Handbolti

Rúnar brjálaður út í leikaraskap Túnismanna: Eins og einhver væri með rifil uppi í stúku

Stefán Árni Pálsson skrifar
Rúnar Kára átti fínan leik.
Rúnar Kára átti fínan leik.
„Við erum að fara hrikalega illa að ráðum okkar í þessum leik og gerusmst sekir um svakaleg mistök,“ segir Rúnar Kárason, leikmaður íslenska landsliðsins, eftir jafnteflið við Túnis á HM í handbolta í Frakklandi í dag.

„Við töpum þessum leik bara sjálfir og erum heilt yfir ekki að fara nægilega vel með sóknirnar okkar. Ég veit ekki hvort að skotin okkar hafi verið svona léleg eða markmaðurinn svona góður, boltinn fór allavega ekki inn.“

Rúnar er sársvekktur út í sjálfan sig fyrir eitt atvik í leiknum.

„Ég er að svekkja mig út eitthvað atriði sem búið er að gerast í leiknum og hleypi bara manni í gegn. Þá fáum við á okkur fáránlegt mark sem var bara mér að kenna. Það er bara ótrúlega svekkjandi að hafa ekki farið með sigur af hólmi.“

Hann segir að Túnisar hafi verið með óþolandi leikaraskap allan leikinn.

„Þetta liggur bara hjá okkur samt, við töpuðum þessum leik. En munurinn á okkur og þeim er að við vorum ekki grýta okkur í jörðina allan leikinn. Ég er sjálfur með sprunga vör eftir fyrri hálfleikinn en myndi ekki henda mér í jörðina eins og einhver hefði tekið sniper-skot á mig upp í stúku.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×