Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hækkaði sig um 15 sæti á heimslistanum í golfi milli vikna.
Ólafía lenti í 48. sæti á Evian-meistaramótinu, síðasta risamóti ársins, um helgina. Þetta var hennar besti árangur á risamóti á ferlinum.
Eftir að hafa náð 4. sætinu á Indy Women in Tech-mótinu um þarsíðustu helgi stökk Ólafía upp um 103 sæti á heimslistanum; úr 300. sæti og í 197. sæti.
Nú er hún komin upp í 182. sætið á heimslistanum og hefur því hækkað sig um 118 sæti á tveimur vikum.
Í ársbyrjun var Ólafía í 611. sæti heimslistans. GR-ingurinn hefur því stokkið upp um 429 sæti síðan fyrsti heimslisti ársins var gefinn út.
Ólafía er í 69. sæti peningalista LPGA-mótaraðarinnar. Hundrað efstu kylfingarnir fá keppnisrétt á næsta ári.

