Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - Haukar 26-21 | Aron Rafn skellti í lás í markinu

Svava Kristín Grétarsdóttir skrifar
Vísir/Stefán
ÍBV hafði betur í stór leik 13. umferðar er liðið tók á móti Haukum í Vestmannaeyjum, leiknum lauk með fimm marka sigri heimamanna, 26-21 en staðan í hálfleik var 13-10. 

Það er alltaf harka og stemning þegar þessi tvö lið mætast og það var enginn breyting á því í dag. Gestirnir komust í 0-3 og leiddu fyrsta stundarfjórðunginn þar til ÍBV jafnaði í stöðunni 6-6. Fyrri hálfleikur var góður hjá báðum liðum, jafnræði var með liðunum en munurinn var markvarslan. Aron Rafn Eðvarðsson var frábær í marki Eyjamanna með 15 varða bolta í fyrri hálfleik á meðan Björgvin Páll Gústavsson átti ekki eins góðan dag, með 5 bolta í fyrri hálfleiknum en staðan þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks 13-10 ÍBV í vil. 

Síðari hálfleikurinn hófst á svipuðum nótum, ÍBV hélt áfram að spila sína þekktu 5-1 vörn sem Haukamenn áttu í erfiðleikum með. Hauka vörnin stóð vel og náðu þeir að loka vel á Kára Kristján og koma í veg fyrir línusendingar til hans. Þegar 10 mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum gátu Haukar jafnað leikinn í 16-16 en töpuðu þeir boltanum og ÍBV komst í 17-15, nokkrum mínútum síðar var staðan orðin 22-15 og leikurinn gott sem búinn fyrir Hafnfirðinga. Loka mínútur leiksins voru auðveldar fyrir heimamenn sem sigldu inn öruggum fimm marka sigri 26-21. 

Afhverju vann ÍBV

Þegar ÍBV á leik sem þennann þar sem vörn, sókn og markvarsla dettur inn þá er lítið hægt að gera til að stöðva þá, enda með það vel mannað lið. Allt frá fyrstu mínútu spilaði liðið 5-1 vörn með Andra Heimir fremstann sem skilaði sér í töpuðum boltum hjá Haukum.  Það sást í dag hversu mikilvægir Sigurbergur og Theodór eru liðinu og þá sérstaklega Sigurbergur þrátt fyrir að hafa skorað aðeins eitt mark í dag þá sinnir hann mikilvægu starfi í sóknarleik liðsins. En það er Aron Rafn Eðvarðsson sem fær heiðurinn að sigri Eyjamanna í dag, hann var frábær í markinu með 50% markvörslu. 

Hvað gekk illa: 

Sóknarleikur Hauka gekk heilt yfir illa, Aron Rafn gerði þeim erfitt fyrir, vörn ÍBV var þétt og skilaði það alltof mörgum töpuðum boltum í sókninni. Hafnfirðingar voru að skapa sér færi en nýting þeirra alls ekki nægilega góð. Þá hefur Björgvin Páll oft átt betri daga, en hann var með undir 30% markvörslu í dag.  

Varnarleikur Hauka var hins vegar fínn, þeir gáfu Kára Kristjáni ekkert eftir og áttu Eyjamenn í vandræðum með að finna hann.

Hverjir stóðu uppúr

Eins og fram hefur komið þá var það Aron Rafn sem stóð uppúr í leiknum, hann átti góðan leik en þessi landsliðs markvörður hefur ekki sýnt sitt rétta andlit í upphafi móts. Mikill munur var á leik Róberts Arons í dag frá því gegn Aftureldingu en átti góðan leik í dag, skoraði 6 mörk og stýrði leik ÍBV. 

Hjá Haukum var það Adam Haukur Baumruk sem stóð uppúr en Brynjólfur Snær Brynjólfsson átti einnig góða innkomu í hægra horninu. 

Mörk ÍBV: Theodór (6), Róbert Aron (6), Agnar Smári (4), Grétar Þór (3), Kári Kristján (1), Dagur Arnarsson (1), Róbert Sigurðsson (1), Daníel Örn (1), Andri Heimir (1), Aron Rafn (1), Sigurbergur Sveinsson (1)

Mörk Hauka: Hákon Daði (4), Adam Haukur (4), Brynjólfur Snær (3), Atli Már (3), Halldór Ingi (2), Leonharð Þorgeir (2), Heimir Óli (2), Pétur Pálsson (1)

Hvað er næst 

Coca cola bikarinn er næstur á dagskrá en þar taka Haukar á móti ÍR á meðan ÍBV mætir Fjölnir. Í næstu umferð Olís deildarinnar verður hins vegar Hafnarfjarðarslagur í Kaplakrika þegar FH tekur á móti Haukum en ÍBV fær þá Gróttu í heimsókn.

 

Addi P: Ég er hvað spenntastur að fá þessi börn í heiminn

Ég er mjög ánægður, við spiluðum heilt yfir þokkalegann leik og unnum góðan sigur. sagði Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV

Arnar talar um þokkalegann leik en mikill munur var á leik liðsins frá því í síðustu umferð. ÍBV sýndi í raun hvað þeir hafa upp á að bjóða og voru þeir betri en Haukar á öllum sviðum. 



