Gagnrýni

Fjörugir sjóræningjar í þreyttum endurtekningum

Tómas Valgeirsson skrifar
Karakter eins og Jack Sparrow er einfaldlega ekki gerður til þess að bera sig einn í sviðsljósinu. Hann breytist aldrei né þróast og er best nýttur sem mótvægi við aðra, jarðbundnari karaktera.
Karakter eins og Jack Sparrow er einfaldlega ekki gerður til þess að bera sig einn í sviðsljósinu. Hann breytist aldrei né þróast og er best nýttur sem mótvægi við aðra, jarðbundnari karaktera.
Varla er til neitt sem heitir slæm hugmynd, aðeins vond framkvæmd. Í eðli sínu hljómaði það samt eins og mistök að búa til bíómynd byggða á „skemmtitæki“ í Disneylandi, en það var nýtt í fyrstu Pirates of the Caribbean myndinni sem góður grunnur til þess að prófa ýmsa nýja hluti. Hvað gerðist svo? Hún hitti rakleiðis í mark á meðal fólks með heillandi umgjörð, gamaldags ævintýrafíling og óbeisluðum Johnny Depp.

Fjórum myndum og nokkrum milljörðum síðar í heildartekjum er Disney-risinn áfram staðráðinn í því að fanga aftur sömu töfra og sannfæra almenning um að síölvaði, flippaði kafteinninn Jack Sparrow og félagar hans séu ekki orðnir uppiskroppa með ný brögð. Þá kemur fimmta eintakið eins og kallað til að staðfesta það formlega að svo sé, þrátt fyrir að nýi liðsaukinn hjálpi aðeins til að sinni.

Serían hefur séð bæði aðeins verri og mun betri daga, en þrátt fyrir það fær áhorfandinn nákvæmlega það sem hann á von á; heilalausa, rándýra og leikna teiknimynd sem þrífst á því að vera yfirdrifin en engir sénsar eru teknir. Pirates of the Caribbean: Salazar’s Revenge er bundin því að fara eftir gömlum uppskriftum en í henni virðist hugmyndaflugið hafa að minnsta kosti verið víkkað meira heldur en í drepleiðinlega fjórða kaflanum í seríunni, þar sem Depp var strípaður öllum sjarma og formlega settur í burðarhlutverkið í stað þess að vera fyndinn fylgihlutur.

Karakter eins og Jack Sparrow er einfaldlega ekki gerður til þess að bera sig einn í sviðsljósinu. Hann breytist aldrei né þróast og er best nýttur sem mótvægi við réttlætiskennd annarra, jarðbundnari karaktera. Depp sýnir merki um að hann njóti sín enn í rullunni sem hann upprunalega hlaut heila Óskarstilnefningu fyrir, en vandinn er nú að bæði persónan og frammistaðan virkar eins og hún sé komin á sjálfsstýringu. Sami galli plagaði líka síðustu mynd. Fátt verra er hægt að gera við fígúru sem á að vera fjörug og óútreiknanleg en að blása hana út, þangað til hún verður bara fyrirsjáanleg og óspennandi.

Brenton Thwaites leikur son Wills Turner, Henry, og er á tíðum álíka einhliða og pabbinn en sleppur alveg. Hið sama gildir ekki um persónuna Carinu Smyth, sem leikin er af Kayu Scodelario. Sú hefur mikið karisma, lætur fljótt vel um sig fara í karlafýlunni og fer létt með að vera svalasta persóna myndarinnar. Kaya og Geoffrey Rush stela senunni í sameiningu, en Rush sannar sig enn á ný sem einhver dýrmætasti fjársjóðurinn í seríunni. Að öðru leyti er Javier Bardem passlegur sem ógnandi illmennið, enda leikarinn þekktur fyrir að lifa sig sterkt í sín hlutverk og Salazar er engin undantekning.

Það er ekki alveg sama hvaða leikstjóri tekur að sér svona Pirates-mynd. Gore Verb­inski sinnti sínum þríleik með öruggum, fjölbreyttum tökum. Seinast tók svo söngleikjaunnandinn Rob Marshall við og nú er taumurinn hjá norska leikstjórateyminu Joachim Rønning og Espen Sandberg, mönnunum á bak við Max Manus: Man of War og Kon-Tiki, báðar frábærar myndir.

Tvíeykið heldur stemningunni léttri, líflegri og fer ágætlega að því að gera ýktar, kaótískar hasarsenur snyrtilegar og stílhreinar, en tekst varla að setja merkan heildarsvip á vöruna. Útkoman verður eins bragðlaus í efnistökum og hún er prýðilega útlítandi og epísk.

Peningurinn sést allur á skjánum, en það ætti að vera sjálfsagt mál þegar framleiðsluaurinn slær upp í 230 milljónir dala.

Ef það er eitthvað sem fjármagn á erfitt með að fela þá eru það þunnildi. Þó eru gerðar margar tilraunir til þess með því að hafa stutt á milli hasaratriða. Sum þeirra falla undir þann flokk að bjóða upp á meira af því sama og við höfum áður séð, en það gerist þó stöku sinnum að hressilegt ímyndunarafl skín í gegnum útfærslu þeirra (búturinn með fallöxinni er þar tær hápunktur).

Í myndinni er teygt aðeins um of úr hamaganginum og hefði jafnvel mátt hafa hana einni hasarsenu styttri, helst án bankaránsins þar sem sótt er lauslega í sömu fantasíureglur og í Fast & Furious 5 en gefur orðinu „hestöfl“ nýja merkingu. Ekki það að neinn biðji um lógík í mynd sem inniheldur klofin höf, óteljandi bölvanir, andsetta hákarla og skip sem auðveldlega springa í loft upp.



Niðurstaða: Peningurinn sést allur á tjaldinu og myndin á sína spretti, en Depp og félagar endurvinna gamlar formúlur og virðast ekki sjá að bestu dagar Jacks Sparrow eru löngu liðnir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×