Skoðun

Heilbrigð sál í hraustum líkama

Willum Þór Þórsson og Kristbjörg Þórisdóttir skrifar
Komandi kosningar snúast um traust. Um það að hér komist á stöðugt stjórnarfar. Um það að við getum farið til okkar starfa að morgni í trausti þess að hér sé ríkisstjórn að störfum að sinna brýnum verkefnum sem henni er ætlað af þjóðinni og málefnalegt Alþingi sem veitir ríkisstjórninni heilbrigt aðhald. Öflugra félagslegt heilbrigðiskerfi er eitt af þessum mikilvægu verkefnum, sem þýðir m.a. jafnt aðgengi og sem minnstan kostnað fyrir sjúklinga. Skipulag, rekstur, fjármögnun og stefnumótun er á hendi hins opinbera. Rannsóknir hafa sýnt að félagsleg kerfi skila greiðari aðgangi, lægri kostnaði og betri lýðheilsu.

Við stefnumótun og markmiðssetningu um bætta lýðheilsu ættum við í auknum mæli að líta til forvarna. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á að þátttaka barna og unglinga í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi dregur úr hvers kyns frávikshegðun og hefur jákvæð áhrif á sjálfsmynd þeirra, heilsu og almenna líðan auk þess sem aukin hreyfing dregur úr hvers kyns kvillum og sjúkdómum og hefur jákvæð áhrif á skólastarf og vinnumarkað. Stuðningur við íþrótta-, ungmenna- og æskulýðsfélögin er því heilbrigðismál og besta forvörn sem til er. Við framsóknarmenn viljum m.a. auka þennan stuðning með því að endurgreiða virðisaukaskatt til viðhalds og uppbyggingar mannvirkja. Allur slíkur stuðningur er hluti af forvörnum á sviði heilbrigðismála, markmiðum um bætta lýðheilsu og dregur til lengri tíma úr álagi og kostnaði við heilbrigðiskerfið.

Við viljum taka þátt í félagshyggjustjórn þar sem bætt lýðheilsa, forvarnir, íþrótta- og æskulýðsstarf er meðal annarra brýnna mála í öndvegi.

 

Willum Þór Þórsson skipar 1. sæti á lista Framsóknarmanna í SV-kjördæmi.

 

Kristbjörg Þórisdóttir, skipar 2. sæti á lista Framsóknarmanna í SV-kjördæmi.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×