Skoðun

Hreyfing til heilsu

Unnur Pétursdóttir skrifar
Allir, ungir sem aldnir, þurfa á hreyfingu að halda. Staðreyndin er hins vegar sú að samkvæmt alþjóðlegum tölum nær þriðjungur fullorðinna ekki þeirri lágmarkshreyfingu sem mælt er með. Þeirri staðreynd vilja sjúkraþjálfarar um allan heim vekja athygli á, nú þegar þeir fagna alþjóðlegum degi sjúkraþjálfunar, 8. september 2017. Þennan dag nýta sjúkraþjálfarar til vekja athygli á þjálfun, forvörnum og mikilvægi þess að allir njóti daglegrar hreyfingar, burtséð frá líkamsburðum.

Hreyfing, sem hluti af daglegu lífi, bætir heilsu og líðan fólks og dregur úr áhættu á ýmsum sjúkdómum t.d. hjarta- og æðasjúkdómum og sykursýki af tegund 2. Að hreyfa sig og vera virkur í daglega lífinu er algerlega nauðsynlegt fyrir heilsu og vellíðan, það hafa fjölmargar rannsóknir sýnt fram á og sönnunargögnin eru ótvíræð. Samt sem áður er það ekki auðvelt fyrir alla og í raun erfitt fyrir marga. Lífstíll okkar og umhverfi þar sem við vinnum, leikum og lærum stuðlar ekki alltaf að líkamlegri virkni.

Til eru einfaldar leiðir til að fella hreyfingu og líkamlega virkni inn í dagslegt amstur og á því vilja sjúkraþjálfarar vekja athygli. Æfing og hreyfing geta verið alls konar og geta falið í sér heimilisstörf og garðyrkju, auk dans, hlaupa eða hjólreiða svo fáein dæmi séu tekin.

Sífelld aukin þekking á mannslíkamanum eykur skilning á hreyfikerfum og hreyfiþörf líkamans. Hér á Íslandi eru 600 sjúkraþjálfarar tilbúnir til að ræða við fólk og fræða um það hvernig hægt er að auka almenna daglega hreyfingu til heilsubótar.

Höfundur er formaður Félags sjúkraþjálfara.
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.