Skoðun

Áskorun til nýrrar ríkisstjórnar: Útrýmum fátækt á Íslandi!

Kristín Ólafsdóttir skrifar

Hjálparstarf kirkjunnar undirbýr nú aðstoð við fólk sem til okkar leitar fyrir jólin sérstaklega. Í fyrra nutu um 4.000 manns þessarar aðstoðar sem er fyrst og fremst í formi inneignarkorta fyrir matvöru en fólk fær einnig hjá okkur notaðan fatnað eða inneignarkort fyrir fatnaði og þá fá foreldrar efnislega aðstoð svo börnin geti fengið jólagjafir sem þau hafa sett á óskalistann.

Fólkið sem leitar til Hjálparstarfs kirkjunnar á Íslandi á flest erfitt með að ná endum saman vegna lágra tekna og mikils húsnæðiskostnaðar. Þegar fólk á erfitt með að mæta þeirri grunnþörf að hafa þak yfir höfuðið hefur það áhrif á allt annað í lífinu. Í félagsvísum Hagstofunnar frá 2015 segir að 23% öryrkja og 20,3% einstæðra foreldra búi við skort á efnislegum gæðum en það þýðir til dæmis að hafa ekki efni á að fara árlega í vikulangt frí með fjölskyldunni, að hafa ekki efni á kjöti, fiski eða sambærilegri grænmetismáltíð að minnsta kosti annan hvern dag og hafa hvorki efni á heimasíma né farsíma eða að hafa ekki efni á sjónvarpstæki, þvottavél, bíl eða að halda húsnæðinu nægjanlega heitu.

Við berum öll ábyrgð á samfélaginu sem við búum okkur. Við ákveðum hver ábyrgð ríkis og sveitarfélaga á að vera í stuðningsnetinu fyrir hvern og einn og við ákveðum hvernig við ætlum að skipta með okkur gæðunum, m.a. í kjaraviðræðum. Hvert og eitt okkar ber svo að sjálfsögðu ábyrgð á því að rækta hæfileika okkar og taka þátt í samfélaginu eftir getu. Hjálparstarf kirkjunnar skorar á nýja ríkisstjórn að útrýma fátækt á Íslandi á kjörtímabilinu 2017–2021 og byrja á því strax við undirbúning fjárlagafrumvarps fyrir árið 2018. Við lýsum okkur reiðubúin til þess að taka þátt í þverfaglegu starfi til þess að svo megi verða og skorum á þá sem búa við fátækt að gera það einnig!

 

Höfundur er upplýsingafulltrúi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar.
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.