Erlent

Aðstoðarforsætisráðherra Írlands segir af sér

Atli Ísleifsson skrifar
Frances Fitzgerald var dómsmálaráðherra Írlands á árunum 2014 til 2017.
Frances Fitzgerald var dómsmálaráðherra Írlands á árunum 2014 til 2017. Vísir/afp
Frances Fitzgerald, aðstoðarforsætisráðherra Írlands, hefur sagt af sér embætti. Frá þessu greinir fréttastofa RTÉ, en írska ríkisstjórnin hefur enn ekki staðfest fréttirnar.

Fitzgerald hefur verið undir miklum þrýstingi að undanförnu en stjórnarandstöðuflokkurinn Fianna Fáil hafði lagt fram tillögu um vantraust á hendur Fitzgerald. Yrði hún samþykkt hefði það getað leitt til nýrra kosninga í landinu.

Ástæða vantrauststillögunnar sneri að aðkomu Fitzgerald að máli uppljóstrara innan lögreglunnar á þeim tíma sem hún gegndi embætti dómsmálaráðherra. Tillagan átti að vera til umræðu á írska þinginu í dag.

Írska stjórnin hafði gagnrýnt tillögu Fianna Fáil, en nýjar kosninga myndu tefja viðræður breskra stjórnvalda við ESB um útgöngu Bretlands úr sambandinu. Eitt af þeim málum sem þarf að leysa við Brexit er hvernig haga skuli málum á landamærum Írlands og Norður-Írlands þegar Bretland gengur úr ESB í lok mars 2019. Mögulegt er að afsögn Fitzgerald komi í veg fyrir nýjar kosningar.

Forsætisráðherrann Leo Varadkar og flokkur hans, Finn Gael, leiða nú minnihlutastjórn, en Finn Gael og Fianna Fáil náðu á sínum tíma samkomulagi um að Fianna Fáil myndi verja stjórnina falli.

Deilt er um aðkomu Fitzgerald að máli lögreglumanns sem ljóstraði upp um brot innan lögreglunnar. Fitzgerald, sem þá gegndi embætti dómsmálaráðherra, á að hafa verið kunnugt um tilraunir manna til að ófrægja uppljóstrarann, án þess þó að bregðast við.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×