Formúla 1

Alonso fórnar Mónakó kappakstrinum fyrir Indy 500

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Fernando Alonso dreymir um þrefalda krúnu.
Fernando Alonso dreymir um þrefalda krúnu. Vísir/Getty
Fernando Alonso, ökumaður McLaren-Honda liðsins í Formúlu 1 mun taka þátt í Indy 500 kappakstrinum í ár. Alonso mun því ekki taka þátt í Mónakó kappakstrinum.

Indy 500 og Mónakó kappaksturinn fara báðar fram 28. maí í ár. Alonso verður því ekki með í Mónakó, keppninni þar sem McLaren liðið á kannski helst möguleika á að sækja stig.

Alonso mun aka undir merkjum McLaren í Indy 500. Raunar verður það Andretti Autosport bíll, í appelsínugulu til heiðurs Bruce McLaren, stofnanda McLaren liðsins.

Þátttaka í Indy 500 er hluti af markmiði Alonso, sem er að ná í þrefalda krúnu áður en ferlinum lýkur. Til þess þarf að vinna Mónakó kappaksturinn, Indy 500 og sólarhringsþolaksturinn í Le Mans.

Alonso vann í Mónakó 2006 og 2007 og stefnir á að vinna Indy 500 í ár.

„Ég er afar spenntur fyrir því að aka í Indy 500, með McLaren, Honda og Andretti Autosport,“ sagði Alonso.

„Indy 500 er einn frægasti kappaksturinn í heimi akstursíþrótta, einungis Le Mans 24 klukkustunda kappaksturinn og Mónakó kappaksturinn eru frægari, auðvitað verður það leiðinlegt að geta ekki verið með í Mónakó í ár,“ bætti Alonso við.

„Mónakó keppnin veðrur sú eina sem ég missi af í ár, ég verð aftur undir stýri á McLaren-Honda MCL32 í kanadíska kappakstrinum snemma í júní,“ sagði Alonso að lokum.

Það verður forvitnilegt að sjá hver tekur sæti Alonso í McLaren bílnum. Líklega verður það Jenson Button en þó er aldrei að vita hvort McLaren komi enn frekar á óvart með þeirri ákvörðun.


Tengdar fréttir

Alonso: Aflskorturinn bara eitt af vandamálum Honda

Fernando Alonso segir að hann hafi þurft að setja met í sparakstri í Ástralíu til að sjá fram á að bíllinn kæmist í endamark. Aflskortur er ekki eina vandamál Honda vélarinnar.

Bílskúrinn: Kveikt undir titilbaráttunni í Kína

Lewis Hamilton kom fyrstur í mark í kínverska kappakstrinum. Hann jafnaði þar með Sebastian Vettel að stigum í heimsmeistarakeppni ökumanna og Mercedes tók forystuna í heimsmeistarakeppni bílasmiða með eins stigs forskot á Ferrari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×