Erlent

Kínverjar vilja banna bensín- og dísilbíla

Aukinn fjöldi rafbíla gæti leitt til meiri loftgæða í Peking.
Aukinn fjöldi rafbíla gæti leitt til meiri loftgæða í Peking. vísir/EPA
Ríkisstjórn Kína lýsti því yfir í gær að hún vildi banna framleiðslu og sölu bensín- og dísilbíla þar í landi. Xin Guobin, staðgengill iðnaðarráðherra landsins, sagði í viðtali við fréttastofu Xinhua að ríkisstjórnin kannaði nú hvernig best væri að koma slíku banni á.

„Þessar aðgerðir munu vissulega hafa í för með sér miklar og djúpstæðar breytingar á bifreiðaiðnaðinum í landinu,“ sagði Xin, en Kína er stærsti bifreiðamarkaður heims. Til að mynda framleiddu Kínverjar 28 milljónir bíla á síðasta ári, næstum þriðjung allra bíla sem framleiddir voru í heiminum.

Kínverjar slást með þessu í hóp með Bretum og Frökkum sem hafa nú þegar lýst því yfir að til standi að banna bensín- og dísilbíla fyrir árið 2040 í því skyni að draga úr loftslagsbreytingum.

Þá greindu forsvarsmenn bílaframleiðandans Volvo, sem er í eigu Kínverja, frá því í júlí að frá og með 2019 yrðu allir bílar fyrirtækisins rafknúnir. Hyggst Volvo selja milljón rafbíla fyrir árið 2025.

Sjálfir vilja Kínverjar að rafbílar og tvinnbílar verði að minnsta kosti fimmtungur allra seldra bíla fyrir árið 2025. Tillögur Kínverja enn sem komið er miða að því að í það minnsta átta prósent seldra bíla verði að vera rafbílar eða tvinnbílar á næsta ári. Það hlutfall mun hækka í tólf prósent árið 2020. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×