Umfjöllun, viðtöl og myndir: Valur - Haukar 26-30 | Atli reyndist gömlu félögunum erfiður

Anton Ingi Leifsson skrifar
Atli Már átti góðan leik í kvöld og dró Hauka-vagninn áfram.
Atli Már átti góðan leik í kvöld og dró Hauka-vagninn áfram. vísir/anton
Haukar unnu afar sterkan sigur í bræðaraslagnum gegn Val, 30-26, þegar liðin mættust í elleftu umferð Olís-deildarinnar að Hlíðarenda í kvöld. Staðan í hálfleik var jöfn 13-13.

Fyrri hálfleikurinn var dálítið einkennilegur. Haukarnir voru ávallt skrefi á undan, en góðir kaflar Valsmanna héldu þeim inn í leiknum. Bæði lið eru þekkt fyrir sinn ógnarsterka varnarleik, en markvarslan var ekki sérstök framan af leik.

Einar Baldvin Baldvinsson kom svo inn í markið hjá Val og í kjölfarið tóku þeir í tvígang 3-0 kafla þegar allt útlit var fyrir að Haukarnir myndu ná ennþá meiri forystu en raun bar vitni. Valsmenn voru að gera rosalega mikið af tæknifeilum en héldu sér þó inn í leiknum.

Anton Rúnarsson stýrði Valsleiknum af mikilli festu og skilaði mikilvægum mörkum eða stoðsendingum þegar höndin var komin upp, en Adam Haukur Baumruk kom sterkur inn í vinstri skyttuna í fyrri hálfleik. Lítil sem engin ógn var af hægri vængnum frá Haukum, en leikurinn var í jafnræði í fyrri hálfleik. Staðan jöfn, 13-13, í hálfleik.

Í síðari hálfleik var svipað uppi á teningnum. Haukarnir náðu forskoti, en heimamenn komu alltaf til baka og náðu góðum köflum. Árni Þór Sigtryggsson átti góða innkomu í lið Vals, en hann skoraði að lokum fjögur mörk.

Þegar tíu mínútur voru til leiksloka var munurinn einugis eitt mark, 22-23, Haukum í vil og ljóst að lokamínúturnar yrðu spennandi. Mikill hiti var komið í húsið og fjörið og harkan mikil.

Ýmir Örn Gíslason hafði þá fengið þrisvar sinnum tvær mínútur og þar af leiðandi rautt og það munaði um minna. Haukarnir voru sterkari á lokakaflanum og lokatölur urðu fjögurra marka sigur gestanna, 30-26.

Hákon Daði skoraði átta mörk í kvöld, en hann var drjúgur. Þó komu sex þeirra úr vítaköstum, en það þarf að skora úr þeim líka. Björgvin Páll hefur átt betri daga, en það er kannski skiljanlegt þar sem hann eignaðist tvíbura í nótt og hefur væntanlega ekki sofið mikið fyrir þennan leik. Hamingjuóskir til hans!

Anton Rúnarsson skoraði fimm mörk fyrir Val og skoraði þegar mest á reyndi, en það vantaði meira framlag frá mönnum eins og Magnúsi Óla, Ólafi Ægi og fleirum þegar mest á reyndi.

Afhverju unnu Haukar?

Varnarleikur liðsins nær allan leikinn og margir leikmenn að leggja hönd á plóg gerðu það að verkum að eftir sextíu mínútur voru það gestirnir úr Hafnarfirði sem tóku stigin tvö með sér heim í Fjörðinn. Atli Már Báruson lék við hvurn sinn fingur og átti góðan leik, en hann hafði leikið með Val annan sinn feril þangað til hann gekk í raðir Hauka í sumar.

Varnarleikur Haukana er einnig ógnvægilegur og Valsmönnum tókst illa að finna svör á honum lengst af í leiknum, en Valsmönnum vantaði framlag frá fleiri leikmönnum á meðan liðsheildin skilaði sér hjá Haukum.

Hverjir stóðu upp úr?

Hákon Daði Styrmisson og Atli Már Báruson drógu Hauka-vagninn í kvöld, en sér í lagi Atli Már sem átti afar góðan leik á gamla heimavellinum. Adam Haukur er allur að koma til eftir veikindin, en hann skoraði fimm mörk í kvöld. Varnarleikur liðsins var afbragð.

Valsmönnum vantaði fleiri lóð á vogaskálirnar í kvöld eins og áður hefur verið kveðið um. Anton Rúnarsson dró vagninn, en það vantaði fleiri menn með honum. Einar Baldvin átti fína innkomu í markið í fyrri hálfleik, en svo ekki söguna meir.

Hvað gekk illa?

