Innlent

Ætla að loka hringveginum í Berufirði til að mótmæla frestun framkvæmda: "Það er bara komið nóg af þessu kjaftæði“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Berglind Häsler ásamt eiginmanni sínum, tónlistarmanninum Svavari Pétri Eysteinssyni.
Berglind Häsler ásamt eiginmanni sínum, tónlistarmanninum Svavari Pétri Eysteinssyni. Mynd/Vísir
„Það er bara komið nóg af þessu kjaftæði, afsakið orðbragðið, en mér er mjög mikið niðri fyrir,“ segir Berglind Häsler, bóndi á Karlsstöðum í Berufirði. Hún og aðrir íbúar ætlar sér að loka þjóðvegi 1 um Berufjörð til þess að mótmæla því að uppbyggingu nýs vegar í Berufirði hefur verið frestað.

Austurfrétt greinir frá en í gær var tilkynnt um tíu milljarða króna niðurskurð á samgönguáætlun. Meðal þess sem hætta þarf við er uppbygging nýs vegar yfir fjörðinn. Í samtali við Vísi segir Berglind að ákvörðunin sé reiðarslag fyrir íbúa svæðisins.

„Það er búið að skrifa undir þetta, það voru menn að mæla þetta, búið að teikna og þetta var farið í gegnum aðalskipulag. Nú átti bara að byrja þannig að við héldum að þetta væri að koma,“ segir Berglind. Kaflinn sem um ræðir er hluti af eina ómalbikaða hluta hringvegarins og stefndi allt í að vegurinn yrði lagfærður.

Sjá einnig: Barnafjölskyldan hengir ekki út þvott vegna þjóðvegaryks

„Þessi vegur er ónýtur og engum boðlegur. Þetta blasir við hverjum sem er, þetta er ekki hugarburður. Eftir áratuga bið er algjörlega nóg komið. Það er ekki hægt að vekja svona falskar vonir og taka allt til baka,“ segir Berglind.

Undanfarin ár hafa fréttir reglulega verið sagðar af vandræðum sem skapast hafa vegna vegarins enda segir Berlind að umferð um hann sé mikil og þar séu erlendir ferðamenn áberandi. Á síðasta ári slapp japanskur ferðamaður með skrekkinn þegar bíll hans valt í botni Berufjarðar. Betur fór á en horfðist en bíll ferðamannsins skemmdist töluvert.

Berglind segir að fljótlega eftir hádegi á sunnudaginn sé stefnt að því að loka þjóðveginum svo að ná megi athygli ráðamanna. Ekki sé boðlegt að hluti þjóðvegar 1 sé í jafn slæmu ástandi og raun ber vitni.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.