Skoðun

Dagur íslenska táknmálsins, þú hefur það í höndum þér

Heiðdís Dögg Eiríksdóttir skrifar
Dagur íslenska táknmálsins verður haldinn nú í fimmta sinn þann 11. febrúar 2017. Í augum margra málhafa í íslensku táknmáli er þetta stór dagur, það tók margra ára baráttu að fá íslenska táknmálið viðurkennt. Elstu málhafar og margir segja að þegar Alþingi samþykkti frumvarpið um lög um íslenska tungu og íslenska táknmálið var eins og þungu fargi af þeim létt, loksins voru þau og tungumálið viðurkennt.

Málnefnd um íslenskt táknmál tók til starfa haustið 2011 eftir skipan mennta- og menningarmálaráðherra. Samkvæmt lögum nr. 61/2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls er meðal annars hlutverk málnefndar að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um málstýringu og málstefnu íslenska táknmálsins ásamt því að stuðla að eflingu íslensks táknmáls og notkun þess í íslensku þjóðlífi. Málnefndin lagði til að íslenska táknmálið fengi sinn dag líkt og íslenska tungan sem er 16.nóvember ár hvert. Samþykkt var að dagur íslenska táknmálsins yrði á stofndegi Félags heyrnarlausra sem er 11. febrúar.

Fyrstu starfsárin hjá málnefndinni samþykkti nefndin að þau verkefni sem tilheyrðu máltökustýringu og viðhorfastýringu væru í forgangi. Viðhorf til tungumála geta haft áhrif á viðgang þeirra og máltileinkun (Burns o.fl. 2001) og með það í huga ákvað nefndin að þemað á degi íslenska táknmálsins 2017 yrði viðhorf. Mikilvægt er að huga að viðhorfi til íslenska táknmálsins, í skýrslum málnefndar 2013 og 2014 má sjá að viðhorfastýring ásamt máltökustýringu sé mjög mikilvægt til að efla og hlúa að íslensku táknmáli á Íslandi.

Dagur íslenska táknmálsins er því okkur mikilvægur til að vekja athygli þjóðfélagsins á íslensku táknmáli ásamt umræðu um tungumálið og gera það sýnilegra til vitundarvakningar og bæta viðhorfið gagnvart íslenska táknmálinu.

Dagur íslenska táknmálsins verður haldinn laugardaginn 11. febrúar 2017 í Bæjarbíói Hafnarfjarðar, Strandgötu 6. Allir eru velkomnir til að njóta íslenska táknmálsins á hvíta tjaldinu. Starfsmenn og stjórn félagsins hafa lagt hendur á plóg við að vinna að myndefni sem tengist íslensku táknmáli.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×