Valsmönnum gerðu sig seka um alltof mörg tæknimistök, en strax í hálfleik voru þeir kominr með átta tapaða bolta. Þó var staðan jöfn í hálfleik 13-13. Haukarnir hefðu svo einnig getað slitið sig fyrr frá Valsmönnum, en gerðu sig seka um mistök og hleyptu þeim aftur inn í leikinn. Það kom ekki að sök að endingu. Þeir þrír markverðir sem spiluðu meginþora leiksins eru væntanlega allir ósáttir með sjálfa sig.

Hvað gerist næst?

Valsmenn fá annan heimaleik strax á fimmtudag þegar þeir fá Gróttu í heimsókn. Þar gera Valsmenn kröfu á tvö stig. Á sama tíma fara Haukarnir í Breiðholtið og mæta ÍR, en Haukar og Valur eru með jafn mörg stig í öðru til þriðja sæti deildarinnar.

Gunnar: Fyrir mánuði hefðum við ekki unnið með Bjögga beint af fæðingardeildinni

„Ótrúlega sterkt að koma í Valsheimilið og taka tvö stig. Ótrúlega sterkt lið,” sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, í samtali við Vísi í leikslok.

„Mér fannst við spila vel í kvöld, bæði varnar- og sóknarlega. Ef það vantaði eitthvað þá vantaði upp á markvörsluna, ef eitthvað er upp á að klaga, en annað var í lagi og breiddin góð.”

Haukarnir náðu trekk í trekk í leiknum nokkura marka forystu, en gekk illa að gera endanlega út um leikinn fyrr en algjörlega undir lok leiksins.

„Mér fannst við fá móment í leiknum til þess að slíta þá frá okkur. Við fórum illa að ráði okkar með nokkur dauðafæri og smá agaleysi þar sem við missum hausinn þegar við getum slitið þá frá okkur.”

„Hins vegar er ekkert auðvelt að koma hingað í Valsheimilið og ætlast til þess að slíta sig frá þeim eitthvað snemma, en þeir voru erfiðir. Ánægður með mína menn og ánægður með hversu margir stigu upp.”

Það sýnir styrk Hauka að vinna Val á útivelli og án þess að tveir af betri leikmönnum liðsins á tímabilinu, Daníel Þór Ingason og Björgvin Páll Gústavsson, náðu sér almennilega á strik.

„Fyrir mánuði síðan hefðum við ekki unnið mörg lið á Íslandi í dag með Bjögga beint af fæðingardeildinni og búinn að vera með tvíburuna í alla nótt. Hann hefur smá afsökun og að sama skapi fann Danni sig ekki sóknarlega en var frábær varnarlega.”

„Það var gaman að sjá Atla. Hann var frábær og stýrði þessu vel. Ótrúlegur drjúgur hjá okkur á gamla heimavelli og hélt haus, en breiddin er góð og við löndum hér góðum sigri.”

Er stígandi í liðinu?

„Já, mér finnst það. Við erum að þétta raðirnar og erum komnir með breidd. Við erum minna háðir einum eða tveimur leikmönnum eins og við vorum í byrjun. Nú eru fleiri að stíga upp,” sagði Gunnar að lokum.

Guðlaugur: Erum að kasta of mörgum boltum frá okkur

„Svona fljótt eftir leik er erfitt að henda á það sem fór úrskeiðis, en heilt yfir erum við að kasta of mörgum boltum frá okkur,” sagði Guðlaugur Arnarsson, þjálfari Vals, í leikslok.

„Við erum að tapa átta boltum í fyrri hálfleik. Það vantar aðeins upp á þar og í síðari hálfleik erum við að ströggla varnarlega,” en hvað gerist?

„Við missum Ými út úr leiknum og Maggi meiðist. Okkur vantar dálítið skiptingar til þess að geta hvílt menn og Haukarnir voru aðeins meira með þetta í dag en við.”

Leikur Vals var full kaflaskiptur; inn á milli komu virkilega góðir kaflar þegar þeir virtust búnir að grafa sína eigin gröf, en þeir sýndu karakter og komu oftar en ekki til baka.

„Það voru móment í þessu til að taka leikinn yfir, en Haukarnir gerðu það í dag. Þeir voru að spila aðeins agaðari leik og það var munurinn í dag.”

„Ég var hins vegar ánægður með baráttuna í mínum mönnum. Við vorum að fórna okkur og menn lögðu allt í leikinn og það er það sem við viljum sjá,” sagði Gulli sem var ánægður með innkomu Árna Þórs.

„Árni kom mjög vel inn í leikinn, eins og Einar Baldvin í fyrri hálfleik, og það eru margir að koma inn af bekknum til að mynda ungir strákar sem er mjög jákvætt. Það eru margir að skila hlutum inn í leikinn, en svekktir með að tapa,” sagði Guðlaugur í leikslok.

Anton Brink, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var í Valshöllinni og tók myndirnar hér að neðan.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira