn kakómassa ólíkt öðrum fyrirtækjum í sömu grein. Óskar lýsir því á skemmtilegan hátt hvernig þeir Kjartan hafi sest niður á kaffihúsinu Reykjavík Roasters þar sem fyrstu súkkulaðiplötur þeirra voru seldar. Fylgdust þeir spenntir og ánægðir með þegar erlendur ferðamaður keypti súkkulaðið með kaffibollanum. Eftir það var reksturinn að sögn Óskars ævintýri líkastur þar sem þeir kepptust við að koma vörunum inn í stórar verslanir hér heima. Stórt skref var svo stigið þegar þær urðu fáanlegar í Leifsstöð og allt gerðist þetta fyrir áramótin 2013.

„Við vorum með kaffistofuna niðri í kjallara bensínstöðvarinnar og lagerinn var rosalega lítill og það bjargaði okkur í rauninni hvað allt seldist hratt. Það náðist aldrei að setja inn á lager því við vorum alltaf að selja inn í pantanir. Þar byrjuðum við að taka á móti hópum og einu sinni tókum við á móti 60 manns. Þetta leiddi til þess að við fluttum í núverandi húsnæði,“ segir Óskar og heldur áfram:

„Ástæðan fyrir því að við komumst inn í þessar verslanir svona fljótt var sú að undirbúningsvinnan var góð og gæðin sömuleiðis. Við vorum alltaf að kaupa nýjar vélar og fjármögnuðum þetta sjálfir eða þar til Arion banki hjálpaði okkur í lok 2014. Síðan sáum við að þetta myndi ekki ganga mikið lengur og fengum lánsfjármagn frá bankanum til að flytja starfsemina í núverandi húsnæði í júlí 2016. Þá fórum við í framkvæmdir hérna og fjárfestingar í nýjum tækjum og vélum og það fór auðvitað langt fram úr áætlun eins og gengur og gerist.

Það að komast inn í Leifsstöð hefur hjálpað okkur gríðarlega í þessum vexti en þetta er búin að vera 30-40 prósenta og upp í 100 prósenta aukning milli mánaða og ára uppi í Leifsstöð. Ef ég er hreinskilinn þá var ekki til neitt rosalega stórt plan um hvað við ætluðum að gera. Við vildum bara gera góða vöru og þessi sala og dreifing hefur einhvern veginn þróast af sjálfu sér.

Það var síðan haft samband við okkur fljótlega frá Rocky Mount­ains hluta Whole Foods verslanakeðjunnar og þar í rauninni hefst útflutningur okkar til Bandaríkjanna. Við fengum þá dreifingaraðila til að byrja í litlum búðum en erum ekki enn farnir að selja í Whole Foods. Við erum í sirka 250-300 búðum í dag í Bandaríkjunum og gríðarlega mikill áhugi alls staðar að. Þar skiptir máli bæði samfélagsmiðlarnir sem hafa hjálpað okkur og einnig Leifsstöð enda varan að fara þaðan út um allan heim. Það tók aftur á móti á að komast hingað. Bæði fjárhagslega og ákveðin stefnumótun og þá breyttist hluthafahópurinn og við keyptum út tvo hluthafa sem voru hér áður,“ segir Óskar og svarar að Omnom hafi þurft að segja nei við verslanakeðjuna Whole Foods í um þrjú ár. Vörur fyrirtækisins séu nú að mestu leyti seldar í litlum smásöluverslunum á víð og dreif um Bandaríkin. Þeim Kjartani hafi verið ráðlagt að byrja þar áður en sala í Whole Foods myndi hefjast.

