Viðskipti innlent

Óttast enn eitt höfrungahlaupið í launahækkunum í vetur

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Íslensk laun í erlendum samanburði hafa hækkað verulega undanfarin ár og eru nú á svipuðum stað og þegar hæst stóð í uppsveiflunni árið 2007. Seðlabankinn reiknar með því að raungengið nái sögulegum hæðum 2018.
Íslensk laun í erlendum samanburði hafa hækkað verulega undanfarin ár og eru nú á svipuðum stað og þegar hæst stóð í uppsveiflunni árið 2007. Seðlabankinn reiknar með því að raungengið nái sögulegum hæðum 2018. Vísir/Vilhelm
Launakostnaður fyrirtækja hér á landi hefur hækkað um fjörutíu prósent meira en í helstu samkeppnisríkjum Íslands á síðustu tveimur árum. Ekkert lát virðist vera á hækkuninni en Seðlabanki Íslands spáir því að raungengi launa nái sögulegum hæðum á næsta ári. Hækkunin endurspeglar þverrandi samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs sem leiðir til minni getu fyrirtækja til þess að standa undir launahækkunum, að sögn Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins.Samfara hækkandi launakostnaði hefur hlutfall launa af landsframleiðslu hér á landi snarhækkað síðustu ár. Var það í fyrra það hæsta á Norðurlöndunum eða 62,4 prósent borið saman við 60 prósent í Svíþjóð og 54,6 prósent í Noregi.Viðmælendur Markaðarins óttast að enn eitt höfrungahlaupið í launahækkunum fari af stað í komandi kjaraviðræðum vetrarins. Verkalýðsfélög á almenna markaðinum muni fylgjast vel með því hvaða samningum opinberir kjarahópar ná í haust og krefjast í kjölfarið sömu launahækkana.Ari Skúlason, hagfræðingur í hagfræðideild Landsbankans, segir ljóst að svigrúm til launahækkana á komandi mánuðum sé ekki mikið. Flestir hafi búast við því að launahækkanirnar sem samið var um í kjarasamningum árið 2015 myndu hleypa verðbólgunni af stað. Óvenjulegar aðstæður í efnahagslífinu hafi hins vegar gert það að verkum að svo fór ekki. „En ég held það sé alveg ljóst að sá leikur verður ekki endurtekinn.“Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, segir enga leið að rökstyðja það að raungengi launa geti hækkað mikið meira án þess að við fáum það í bakið síðar. Frekari hækkun geti ekki staðist til lengdar.Hið opinbera ræður för

Fram undan er umfangsmikil samningalota á vinnumarkaði. Fimmtíu kjarasamningar losna á þessu ári, áttatíu á því næsta og 138 á árinu 2019, en á meðal þeirra sem eru nú að hefja viðræður eru átján aðildarfélög BHM, Bandalags háskólamanna, og grunn- og framhaldsskólakennarar.Ljóst þykir að hið opinbera mun ráða ferðinni og leiða launaþróunina. „Hið opinbera situr í bílstjórasætinu,“ segir viðmælandi Markaðarins og bendir á að það sé þvert á það sem viðgangist í nágrannaríkjum okkar, þar sem útflutningsgreinarnar semja fyrst með hliðsjón af efnahagslegum aðstæðum. Aðrir kjarahópar taki síðan mið af því.

"Það er óboðlegt að hópar opinberra starfsmanna brjóti niður launastefnu sem almenni markaðurinn hefur mótað," segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.
Samninganefndir ríkisins og sveitar­félaga hafa skuldbundið sig til þess að halda sig innan Salek-samkomulagsins svonefnda, sem gerir ráð fyrir að hækkun launakostnaðar fari ekki fram úr 32 prósentum frá árslokum 2014 til loka árs 2018, en óttast er að þau fyrirheit fari fyrir lítið. Er þá helst vísað til þess að ákvarðanir kjararáðs um tuga prósenta launahækkanir hafi sett samkomulagið í algjört uppnám.Ari telur of snemmt að segja til um hvort von sé á enn einu höfrungahlaupinu í vetur. „Auðvitað eru tilhneigingar í þá átt þegar opinberir hópar eru komnir í stellingarnar og farnir að miða við aðra opinbera hópa. Það samræmist ekki því módeli sem við erum að reyna að setja upp að norrænni fyrirmynd. En hvort allt fari á fleygiferð aftur er stóra spurningin sem við fáum ekki svar við fyrr en líða fer á haustið.“Halldór Benjamín segir fráleitt að opinberir starfsmenn séu leiðandi í launaþróun í landinu. Það gangi gegn þeirri hugsun að atvinnulífið gefi merki um rými til launabreytinga. „Þetta verður að vera þannig að almenni markaðurinn slær tóninn og hið opinbera fylgir í kjölfarið. Og almenni markaðurinn er búinn að slá tóninn með kjarasamningum Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins. Samninganefndir hins opinbera, bæði ríkis og sveitarfélaga, verða einfaldlega að taka þeim skilaboðum sem þar eru gefin. Það er óboðlegt að hópar opinberra starfsmanna brjóti niður launastefnuna sem almenni markaðurinn hefur mótað. Það gengur í berhögg við skynsamlega nálgun.“Launaskrið hjá hinu opinbera

Viðmælendur Markaðarins benda á að mikið launaskrið hafi verið hjá einstökum hópum opinberra starfsmanna síðustu ár. Samkvæmt upplýsingum á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins hækkuðu heildarlaun einstakra hópa opinberra starfsmanna um 30 til 35 prósent frá árinu 2014 til loka mars 2017. Innan Læknafélags Íslands nam hækkunin til dæmis 32 prósentum, 34 prósentum innan Kennarasambands Íslands og 31 prósenti hjá þeim sem heyra undir kjararáð.Til samanburðar hækkuðu laun innan Alþýðusambandsins um 18 prósent á sama tíma.

Raungengi launa, sem sýnir hvernig launakostnaður hér á landi þróast í samanburði við önnur ríki í sömu mynt, hefur hækkað verulega síðustu ár og nálgast nú sögulegar hæðir, að sögn Ásgeirs Jónssonar, dósents í hagfræði við Háskóla Íslands. Hækkunin nemur um 48 prósentum frá byrjun árs 2014 og fjörutíu prósentum frá árinu 2015. 

Með öðrum orðum hefur hérlendur launakostnaður hækkað um fjörutíu prósent umfram launakostnað samkeppnisríkja, mælt í sama gjaldmiðli, á síðustu tveimur árum.

Vísitala raungengis launa stóð í 98,4 stigum í lok fyrsta fjórðungs ársins en Seðlabanki Íslands spáir því að vísitalan verði 102,1 stig á þessu ári, 109,0 á næsta ári og 113,7 stig árið 2019. Mest náði hún 106,9 stigum á öðrum fjórðungi árs 2017. Er raungengið nú komið liðlega þriðjungi yfir sögulegt meðaltal sitt.Sá bankinn ástæðu til að taka það fram í vorhefti Peningamála að geta innlendra fyrirtækja til að taka á sig frekari kostnaðarhækkanir gæti verið „komin að endamörkum“.Aldrei minnst á framleiðni

Ásgeir segist ekki fá séð að frekari raungengishækkun geti staðist til lengdar. „Við getum auðvitað ekki hækkað laun meira og hraðar en aðrar þjóðir. Við getum ekki upp á eigið sjálfdæmi ákvarðað laun á þessari eyju. Þau ráðast af samkeppnisstöðunni. Það er undarlegt að í umræðum um kjaramál hér á landi er eiginlega aldrei minnst á framleiðni eða samkeppnisstöðu okkar. Það mætti halda að launin væru ótengd verðmætasköpun,“ segir hann.Ásgeir segir að nú sé ekki í fyrsta sinn sem laun hér á landi taki á rás og hækki umfram nágrannalöndin. „Þetta hefur gerst síendurtekið í íslenskri hagsögu. Leikurinn er alltaf sá sami. Launin hækka gríðarlega í uppsveiflu í krafti mikils vaxtar í einni atvinnugrein. Nú er það ferðaþjónustan, áður var það bankaþjónustan, þar áður tæknibólan og þar þar áður sjávarútvegurinn. Kaupmáttur vex þá í tugum prósenta á aðeins nokkurra ára bili og langt umfram raunverulega verðmætasköpun. Á endanum fellur gengi krónunnar og verðbólgan fer af stað og étur upp kaupmáttinn.“Í öðrum ríkjum hækki laun að jafnaði í samræmi við framleiðniaukningu, mögulega um eitt til þrjú prósent á ári þegar vel árar. Það þekkist ekki að kjarahópar taki út tuga prósenta launahækkanir í einu lagi. „Enda er það svo að meðalhækkun kaupmáttar á Íslandi frá 1989 hefur verið 1,7% sem er alveg í línu við önnur lönd. Það sem er sérstakt við Ísland eru þessar miklu hæðir og lægðir í launaþróuninni,“ nefnir Ásgeir.

Vill verja kaupmáttaraukninguna

Það er kunnara en frá þurfi að segja að þær miklu launahækkanir sem samið var um í byrjun árs 2015 hafa ekki skilað sér í aukinni verðbólgu. Almennur kaupmáttur hefur hækkað um yfir tuttugu prósent á tveimur árum.Halldór Benjamín segir það fáheyrt. Í raun hafi kaupmáttaraukning heils áratugar verið tekin út á um tveimur árum. „Við höfum náð ótrúlegum árangri á undanförnum árum. Samið var um miklar launahækkanir en á sama tíma styrktist krónan um tugi prósenta sem hafði verðhjöðnunaráhrif á móti verðbólguáhrifum launahækkananna. Samtímis voru viðskiptakjör í útflutningi hagstæð.En nú breytist verkefnið. Vinnumarkaðurinn verður að geta aðlagast breyttum forsendum enda er staðan gjörbreytt um þessar mundir. Við megum ekki hjakka alltaf í sama farinu enda er sú aðferð fullreynd í mínum huga. Verkefnið er ekki að reyna að endurtaka sömu aðferðafræði og síðast, heldur að standa vörð um þann árangur og kaupmáttaraukningu sem hefur náðst. Og það gerum við með hóflegum launahækkunum í takt við framleiðniaukningu. Það eru hagsmunir allra á vinnumarkaði, hvort sem er opinberra eða almennra starfsmanna, að okkur takist að verja kaupmáttaraukninguna. Stundum er skynsamlegt að stíga eitt skref aftur á bak til að geta tekið tvö skref fram veginn síðar.“Ekki þurfi að fletta lengi í íslenskri hagsögu til þess að sjá afleiðingar þess þegar leið mikilla launahækkana, umfram framleiðnivöxt, er farin. Gengi krónunnar verði þá smám saman ósjálfbært og leiðrétting þess óhjákvæmileg.„Innstæðulausar launahækkanir hafa með fullri vissu sömu afleiðingar og þær hafa alltaf haft. Afleiðingin verður sú að gengið fellur, verðbólgan fer á skrið og kaupmáttur launa lækkar. Allir tapa og við verðum að forðast að láta söguna endurtaka sig. Ný og fordæmalaus staða kallar á breytta aðferðafræði sem mun skila öllum betri niðurstöðu til langs tíma.

"Það er undarlegt að í umræðum um kjaramál hér á landi er eiginlega aldrei minnst á framleiðni eða samkeppnisstöðu okkar," segir Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands.
En ástandið er viðkvæmt. Það er auðvelt að missa þetta úr höndum sér. Það er einfaldlega of mikið í húfi til að við leyfum þeirri atburðarás að endurtaka sig. Nú er tími til að standa í lappirnar og verja þann árangur sem náðst hefur. Um það eiga kjaraviðræður hausts og vetrar að snúast.“ Gengur ekki til lengdar

Ásgeir segir nokkrar ástæður fyrir því hve vel hefur gengið að hækka laun á síðustu árum án þess að til verðbólguskots hafi komið.„Ferðaþjónustan hefur sömu áhrif og fólksfjölgun og stækkar markaðinn, þannig að mörg fyrirtæki í landinu hafa fundið fyrir aukinni eftirspurn og vaxandi tekjum. Þá hefur verðlækkun á hrávöru valdið því að hrávörukostnaður fyrirtækja hefur lækkað.Þriðji þátturinn er sá að mörg fyrirtæki fóru í gegnum fjárhagslega endur­skipulagningu eftir hrun og eru nú með lægri skuldir og betur fjármögnuð en áður. Þau hafa því efni á meiri launahækkunum en ella. Auk þess má einnig greina breyttan hugsunarhátt þannig að fyrirtæki velta ekki lengur launahækkunum sjálfkrafa út í verðlagið, eins og áður fyrr, heldur reyna að mæta þeim með hagræðingu. Auk þess lækkuðu raunlaun verulega eftir að gengið hrundi árið 2008. Það var því töluvert svigrúm fyrir launahækkanir.“Ásgeir segist vona að innstæða hafi verið fyrir þessari miklu hækkun kaupmáttar síðustu ár. „Ég er ekki endilega á þeirri skoðun að þessar hækkanir muni ganga til baka síðar meir. Þrátt fyrir að umræðan sé oft á tíðum neikvæð hefur mjög margt gengið vel hjá okkur og ytri aðstæður hafa einnig reynst okkur hagfelldar. Ég vona því að kaupmáttaraukning síðustu ára sé varanleg. En það er hins vegar engin leið að rökstyðja það að raungengið geti hækkað mikið meira og að vísitalan geti farið upp fyrir 100 stigin án þess að við fáum það í bakið síðar.“Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
HAGA
0
2
7.207

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
EIM
-5,07
13
46.347
ICEAIR
-2,63
20
20.161
REGINN
-1,94
3
6.676
EIK
-1,84
3
24.545
FESTI
-1,06
2
4.005
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.