Skoðun

Múslímaskatt á Íslandi?

Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar
Hvernig væri að leggja sérstakan skatt á múslíma á Íslandi? Framkvæmdin gæti verið sú að skráðir múslímar á Íslandi borgi hærri tekjuskatt. Margir afskrifa eflaust þessa tillögu þar sem þetta væri gróf mismunun og mannréttindabrot. Samt er það svo að á Íslandi er þegar í gildi sambærilegur skattur að áliti margra.

Samkvæmt Þjóðkirkjunni og mörgum innan stjórnsýslunnar eru sóknargjöld félagsgjöld trúfélaga sem ríkið innheimtir í gegnum tekjuskatt. Þeir sem eru ekki meðlimir í trúfélagi borga jafn háan tekjuskatt og meðlimir trúfélaga. Þeir borga því í raun hærri tekjuskatt. Þá upphæð sem greidd er aukalega, sem er jafn há og innheimt sóknargjöld, mætti kalla trúleysingjaskatt.

Annað hvort er trúleysingjaskattur ósköp eðlilegt fyrirbæri og þá er einnig ekkert við múslímaskatt að athuga, eða báðir skattarnir eru mannréttindabrot. Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna hefur sagt að trúleysingjaskatturinn sé mannréttindabrot en stjórnvöld hafa ekki tekið mark á því.

Ef trúleysingjaskatturinn er mannréttindabrot ber að afnema hann. Ef trúleysingjaskatturinn er í lagi, þá er múslímaskattur það líka. Hvort eigum við að afnema trúleysingjaskattinn eða ræða af alvöru upptöku múslímaskatts?

Þjóðkirkjan átti þátt í að koma trúleysingjaskattinum á og hefur varið hann. Stjórnendur hennar sjá því varla neitt athugavert við múslímaskatt.

Ég tel hins vegar báða skattana vera mannréttindabrot og að Alþingi eigi að afnema trúleysingjaskattinn sem fyrst.

Pistillinn birtist fyrst í Fréttablaðinu
Skoðun

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.