Skoðun

Bæta þarf kjör kennara, hvað sem ASÍ segir

Þórður Á. Hjaltested og Aðalheiður Steingrímsdóttir skrifar
Enn og aftur hefur forysta Alþýðusambands Íslands (ASÍ) í samstarfi við forystu Samtaka atvinnulífsins (SA) tekið sér þá sjálfskipuðu stöðu að ráðskast með það hvernig launasetningu og launaþróun einstakra stétta á Íslandi er háttað. Í þessu felst að mati Kennarasambands Íslands (KÍ) vanvirðing á samningsrétti annarra hópa og skilningsleysi á hlutfallslegri launastöðu þeirra.

Kennarasamband Íslands og BHM eru ekki aðilar að því rammasamkomulagi sem vísað er til í yfirlýsingu ASÍ og SA. KÍ tilgreindi á sínum tíma þrjár ástæður fyrir því að taka ekki þátt. Meðal þeirra var andstaða við launastefnu sem hefði nóvember 2013 sem grunnviðmiðun. Sú viðmiðun hentar ASÍ og SA en ekki félagsmönnum KÍ og fleiri opinberum starfsmönnum.

KÍ hefur talað skýrt um það og fært rök fyrir því að laun félagsmanna þurfi að hækka verulega umfram það sem getið er um í rammasamkomulaginu. Samkeppnisstöðu kennarastarfsins verður að laga. Þar liggur undir framtíð íslensks menntakerfis. Um þetta þarf þjóðarsátt. 

Nýleg skýrsla Ríkisendurskoðunar er afdráttarlaus hvað þetta varðar. Þar eru yfirvöld hvött til að fara í aðgerðir til að sporna við fækkun menntaðra kennara, fá þá kennara sem horfið hafa frá kennslu aftur til starfa í skólum landsins, efla nýliðun í kennarastéttinni og auka aðsókn í kennaranámið.

Það má ljóst vera að Kennarasamtökin munu ekki afsala sér samningsréttinum og munu áfram vinna markvisst að því að að lagfæra kjör félagsmanna sinna. Yfirlýsing ASÍ og SA frá 28. febrúar síðastliðnum breytir engu þar um. 

Yfirlýsing ASÍ og SA er ekki til þess fallin að byggja upp og styrkja menntakerfið, heldur er þvert í mót skaðsamleg.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×