Skoðun

Fullyrðingar ráðherra um kjör öryrkja standast ekki skoðun

Ellen Calmon og Sigríður Hanna Ingólfsdóttir skrifar
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir félagsráðgjafi og starfsmaður málefnahóps ÖBÍ um kjaramál

Í umræðum á Alþingi 16. maí sl. um aðgerðir gegn fátækt kom Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, með tvær fullyrðingar um kjör örorkulífeyrisþega, sem því miður verða að teljast rangfærslur.Hann hélt því fram að kaupmáttur lægstu launa hefði aukist umfram almennan kaupmátt og að kaupmáttur örorkulífeyris hefði að sama skapi fylgt lægstu launum að undanförnu. Þetta er því miður ekki rétt hvað varðar þróun lífeyris almannatrygginga, eins og fram kemur meðal annars í umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2018-2022. ÖBÍ fékk Hagfræðistofnun Háskóla Íslands til að reikna út kaupmátt lágmarkslauna (lágmarkstekjutryggingu í dagvinnu) og kaupmátt óskerts örorkulífeyris. Með óskertum örorkulífeyri er átt við heildarupphæð greiðslna til einstaklings sem hefur engar, eða lágar tekjur, annars staðar frá.Eins og sjá má á myndinni er verulegur munur á þróun kaupmáttar lágmarkslauna annars vegar og lífeyris til örorkulífeyrisþega hins vegar, hvort heldur horft er til óskerts örorkulífeyris eða miðgildis heildartekna. Það er langt frá því að kaupmáttur þessara tekna hafi fylgst að eins og ráðherra heldur fram. Öfugt við lágmarkslaun hefur kaupmáttur örorkulífeyris rýrnað flest árin og hefur lítið breyst. Þá má geta þess að lágmarkslaun á vinnumarkaði eru einnig alltof lág en lág laun leiða frekar til örorku. Ef fólk þarf að leggja stund á fleira en eitt starf til að eiga í sig og á getur slíkt álag í lengri tíma leitt til örorku.Í sömu umræðu hélt félags- og jafnréttisráðherra eftirfarandi fram: „Markmiðið er að um næstu áramót hækki lágmarksfjárhæðir eða lágmarkstekjutryggingar bæði ellilífeyris og örorkulífeyris í 300 þúsund krónur eins og lágmarkslaun á vinnumarkaði.“Í fjármálaáætlun 2018-2022 er áætlað að hækkun lífeyris almannatrygginga verði einungis á bilinu 3,1% til 4,8% á tímabilinu (árin 2018-2022). Ef hærri prósentutala (4,8%) er tekin, mun óskertur örorku- og endurhæfingarlífeyrir hækka í 238.821 kr. á mánuði í byrjun árs 2018. Það er nokkuð langt frá 300 þúsund krónum. Það væri skref í rétta átt ef óskertur örorkulífeyrir yrði hækkaður um rúmar 72 þúsund krónur á mánuði fyrir skatt í stað þess að hækka um á bilinu 7 til tæplega 11 þúsund krónur á mánuði fyrir skatt, eins og fjármálaætlunin gerir ráð fyrir.Ekki er ljóst hvað ráðherra á við um lágmarksfjárhæðir eða lágmarkstekjutryggingu. Það er í raun enga lágmarksfjárhæð eða lágmarkstekjutryggingu að finna í almannatryggingakerfinu. Stækkandi hópur lífeyrisþega er með heildartekjur undir framfærsluviðmiði/óskertum lífeyri almannatrygginga. Eins og fram kemur í svari félags- og jafnréttismálaráðherra á Alþingi 27. febrúar síðastliðinn voru til að mynda 50 lífeyrisþegar með heildartekjur undir 80 þúsund krónum á mánuði í nóvember 2016. Það verður að teljast sérkennilegt að í umræðu um aðgerðir gegn fátækt hafi ekki verið minnst á þennan stækkandi hóp lífeyrisþega.

 Ellen Calmon er formaður ÖBÍ og Sigríður Hanna Ingólfsdóttir er félagsráðgjafi og starfsmaður málefnahóps ÖBÍ um kjaramál.

 

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.