Skoðun

Að gera sitt allra besta

Helga Vala Helgadóttir skrifar
Það hefur verið áhugavert að fylgjast með viðbrögðum þjóðarinnar við störfum og framkomu Guðna Th. Jóhannessonar á fyrstu mánuðum í embætti forseta.

Það örlar á djúpu þakklæti fyrir það hvað hann virðist einlæglega vera að leggja sig fram. Hvað hann er alþýðlegur og tekur sjálfan sig lítið hátíðlegan. Hvernig hann setur verkefnið framar sjálfum sér og sinni persónu.

Ég er ein af þeim sem finn fyrir þessu þakklæti í hans garð. Þakklæti yfir því að þurfa ekki að hafa áhyggjur af honum og Elízu þegar þau eru í opinberum erindagjörðum hérlendis sem erlendis. Ég treysti þeim til að vera okkur ekki til skammar.

En er það eðlilegt?

Er það eðlilegt að það hafi slík áhrif á mann þegar kjörinn þjóðarleiðtogi kemur fram eins og alvöru maður? Ætti það ekki að vera frekar venja en hitt að kjörnir fulltrúar fari fram með sóma?

Einhverra hluta vegna hefur tilfinningin frekar verið vantrú á getu þeirra að undanförnu. Nístandi kjánahrollur sem hríslast um mann aftur og aftur.

Nú eða vonbrigði og ótti yfir því hvað viðkomandi ráðamaður er nú að bralla.

Auðvitað á þetta ekki að vera svona. Best væri ef við gætum treyst því að hinn kjörni fulltrúi sé í fyllstu einlægni að starfa í þágu okkar og af sinni bestu getu.

Gætum við fengið einhvers konar þjóðarsátt þar sem kjörnir fulltrúar gera sitt allra besta fyrir heildina? Þjóðarsátt um að vanda sig eins mikið og mögulegt er? Er það ekki fyrirtaks markmið?




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×