Það er alltaf hægt að finna eitthvað til að setja út á en Aron var að spila frábærlega í dag, vörnin var heilt yfir mjög góð líka, án þess að taka einhverja sérstaka leikmenn út þá verð ég að hrósa, Róberti Sig og Andra Heimi, þeir voru frábærir í vörninni í dag. Sóknarlega var þetta líka allt í lagi, margar mjög góðar sóknir en líka aðrar sem við megum bæta. 

ÍBV spilaði 5-1 vörn eða ÍBV-vörnina frá fyrstu mínútu sem reyndist Haukum erfið, en Gunnar Magnússon þjálfari Hauka og fyrrverandi þjálfari ÍBV ætti nú að þekkja vel til hennar. Arnar segir liðið spila góða 6-0 vörn einnig en segist hann eiga í vandræðum með það núna þegar 3 af 4 hafsentum hans eru frá, Elliði Snær og Magnús Stefánsson verða frá keppni eitthvað inní næsta ár vegna meiðsla og Logi Snædal er að taka út keppnisbann.  

Eins og fram hefur komið var mikill munur á leik ÍBV frá því gegn Aftureldingu og því spurning hversu mikilvægir þeir Sigurbergur og Theodór eru liðinu 



Það eru róteringar á liðinu, Maggi fór í aðgerð í vikunni og verður frá eitthvað inná næsta ár en við fengum Sigurberg og Theodór ferska inn, þótt þeir hafi ekki æft neitt með okkur í tvær - þrjár vikur þá komu þeir ferskir og hungraðir inní þennann leik og voru flottir. 

Theodór er kominn aftur til Eyja eftir langa dvöl í Reykjavík í bið eftir sínu fyrsta barni og nú fer að styttast í strákinn hjá Sigurbergi, Arnar segist vera álíka spenntur og foreldrarnir að fá börnin í heiminn. 



Ég bíð spenntur eftir að fá krílið hjá Birgittu og Begga í heiminn, ég er hvað spenntastur, kannski á eftir foreldrum, ömmum og öfum að fá þessi börn í heiminn sagði Arnar að lokum en Sigurbergur er þriðji leikmaður liðsins sem eignast barn á tímabilinu og hefur því misst af æfingum og leikjum liðsins. 

 

Gunnar:  Aron fór illa með okkur

Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, er ánægður með margt í leik sinna manna í dag þrátt fyrir tap. 



„Eyjamenn voru bara góðir í dag og betri en við á flestum sviðum. Þrátt fyrir tap þá fannst mér margt jákvætt. Varnarlega var ég sáttur, sérstaklega með uppstillta vörn, ég hefði auðvitað viljað fá betri markvörslu en það sem situr mest í mér er sóknin, hvernig við erum að fara með færin okkar, við fáum mikið af góðum færum sem við erum að nýta mjög illa.  

Sóknin hjá Haukum gekk oft brösulega, vörn ÍBV fór illa með þá en skilaði þeim oftar en ekki opnum færum í hornunum sem þeir reyndu ítrekað að nýta sér. 

„Þetta var ekki dagurinn hjá okkar hornamönnum, við fengum færi en vorum ekki að nýta þau og sérstkalega ekki úr hornunum þar sem við vildum fá færin. Vörnin hjá ÍBV býður uppá það að það er þjappað mikið inná miðjuna og opnast þá færin hjá hornamönnunum, við getum ekki gert annað en að taka þessum opnu færum.  

„Við höfum auðvitað trú á okkur mönnum þótt þeir klúðri færum í byrjun og við höldum áfram að vona að þeir stígi upp, en þetta voru ekki bara hornamennirnir, það vantaði meira sóknarlega og að fleiri myndu stíga upp. Aron fór líka illa með okkur, við verðum að gefa honum kredit fyrir það að hann var góður í dag og gerði gæfu muninn milli liðanna. Bjöggi var frábær í fyrri leiknum milli þessara liða en í dag var það Aron, hann var frábær í dag.  sagði Gunnar, en hann segist vera ánægður með margt í leik sinna manna í dag. 

„Uppstillt vörn var góð og ég er ánægður með það, taktíkin í vörninni, við náðum að halda Kára niðri og mér fannst Bjöggi vera í mörgum boltum svo það vantaði kannski bara herslumuninn hjá honum og á góðum degi hefði hann alveg tekið fleiri bolta.  

Daníel Þór Ingason var ekki með Haukum í dag en hann meiddist í síðasta leik liðsins. Gunnar segir það auðvitað stórt að hafa hann ekki með, en þeir voru þá án Daníels og Tjörva Þorgeirssonar sem einnig er frá vegna meiðsla. Gunnar segist þó hafa mætt í leikinn með lið sem hefði getað tekið tvö stig. 

Meiðsli Daníels Þórs eru víst ekki alvarleg og búast leikmenn við honum í næsta leik.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira