Erlent

Sameining komi í veg fyrir upprisu ISIS 2.0

Samúel Karl Ólason skrifar
Frelsun Mosul fagnað.
Frelsun Mosul fagnað. Vísir/AFP
Æðsti yfirmaður herafla Bandaríkjanna í Írak segir baráttuna gegn Íslamska ríkinu ekki vera lokið. Mikilvægt sé að sameina þjóðina til að ganga frá og koma í veg fyrir upprisu ISIS á nýjan leik. Nauðsynlegt sé að yfirvöld í Baghdad, sem stjórnað er af sjítum, sættist við súnníta Írak.

„Ef við eigum að koma í veg fyrir upprisu ISIS 2.0, þá þarf írakska ríkisstjórnin að breyta verulega til,“ segir hershöfðinginn Stephen Townsend.

Deilur milli súnníta og sjíta voru verulega stór þáttur í upprisu Íslamska ríkisins og hernámi þeirra á stórum svæðum í norðanverðu Írak. Samtökin nýttu sér reiði súnníta gagnvart yfirvöldum í Baghdad og var vígamönnum ISIS víða tekið sem frelsurum. Í fyrstu.

Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa sakað Íraka og bandamenn þeirra gegn Íslamska ríkinu, þar af aðallega Bandaríkin, um mikið mannfall almennra borgara og að beita þungavopnum í byggðum hverfum Mosul.

Talsmaður bandalagsins sagði BBC að skýrsla Amnesty væri óábyrg og móðgun.

Í skýrslunni segir að loftárásir og stórskotaliðsárásir Íraka og bandamanna þeirra hafi verið gerðar þrátt fyrir að vígamenn ISIS væru að skýla sér að baki almennings. Sókninni hefði ekki verið breytt til þess að taka almenna borgara með í reikninginn.

Flestir íbúar Mosul eru súnnítar.

Í skýrslunni eru ódæði ISIS-liða einnig tíunduð. Þar á meðal eru þeir sagðir hafa myrt þúsundir borgara sem reyndu að flýja úr borginni og hafa hengt lík upp í rafstaura, öðrum til viðvörunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×