Erlent

Hlýnunin á norðurskautinu fordæmalaus í 1.500 ár

Kjartan Kjartansson skrifar
Fjölær hafís á norðurskautinu er nú aðeins um fimmtungur af heildarísnum. Hlutfallið var um 45% á 9. áratug síðustu aldar.
Fjölær hafís á norðurskautinu er nú aðeins um fimmtungur af heildarísnum. Hlutfallið var um 45% á 9. áratug síðustu aldar. Vísir/AFP
Hafísinn á norðurskautinu hefur hopað meira undanfarin ár og áratugi en að minnsta kosti síðustu 1.450 árin á undan og yfirborðshiti þar hefur ekki hækkað hraðar í að minnsta kosti 2.000 ár. Þetta er á meðal niðurstaðna nýrrar skýrslu Haf- og loftslagsstofnunar Bandaríkjanna (NOAA.

Hlýnunin á norðurheimsskautinu hefur verið um það bil tvöfalt meiri en annars staðar á jörðinni og það hefur valdið miklum og hröðum breytingum á umhverfinu þar. Þar á meðal er hröð bráðnun Grænlandsjökuls og möguleg áhrif á veðurfar annars staðar á jörðinni.

Auk þess að hafa skroppið verulega saman að flatarmáli hefur hafísinn á norðurskautinu einnig orðið þynnri og skammlífari en áður. Ísinn lifir sjaldnast yfir sumarið og fram á næsta vetur eftir að hann myndast, að því er segir í umfjöllun Washington Post um skýrsluna.

„Norðurskautið er að ganga í gegnum fordæmalausustu breytingar í mannkynssögunni og við þurfum betri athuganir til þess að skilja og spá fyrir um hvernig þessar breytingar munu hafa áhrif á alla, ekki bara íbúa norðursins,“ sagði Jeremy Mathis, forstöðumaður norðurskautsrannsókna NOAA á fundi Bandaríska jarðvísindabandalagsins í gær.

NOAA gefur árlega út skýrslu um ástand norðurskautsins í hlýnandi heimi af völdum manna. Þetta er í fyrsta skipti sem slík skýrsla er gefin út eftir að Donald Trump tók við sem forseti Bandaríkjanna. Ríkisstjórn hans hefur afnumið aðgerðir í loftslagsmálum og stefnir að því að hætta þátttöku í Parísarsamkomulaginu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×