Skoðun

Refsa fyrst, spyrja svo?

Jakob Frímann Magnússon skrifar
Afleysingastúlka í Leikskólanum 101 náði haustið 2013 myndbandsbroti af starfssystur sinni „flengja“ stúlkubarn. Í stað þess að kvarta til yfirmanna á þessum 7 manna vinnustað var myndbandinu komið beint til Kastljóssins og nú gerðust hlutirnir hratt: Þessum 33 barna skóla var umsvifalaust lokað. Barnaverndarnefnd og Lögreglan í Reykjavík tóku yfir málið. Foreldrum var eðlilega brugðið.

Ljóst var að umræddir foreldrar yrðu í knappri stöðu því hvergi var laust pláss í leikskólum borgarinnar. Sá sem þetta ritar var í þeim hópi og mátti á næstu vikum gjalda dýru verði þjónustu aðstoðarfólks þar til hægt var að troða okkar barni sem og öðrum fórnarlömbum umræddra aðstæðna inn í leikskóla annarra hverfa, skóla sem þó voru allir þegar yfirfullir. Upphófst nú alllangt tímabil 90 mínútna daglegra bíltúra á háannatíma, til og frá því úthverfi sem okkur bauðst pláss í.

Undirritaður óskaði nokkrum mánuðum síðar eftir niðurstöðum rannsókna þessa máls sem svo áþreifanlega hafði komið við dagskrá og pyngju fjölskyldu okkar og annarra. Engin svör bárust.

Eigendur og starfsfólk skólans hafði beðið alvarlega hnekki á starfsheiðri sínum og trúverðugleika. Starfsfólkið missti vinnuna og eigendur glötuðu fyrirtæki sínu. Á miðju ári 2015 var undirritaðan farið svo að lengja eftir niðurstöðum að hann bankaði upp á hjá lögreglunni.

Þar reyndist fátt um svör, þótt rannsókn málsins væri löngu lokið. Það eina sem fulltrúar lögreglunnar voru reiðubúnir að láta hafa eftir sér: „Of mörg börn á Leikskólanum 101!“ Akkúrat. Hin 18 mánaða rannsókn hafði leitt í ljós að myndbandið fræga innbar ekkert saknæmt eða refsivert. Hins vegar hafði skólanum orðið á í messunni er tveimur börnum var heimiluð vist umfram leyfilegan kvóta. En afrakstur alls þessa hafði jú þýtt að tveimur til þremur börnum hafði nú verið troðið í alla leikskóla höfuðborgarsvæðisins umfram það sem leyfilegt var!

Þó vissulega séum við sammála um að láta börnin okkar ávallt njóta vafans, gætum við hugsanlega lært eitthvað af ofangreindu um hvernig EKKI skyldi hrapa að niðurstöðum í málum af þessum toga, en saga þessi rifjaðist einmitt upp að gefnu tilefni nú um helgina.

 

Höfundur er tónlistarmaður.
Skoðun

Skoðun

Eins og…

Margrét Júlía Rafnsdóttir skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.