Körfubolti

Fyrrverandi landsliðsþjálfari Norður-Kóreu tekur við Skallagrími

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Richi Gonzalez er reyndur þjálfari.
Richi Gonzalez er reyndur þjálfari. mynd/skallagrímur
Skallagrímur hefur ráðið nýjan þjálfara fyrir kvennalið félagsins í körfubolta.

Sá heitir Ricardo Gonzalez Dávila (Richi Gonzalez) og er 45 ára Spánverji. Eiginkona hans hefur einnig verið ráðin til Skallagríms. Hún heitir Lidia Mirchandani og er 39 ára. Þau munu flytja í Borgarnes á haustmánuðum ásamt tveimur börnum. Þau munu einnig koma að þjálfun yngri flokka hjá Skallagrími.

Richi tekur við þjálfarastöðunni af landa sínum, Manuel Rodriguez, sem hefur þjálfað Skallagrím undanfarin tvö ár. Manuel kom Skallagrími upp í Domino's deildina í fyrra og á síðasta tímabili lentu Borgnesingar í 3. sæti deildarinnar og féllu úr leik fyrir Keflavík í undanúrslitum úrslitakeppninnar. Þá komst Skallagrímur í bikarúrslit þar sem liðið tapaði fyrir Keflavík. Eftir tímabilið var Manuel sagt upp störfum.

Lidia Mirchandani vann fjölmarga titla á sínum leikmannaferli.mynd/skallagrímur
Richi hefur komið víða við á löngum þjálfaraferli. Hann er menntaður þjálfari og hefur meira og minna starfað við þjálfun frá 1992. Fyrstu árin þjálfaði hann yngri flokka í Madríd á Spáni en hefur síðan þjálfað kvenna- og/eða karlalið m.a. í efstu deildum á Spáni, Bólivíu og Síle.

Richi var um tíma landsliðsþjálfari kvenna hjá Norður-Kóreu og stýrði kvennalandsliði Síle í þrjú ár auk þess að stýra U-16 og U-18 ára kvennalandsliðum Síle á sama tíma. Á þessum árum náði Síle sínum besta árangri frá upphafi og má þar nefna að A-landsliðið vann til fernra verðlauna á þremur árum.

Lidia, eiginkona Richi, hefur verið atvinnumaður víða um Evrópu. Hún var leikstjórnandi spænska landsliðsins, hefur spilað 68 landsleiki og tekið þátt bæði í Evrópu- og heimsmeistaramótum.

Þegar hún var upp á sitt besta þá vann hún m.a. landstitla á Ítalíu, Sviss, Spáni, Síle og Rússlandi en þar spilaði hún með Spartak Moscow sem hrósaði sigri í Evrópukeppni með hennar aðstoð. Hún hefur fengið nokkra MVP titla í löndum þar sem hún hefur leikið.

Lidia hefur einnig talsverða reynslu af yngri flokka þjálfun en undanfarið ár hefur hún ásamt því að þjálfa og spila lítillega á Spáni starfað hjá samtökum sem aðstoða spænskar körfuknattleikskonur að komast á háskólasamning í Bandaríkjunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×