„Það er auðvitað algjör risi sem getur verið erfitt að eiga við og við þurfum þá að geta boðið rétta verðið því í dag erum við kannski aðeins of dýrir fyrir Whole Foods til að vera sjálfbærir þar inni. Við höfum verið á bremsunni varðandi útflutning enda haft augun á að gæðin séu mikil og það er hugsanlegt að við förum í einhverjar Whole Foods verslanir á næsta ári.“

Omnom framleiðir nú um 20 tegundir af súkkulaði og húðuðum maltkúlum.
Dorrit að þakka

Óskar segir að stuttu eftir að breytingin varð á hluthafahópnum hafi núverandi stjórnarformaður Omnom, Svisslendingurinn Eric Christian Archambeau, gengið inn um dyrnar. Hann var þá á ferðalagi hér á landi og hafði heyrt af Omnom í gegnum breskan kaupsýslumann sem flytur súkkulaðið inn til Bretlands. Sá hafi komist í kynni við fyrirtækið í gegnum Dorrit Moussaieff, fyrrverandi forsetafrú. Nokkrum mánuðum síðar hafi Quadia, sem hefur aðsetur í Genf, ákveðið að fjárfesta í fyrirtækinu og er nú annar stærsti hluthafi þess. Quadia rekur skrifstofu í London og sérhæfir sig að sögn Óskars í fjárfestingum í sjálfbærri matvælaframleiðslu og umhverfisvænni orku.

„Á bak við sjóðinn standa aðilar sem við vitum aðeins hverjir eru en það er hópur sem á eftir að hafa mikil áhrif á hvað þetta fyrirtæki mun gera og verða í framtíðinni. Það var aðallega tvennt sem fylgdi þeim og kannski það stærsta var þessi fókus á hráefnisöflunina eða að mörkuð sé stefna um að hún sé sjálfbær og svo áhættugreining um öll hráefni. Við fengum Christine Archer sem hafði unnið að hráefnisöflun fyrir Body Shop og við erum komnir með heila gegnsæisskýrslu (e. transparency report) þar sem hægt er að lesa allt um okkar hráefni og framleiðslu. Þetta er grunnurinn til að fara lengra með fyrirtækið og núna tekur við næsti fasi með fjárfestunum að greina og ákveða hvað við ætlum í rauninni að fara að gera enda margar dyr opnar varðandi sölu, dreifingu og jafnvel sérleyfispælingar.“

Omnom byggir að sögn Óskars á nokkrum tekjustoðum. Í fyrsta lagi er um að ræða smásölu til ferðamanna, söluna í Leifsstöð og í verslun Omnom við Hólmaslóð þar sem boðið er upp á skoðunarferðir um framleiðslugólfið. Salan byggir í öðru lagi á dreifingu í verslanir hér á landi, nýopnaðri netverslun og útflutningi.

„Á þessu ári höfum við tekið um tvö þúsund gesti hingað inn. Okkur langar að breyta og gera þetta enn þá skemmtilegra og meiri upplifun. Við erum með mjög stórar hugmyndir varðandi þetta vörumerki og viljum komast nær neytandanum með okkar bragðupplifun og umhverfi. Markmið okkar á þessu ári var að auka aðgengi að vörunum hér heima. Innanlandsmarkaðurinn er um 85 prósent en það eru um 60 prósent útlendinga sem kaupa vöruna samt sem áður. Um jólin erum við mikið í fyrirtækjasölum og gjöfum og síðustu dagana fyrir jól er mikil traffík niðri í búð. Íslendingar hafa tekið okkur mjög vel og við erum mjög þakklát fyrir það,“ segir Óskar.

„Við framleiðum um 2.000 til 2.500 plötur á dag og vinnum að aukinni sjálfvirkni og pökkun þannig að við ættum að geta tvöfaldað framleiðsluna á næsta ári. Satt best að segja eigum við ekki mikið eftir með þessi tæki og tól hérna því þetta eru enn svolítil „hobbítæki“ og við byrjum að skoða það á næsta ári hvaða möguleika við eigum. Við viljum vera á Íslandi enda landið með góða ímynd og þekkt fyrir hreinleika og öryggi. Við gætum verið hvar sem er en stefnan er klárlega að vera hér áfram.“

Framkvæmdastjóri súkkulaðigerðarinnar Omnom á sér það markmið að tekjur fyrirtækisins vaxi í átt að veltu Bláa lónsins.vísir/anton
Stillt á sjálfstýringu

Þrjú lönd eða Bandaríkin, Bretland og Japan eru mikilvægustu markaðir Omnom að Íslandi undanskildu. Óskar segir vörurnar eftirsóttar af kaupmönnum frá öðrum löndum en stjórnendur súkkulaðigerðarinnar hafi ákveðið að bíða með frekari vöxt þangað til mörkuð hafi verið sú stefna sem hann hefur áður nefnt.

„Það er eiginlega ekki enn markviss áhersla nema á Íslandi og hitt meira á sjálfstýringu. […] Við þurfum einungis að hafa komið okkur vel fyrir á einum af þessum mörkuðum svo þetta gangi upp og þá verðum við orðnir mjög stórt vörumerki í súkkulaðibransanum. Árið í ár erum við að sjá 20-25 prósenta meiri sölu miðað við í fyrra en mánuðirnir mars, apríl, maí og júní voru nokkuð erfiðir. Gengið styrktist náttúrlega mikið og það var breyting í samfélaginu til dæmis með komu Costco. Frá júlí og til desember hefur verið 30-40 prósenta aukning miðað við í fyrra en svo held ég að við séum að sjá áhrifin frá Costco núna í desember.

Óskar svarar aðspurður að vinsælasta vara Omnom sé súkkulaðið sem inniheldur lakkrís og sjávarsalt. Vinsældir regnbogastykkisins svokallaða, Carmel + Milk, hafi aftur á móti aukist jafnt og þétt síðan það var kynnt fyrir Hinsegin daga og þróað í samstarfi við hátíðina. Fyrirtækið flytur inn kakóbaunir frá Níkaragva, Tansaníu og Madagaskar og kaupir af innlendum framleiðendum á borð við Mjólkursamsöluna (MS) og Saltverk.

„Við framleiðum tíu tegundir í dag plús fimm kúlur og svo erum við með fimm hátíðarstykki. Þetta eru því í kringum 20 tegundir í framleiðslu yfir árið. Markmiðið fyrir næsta ár er að koma með minni einingar sem við höfum verið beðnir um frá byrjun. Svona 20 gramma súkkulaðistykki sem eru aðgengilegri á lægra verði. Það er stefnan að koma með það á næsta ári og margt annað skemmtilegt á teikniborðinu.

Við eigendurnir hérna vitum það og þurfum að sýna okkar fjárfestum í raun og veru hvað Omnom á að vera. Arion banki hefur hjálpað okkur mikið í fjármögnun og haft trú á okkur. Fjármögnun næsta árs verður einfaldlega sú að fjármagna vöxt. Rekstrarkostnaður er auðvitað hár eins og öll fyrirtæki finna fyrir og við höfum ekki fengið neina styrki eða annað slíkt og erum nú með nítján launaseðla um áramót. Við þurfum að fjármagna rannsóknir og vöruþróun inn í framtíðina og ég er að ákveða hvar ég mun sækja það.“

Nú hafið þið gengið í gegnum ýmislegt. Hefur þig einhvern tímann langað að leggja árar í bát? „Nei, aldrei. Þetta hefur ekki alltaf verið létt en ég veit ekki hvort maður hefði farið út í þetta hefði maður vitað hvað þetta yrði erfitt. Það tekur á að koma með neytendavöru á markað en er ótrúlega skemmtilegt á sama tíma. Við fáum mikið af góðum umsögnum og hrósi á hverjum degi sem heldur manni gangandi. Þetta væri öðruvísi ef við hefðum alltaf ætlað okkur að vera lítill súkkulaðiframleiðandi á Íslandi en ekki heimsþekkt vörumerki.“

Viðtalið birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×