Skoðun

Pappír og nördapeysur

Ívar Halldórsson skrifar
Það munaði mjóu að við hefðum enn einu sinni sent einkahúmor út i eina stærstu söngvakeppni ársins. Daði er reyndar viðkunnanlegur og með góðan húmor – það má hann eiga. Ef hann átti hugmyndina að krútt-prjónapeysunum þá fær hann stig fyrir það líka. Umgjörðin um lagið hans var skemmtileg og léttleikinn sveif svo sannarlega yfir innlendu Júrósvisjón-vötnunum. Við fjölskyldan brostum út að eyrum yfir nörda-tilþrifunum. En það sem okkur finnst fyndið hér heima er ekki endilega ávísun á glimmerregn eftir harða og sveitta söngvakeppni í Kænugarði.

En eftir að hafa klúðrað forkeppninni tvisvar sinnum er kominn tíma á taka þessa keppni af meiri alvöru en lagið hans Daða býður upp á. Það var áberandi fagmunur á flutningi laganna og greinilegt að Svala hefur sungið meira og komið oftar fram á sviði en hárprúði ljúflingurinn. Nú þurfum við að reyna að halda andliti í forkeppninni og taka þetta alla leið eins og Svala sagðist munu gera með lagið sitt. Við erum með nógu margt niður um okkur í innlendum málum að við förum ekki að klúðra utanríkismálum eins og Evrópusöngvakeppni í þriðja skiptið í röð! Við þurfum að setja "geimfeisið" á.

Ég vona þó að við eigum eftir að sjá fleiri af húmorískum hugarfóstrum Daða hér heima. Þótt við sendum hann ekki út núna held ég að við séum alveg til í að gefa honum tækifæri aftur seinna - eftir betri undirbúning.

Svala virðist taka keppninni alvarlega og maður er ánægður með hversu einlæg og auðmjúk hún er yfir því að fá að keppa fyrir okkar hönd. Fólk hefur auðvitað skiptar skoðanir á laginu „Paper“, en fólk getur ekki verið sammála um neitt nú til dags hvort sem er - það mun því líklega ekki koma að sök þegar baráttuhugurinn hjá Svölu mjólkar hvern einasta dropa úr lagasmíðinni á stóra sviðinu með skotheldum flutningi.

Svala er umkringd góðum bakröddum sem reyndar sáust ekki á sviðinu hér heima þegar lagið var flutt. Við fengum þó að sjá þær með Svölu þegar öllum var boðið upp á sviðið í lokin til að fella gleðitár yfir glæsilegum sigrinum. Það skiptir miklu máli að hafa gott fólk í kringum sig þegar maður leggur á Júró-brattann og Íris Lind, Hrönn, Anna Sigríður, Fanney og Óskar úr Gospelkór Reykjavíkur eru frábærir einstaklingar og flottir söngvarar sem ég sjálfur hef fengið að vinna með svo mörgum sinnum, að ég verð að óska Svölu til hamingju með hrikalega flottan söng- og vinahóp.

Ég hamaðist við að fylgjast með sænsku, norsku og íslensku forkeppnunum; öllum í einu, á laugardagskvöldinu – rauk á milli rása þar til næstum rauk úr fjarstýringunni. Ég náði of litlu af þeirri sænsku en náði að kynnast norsku lögunum og fylgjast með úrslitunum þar. Sigurlagið sigraði ekki, heldur lenti í öðru sæti. Ég segi „sigurlagið“ því að verksmiðjurokkararnir í hljómsveitinni „Ammunition“ voru með svo skotheldan flutning á rjúkandi rokklagi og skörtuðu þarna skemmtilegum skítugum verksmiðjugöllum og neistandi slípirokkum á sviðinu. Húmorinn vantaði ekki í gleðiríkt glamrokkið og virtist lagið vera með alla ásana. Þegar þessi hljómsveit flutti lagið leið manni eins og flutningur þess væri bara formsatriði. Lagið var einhvern veginn búið að vinna Eurovision keppnina alla fyrir fram og því fannst manni eitt augnablik hægt að spara öllum öðrum keppendum flugmiða og fyrirhöfn. Sigurinn reyndist þó ekki í höfn mér til nokkurra vonbrigða.

Norsku úrslitin undirstrikuðu enn einu sinni að uppskriftin að hinu fullkomna Eurovision-lagi er enn á huldu og virðast hráefnin sem í henni eru ekki vera þau sömu á milli ára. Kannski er þó Svala með réttu uppskriftina fyrir sigur árið 2017 í laginu sínu.

„Pappírinn" hennar Svölu er svo að segja óskrifað blað í dag en það skyldi þó aldrei vera að hún eigi með því eftir að brjóta blað í Íslandssögunni í maí.

Ívar Halldórsson




Skoðun

Sjá meira


×