Viðskipti innlent

Krónan í forgrunni við endurskoðun peningastefnu

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Frá undirritun stjórnarsáttamála nýrrar ríkisstjórnar í janúar. Frjálslyndu flokkarnir mælast lágt í könnunum og flokkana þrjá greinir á í stórum málum eins og peningamálum. Sjálfstæðisflokkurinn setur krónuna í forgang.
Frá undirritun stjórnarsáttamála nýrrar ríkisstjórnar í janúar. Frjálslyndu flokkarnir mælast lágt í könnunum og flokkana þrjá greinir á í stórum málum eins og peningamálum. Sjálfstæðisflokkurinn setur krónuna í forgang. visir/ernir

Umboð nefndar ríkisstjórnarinnar um peningamál afmarkast við íslensku krónuna. Nefndin mun því skoða leiðir til að styrkja umgjörð undir krónuna en ekki skoða upptöku annarra gjaldmiðla.

Umræða um peningamál er aftur í brennidepli vegna mikillar gengisstyrkingar að undanförnu. Núna er umræðan á þeirri forsendu að íslenska krónan hafi styrkst of mikið. Á árunum eftir banka- og gjaldeyrishrunið snerist umræðan meðal annars um að Íslendingar þyrftu að ganga í ESB og síðan fara í Evrópska- myntbandalagið til að fá stöðugan gjaldmiðil, evru. Mikill tími fór í ágreining um þetta en evrópska- myntandalagið hefur glímt við alvarleg kerfistengd vandamál sem afhjúpuð voru eftir skuldakreppuna á evrusvæðinu, aðallega í Grikklandi. 

Stjórnendur íslenskra fyrirtækja sem byggja sína verðmætasköpun á útflutningi vöru- og þjónustu, þ.e. ferðaþjónustufyrirtæki og sjávarútvegsfyrirtæki, kvarta sáran undan of styrkri krónu og hafa einhver útgerðarfyrirtækjanna jafnvel haft til skoðunar að flytja starfsemi sína úr landi í stöðugra rekstrarumhverfi.

Bjarni Benediktssyni forsætisráðherra var tíðrætt um gæði íslensku krónunnar í ræðu sem hann flutti á ársfundi Seðlabankans á fimmtudag. Hann Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra eru ósammála um framtíð íslensku krónunnar. Raunar hafa þeir verið ósammála um hana lengi eða löngu áður en ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar var mynduð.

Morgunblaðið rifjar þetta upp í morgun en Benedikt var í viðtali við Financial Times um helgina þar sem hann sagði ekki forsvaranlegt fyrir Íslendinga að viðhalda íslensku krónunni sem fljótandi, sjálfstæðum gjaldmiðli. Í fréttinni er fullyrt að Íslendingar hafi til skoðunar að festa gengi krónunnar við annan gjaldmiðil, sem var helsta baráttumál Viðreisnar í gengis- og peningamálum fyrir síðustu kosningar. 

Forsætisráðherra er á annarri skoðun og segir í viðtali við Bloomberg að króna verði gjaldmiðill Íslands um ófyrirsjáanlega framtíð og að fasttenging við evru, pund eða dollar sé ekki á döfinni. Í fréttinni er sagt frá því að ágreiningur um gjaldmiðilsmál hafi valdið sundurþykkju í ríkisstjórnarsamstarfinu. 

Eitt af stefnumálum Viðreisnar fyrir kosningar var svokallað myntráð sem er fastgengisstefna þar sem gengi krónunnar er fest við gengi annars gjaldmiðils. Viðreisn vill festa gengið við evru en það myndi eyða sveiflunum. Launafólk myndi ekki eiga hættu á því að krónan myndi veikjast hratt og atvinnurekendur þyrftu ekki að eiga hættu á því að krónan myndi styrkjast hratt sem er saga íslenskrar peningastefnu í hnotskurn undanfarin sjötíu ár eða svo.

