Skoðun

Hið rétt andlit innflytjenda

Nichole Leigh Mosty skrifar
Ég hef oft setið og bitið í tunguna þegar málefni tengd innflytjendum og hælisleitendum hefur borið á góma. Ég hef lesið allt of margir greinar, athugasemdir og færslur á samfélagsmiðlum og blogg um það hvernig ég, börnin mín og aðrir í sömu stöðu og ég séum byrði á kerfum hér á Íslandi og að við tökum eitthvað frá Íslendingum. Ég ætla ekki lengur að sitja undir málflutningi ákveðinna rétttrúnaðarflokka sem tala m.a. um „sokkinn kostnað“ vegna þess að börn af erlendum uppruna fá tækifæri til að setjast á skólabekk hérlendis. Nú er kominn fram enn einn flokkurinn sem hefur það að markmiði að teikna upp ranga mynd af innflytjendum og hælisleitendum sem velja það að yfirgefa fjölskyldu sína, vini og allt sem þeir þekkja til að freista þess að fá að búa hér og taka þátt í lýðræðislegu samfélagi. Og okkur ber siðferðisleg skylda til að taka vel á móti fólki sem hefur lagt á sig mikið erfiði, undir ömurlegum kringumstæðum, við að komast hingað til að leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Af því flóttamenn eru á ábyrgð heimsbyggðarinnar allrar, líka okkar.

Fyrir þá sem misstu af þessari merkilegu innkomu Frelsisflokksins, leyfið mér að deila með ykkur orðum sem birtast í aðsendri grein í Morgunblaðinu: „ Frelsisflokkurinn vill gerbreytta og aðhaldssamari stefnu í málum innflytjenda. Núverandi stefna og galopin löggjöf er að koma okkur í koll og straumur hælisleitenda til landsins er að verða óviðráðanlegur og kostnaður vex veldisvexti milli missera. Slíkt mun aðeins leiða til ófriðar og skerðingar á lífskjörum og frelsi.“ Er það virkilega svo?

Mín saga, sem bandarískur innflytjandi er auðvitað ekki saga allra sem hingað koma. Ég kom hingað frá Bandaríkjunum til að elta ástina. Aðrir koma hingað í neyð. Bakgrunnur og forsendur er því ólíkar á milli hópa. Ég hef ekki leyfi til þess að deila sögum annara en mér finnst sanngjarnt að fólk kynni sér hið rétt andlit innflytjenda og að sanngjörnu ljósi sé varpað á okkur. Við erum ekki óvinir Íslendinga. Í okkur er fólginn félagslegur auður og ýmis tækifæri fyrir Íslendinga. Ég var svo heppin að pólitískt afl, Björt framtíð, sýndi kjark með því að treysta mér, innflytjandanum, fyrir tækifæri til að axla ábyrgð á áberandi hátt.

Þegar ég flutti hingað voru tækifæri mín hins vegar fólgin í því að starfa við ræstingar og við hlutastarf á leikskóla. Ekki geri ég lítið úr þeim störfum en ég hafði upp á margt meira að bjóða. Þegar ég náði tökum á íslensku var mér boðið 100% starf í leikskólanum. Reyndar var það þannig að mikil mannekla var á staðnum á þeim tíma því Íslendingar sóttust ekki eftir láglaunastarfinu sem fólst í því að vinna á leikskóla. Kannski hjálpaði það til? Ég, líkt og margir aðrir innflytjendur, vann því 100% vinnu á leikskólanum að degi til og ræsti á kvöldin til að ná endum saman en samhliða stundaði ég einnig nám.

