Viðskipti erlent

Google "Facebook-væðir“ viðmót sitt

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Google ætlar að taka Facebook sér til fyrirmyndar og mun bæta fréttaveitu við viðmót sitt.
Google ætlar að taka Facebook sér til fyrirmyndar og mun bæta fréttaveitu við viðmót sitt. Google
Google kynnti í dag einstaklingssniðna fréttaveitu, líkt og þá sem notendur þekkja af Facebook. Fyrst um sinn verður veitunni komið fyrir í Google-smáforritinu fyrir iOS og Android-tæki en fyrirtækið hefur í hyggju að bæta henni einnig við Google-heimasíðuna. Viðbótinni er ætlað að sýna notendum efni sem þeir gætu haft áhuga á áður en þeir slá orð inn í leitarvélina.

Fréttaveitan mun til að mynda birta fréttir, myndbönd og tónlist sem allt verður sérvalið á grundvelli leitarorða sem viðkomandi notendur hafa áður slegið inn í leitarvélina. Þó er sérstaklega tekið fram að fréttir sem birtast verði úr smiðju fjölmiðla úr mörgum áttum svo fólk geti fylgt efnisveitum sem bjóði upp á fjölbreytt sjónarhorn.

Þá verður notendum gert kleift að „fylgja“ ákveðnum leitarniðurstöðum til að sníða fréttaveituna betur að áhugasviðum sínum.

Heimasíða Google er sú vefsíða á netinu sem fær flestar heimsóknir en hún hefur hingað til verið þekkt fyrir stílhreint viðmót. Með nýju fréttaveitunni verður ef til vill breyting þar á. Þá hefur fréttastofa Breska ríkisútvarpsins ekki fengið staðfest hvort Google muni birta auglýsingar í veitunni líkt og fyrirmyndin, Facebook.

Hægt er að kynna sér nýjungina frekar í tilkynningu frá Google.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×