Aðeins 4 1/2 ár eru síðan Seðlabanki Íslands vann ítarlega skýrslu um valkosti Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum. Þett eru greinilega langur tími fyrir forsætisráðherra því hann sagði í ræðu sinni á ársfundi Seðlabankans „langt væri síðan heildstæð umræða hefði verið tekin um valkosti Íslendinga í peninga- og gengismálum.“

Núverandi peningastefna byggir á verðbólgumarkmiði sem komið var á í mars 2001. Forsætisráðherra minntist í ræðu sinni á ársfundi Seðlabankans á nefnd sem skipuð hefur verið um endurskoðun peningastefnunnar.

Illugi Gunnarsson fyrrverandi menntamálaráðherra, Ásgeir Jónsson dósent í hagfræði og Ásdís Kristjánsdóttir hagfræðingur Samtaka atvinnulífsins skipa nefndina.

Eftir því sem næst verður komist mun vinna nefndarinnar grundvallast á því að endurskoða peningastefnuna með krónuna. Í samtalinu við Bloomberg minntist Bjarni einnig á að peningastefnunefnd væri að störfum og að grundvöllur þeirrar vinnu væri að krónan yrði framtíðargjaldmiðill Íslands.

Bjarni nefndi krónuna ellefu sinnum á nafn í ræðu sinni og sagði meðal annars: 

„Fall krónunnar við hrunið leiddi til betri samkeppnishæfni útflutningsatvinnuvega og bjó til kjöraðstæður til að gera Ísland að eftirsóknarverðum ferðamannastað. Búhnykkir, eins og betri viðskiptakjör á erlendum mörkuðum og farsæl lausn á greiðslujafnaðarvanda þjóðarbúsins, hafa einnig hjálpað til við að styrkja efnahaginn. (...) Krónan hefur því leikið stórt hlutverk í þjóðarbúskapnum. Styrkur hennar hefur átt stóran þátt í að skapa stöðugt verðlag í þrjú ár og betri kaupmátt almennings en dæmi eru um. Kaupmáttur Íslendinga hvort sem er í innlendri eða erlendri mynt hefur ekki áður verið meiri. Þegar meðallaun Íslendinga eru flutt yfir í evrur og borin saman við nálægar þjóðar á þeim grundvelli sést sterk staða Íslands glöggt. Við útflutningsatvinnugreinum blasir önnur mynd. Þær sjá ekki stöðugleikann í rekstrarumhverfi sínu. Þær taka á sig fjórðungshækkun launa og lífeyrisgreiðslna á stuttum tíma auk mikillar gengisstyrkingar. Framlegð ferðaþjónustufyrirtækja, sjávarútvegsfyrirtækja, nýsköpunarfyrirtækja og iðnfyrirtækja á alþjóðlegum mörkuðum fer því hratt minnkandi og samkeppnisstaða þeirra versnar,“ sagði Bjarni í ræðu sinni. 

Ljóst er að Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið 180 gráðu beygju í gjaldmiðils- og peningamálum frá landsfundi 2015 því í ályktun landsfundar það ár segir: 

„Íslenska krónan í höftum getur ekki verið framtíðargjaldmiðill þjóðarinnar ef Íslendingar vilja eiga þess kost að taka átt í alþjóðlegri samkeppni. Kanna skal til þrautar upptöku myntar sem gjaldgeng er í alþjóðaviðskiptum í stað íslensku krónunnar og gefa landsmönnum og fyrirtækjum frelsi til að ákveða hvaða gjaldmiðill hentar þeim best.“

Á síðasta ári var enginn landsfundur hjá Sjálfstæðisflokknum en haldinn var flokksráðsfundur fyrir kosningar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
ICEAIR
2,97
21
102.289
FESTI
2,84
16
385.019
MAREL
2,39
26
506.488
BRIM
2,37
6
62.304
VIS
2,13
17
431.999

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
EIM
-1,37
2
27.000
ARION
-1,24
25
330.100
LEQ
-0,92
4
131.254
SYN
-0,27
1
2.092
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.