Erlent

Stefnir í sigur stjórnarandstæðingsins Nasralla

Atli Ísleifsson skrifar
Salvador Nasralla er frambjóðandi Andstöðubandalagsins gegn einræðinu.
Salvador Nasralla er frambjóðandi Andstöðubandalagsins gegn einræðinu. Vísir/AFP
Allt bendir til að sjónvarpsstjarnan og stjórnarandstæðingurinn Salvador Nasralla muni bera sigur úr býtum í forsetakosningunum í Hondúras. Þúsundir stuðningsmanna Nasralla hafa flykkst út á götur í höfuðborg landsins til að fagna óvæntri niðurstöðu kosninganna.

Þegar búið er telja 70 prósent atkvæða er mælist Nasralla með fimm prósenta forskot. Fréttaskýrendur segja forskotið of mikið til að sitjandi forseti, íhaldsmaðurinn Juan Orlando Hernández, geti náð að vinna það upp.

Nasralla er frambjóðandi Andstöðubandalagsins gegn einræðinu, nýs bandalags stjórnmálaflokka með vinstriflokkinn Libre í broddi fylkingar.

Skoðanakannanir fyrir kosningar bentu til að Hernández myndi vinna. Hann hefur enn ekki játað sig sigraðan og segir á Twitter að hann bíði eftir endanlegum úrslitum kosninganna.

Í þriðja sæti er Luis Zelaya, frambjóðandi stjórnarandstöðuflokksins Frjálslynda flokksins. Hann segir að Nasralla sé nýr forseti landsins og hvetur Hernández til að stíga til hliðar.

Einungis er kosið í einni umferð í forsetakosningunum í Hondúras og því dugir frambjóðanda einfaldlega að fá flest atkvæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×