Viðskipti innlent

Fasteignaverð hækkað mun hraðar en kaupmáttur launa

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um alls 18,6 prósent síðustu tólf mánuði.
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um alls 18,6 prósent síðustu tólf mánuði. vísir/vilhelm
Síðasta árið hefur fasteignaverð hækkað mun hraðar en kaupmáttur launa og í raun hafa hækkanir á fasteignaverði síðustu 12 mánuði ekki verið meiri síðan í ársbyrjun 2006.

Frá þessu er greint í nýrri Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans þar sem farið yfir þróun fasteignaverðs síðustu ára en í liðinni viku birti Þjóðskrá Íslands tölur um fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu í febrúar.

Í Hagsjánni kemur fram að hækkanir á milli mánaða voru miklar og hafa meiri hækkanir fasteignaverðs ekki sést lengi:

„Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 2,5% milli mánaða í febrúar. Þar af hækkaði fjölbýli um 2,7% og sérbýli um 1,7%. Samkvæmt tölum Þjóðskrár hefur fjölbýli hækkað um 18,7% á síðustu 12 mánuðum, sérbýli um 18,8% og er heildarhækkunin 18,6%. Hækkanir síðustu 12 mánaða eru mjög miklar og þarf að fara allt aftur til upphafs ársins 2006 til að sjá álíka tölur,“ segir í Hagsjánni.

Þá er farið yfir þróun kaupmáttar launa og fasteignaverðs en á árunum 2011 til 2013 fylgdust þessir þættir nokkuð náið að. Frá miðju ári 2013 til sama tíma 2015 tók fasteignaverð svo fram úr en sú þróun gekk örlítið til baka frá vorinu 2015 til vorsins 2016.

„Síðan þá hefur fasteignaverð hækkað mun hraðar en kaupmáttur launa, sérstaklega allra síðustu mánuði. Þarna er bæði um það að ræða að kaupmáttaraukningin er ekki eins hröð og áður og þá hefur fasteignaverðið hækkað miklu meira en áður,“ segir í Hagsjá bankans.

Það er mat hagfræðideildar Landsbankans að það sé því ekki lengur kaupmáttaraukningin sem ýti verði fasteigna upp heldur frekar mikill skortur á framboði húsnæðis og ótti við að sú staða eigi eftir að versna.

„Kaupgeta fólks hefur almennt aukist í takt við aukinn kaupmátt og atvinnu þannig að sífellt fleiri bítast um þær íbúðir sem koma á markaðinn. Eignum á markaði hefur fækkað verulega á síðustu mánuðum og er framboðið minna en verið hefur sl. 10 ár. Að sama skapi hefur sölutími eigna haldið áfram að styttast og er nú styttri en verið hefur síðustu ár. Slíkt er auðvitað merki um mikla þenslu á markaðnum og umframeftirspurn. Ekki er að sjá að breytinga sé að vænta á þessu ástandi á næstu mánuðum.“


Tengdar fréttir


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.