Á meðan ég var að aðlagast íslensku samfélagi hafði ég hægt um mig. Ég flíkaði því ekki að vera bandarísk og bað ekki um margt. Ég gat þá og get enn talið á fingrum mér þá vini sem standa mér næst og ég get talið innan míns tengslanets. Vini sem sýna hjálp og stuðning þegar á þarf að halda. Þó að ég tæki að mér trúnaðarmannsstarf á leikskólanum vantaði þó verulega upp á að mér væru kynnt þau réttindi sem Íslendingar vita almennt um. Ég var jú bæði ung og að koma úr allt annars konar kerfi. Ég vissi lítið um kjarasamninginn sem ég starfaði eftir og hafði enga vitneskju um það hvenær ég mögulega gat átt rétt á launahækkun. Ég vissi heldur ekki að sem skattgreiðandi á Íslandi ætti ég að hafa heimilislækni á heilsugæslu. Ég fór því alltaf á Læknavaktina. Ég fór ekki heldur á íslenskunámskeið fyrir útlendinga því það var einfaldlega of dýrt og þess utan varð ég að vinna á þeim tíma sem þau voru haldin. Ég hef alltaf greitt skatt á Íslandi og aldrei brotið af mér. Þessa aðstöðu þekkja mjög margir innflytjendur og hún er ekki einstök. Það vantar enn þá upp á að fólki sé gert kleift að verða fullgildir þátttakendur í samfélaginu en það er einmitt lykillinn að því að vel takist upp með móttöku innflytjenda og hælisleitenda hér á landi og að þeim líði nógu vel hér til að aðlagast vel.

Árið 2007 hlaut ég íslenskan ríkisborgararétt, mér til mikillar ánægju. Það breyttist svo sem ekki margt í mínu daglega lífi fyrir utan það að styttri raðir á evrópskum flugvöllum voru nú veruleiki og ég greiði nú skatt í tveimur löndum. Ég hélt hins vegar áfram að vinna sama starf og áður, ég greiddi sömu upphæð til skattyfirvalda og áður, ég fékk ekki meiri þjónustu, afslátt eða forgang á nein kerfi. Ég hafði hins vegar loksins áunnið mér alvöru rödd, mér var frjálst að taka þátt í kosningum og tjá mig sem Íslendingur. Ég viðurkenni fúslega að hafa ekki verið nægilega dugleg við það. Sem „nýr“ Íslendingur vil ég beita minni rödd til að beina athyglinni að tíunda hverjum Íslendingi sem sumt fólk vilja skilgreina með neikvæðum hætti, í pólitískum tilgangi.

Flest okkar flytja hingað vegna þess að við sækjumst eftir sanngjörnum tækifærum til mannvirðingar. Við viljum mennta okkur og vinna. Skila okkar til samfélagsins. Þegar ég lít til baka viðurkenni ég að þó að það hafi ekki alltaf verið auðvelt er ég þakklát fyrir að hafa ekki gefist upp. Ísland er land tækifæra, hér er mikið réttlæti og fjölskyldu- og barnvænt samfélag. Fólk hefur hér almennt tækifæri til að lifa með reisn því Íslendingar hafa valið að standa vörð um mannréttindi. Því miður er það ekki þannig í öðrum löndum. Ég er því bæði stolt og þakklát fyrir að vera Íslendingur og í hvert einasta skipti sem ég fæ að óska öðrum innflytjendum til hamingju með ríkisborgararéttinn fagna ég hástöfum, bæði fyrir þá og fyrir Ísland.

En hvað er það að lifa með reisn? Er það að menntaðir kennarar, endurskoðendur eða læknar fái eingöngu vinnu við ræstingar? Hér á landi er nefnilega ekki auðvelt að fá vinnu við hæfi ef maður er ekki fæddur hér. Og í því felst mismunun. Mismunun sem felst eingöngu í því hvort fólk er fætt hér eða ekki. Og sú mismunun getur leitt til skerðingar á lífskjörum og frelsi, eins og Frelsisflokkurinn lýsir í sínum hræðsluáróðri. En sú lífskjaraskerðing á við um Íslendinga líka ef við vöndum okkur ekki við verkefnið. Og þeir sem hafa hátt segja gjarnan að hana megi rekja til þess að útlendingar vilji ekki verða hluti af samfélaginu, vilji ekki leggja sitt af mörkum, vilji ekki aðlagast og verða „Íslendingar“. Og þar getur klæðaburður orðið aðal þrætueplið. Þróunin í samfélaginu er vissulega hröð. Miklu hraðari en þau kerfi og lagaumhverfi sem eiga að þjóna því. En við þurfum að finna leiðir til að takast á við þann hraða og þær breytingar. Það verður ekki gert með því að skuldfæra hræðslu, órökstuddar yfirlýsingar og tilfinningar á reikning útlendinga. Það verður gert með því að viðurkenna ábyrgð okkar, gefa fólki tækifæri til að lifa með reisn, tækifæri til að taka þátt á sínum forsendum og með því að gera því kleift að verða alvöru Íslendingar sem hafa sömu tækifæri og innfæddir.

Höfundur er alþingismaður




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×