Skoðun

Bitcoin æsingur

Björn Berg Gunnarsson skrifar
Rafmyntir eru gífurlega spennandi. Þekktust þeirra er Bitcoin og það má vel vera að í framtíðinni verði hún valkostur fyrir þá sem vilja nýta hana til daglegra viðskipta en í dag er hið mikla verðmæti hennar nær eingöngu falið í voninni um notagildi í framtíðinni.

Bitcoin var áberandi í fjölmiðlum síðari hluta ársins sem nú er að líða, enda hefur verðið fimmtánfaldast það sem af er ári. Fréttir af miklum hækkunum eru vinsælar og verða oft kveikjan að frekari kaupum þar sem fátt hefur meiri áhrif á tilfinningar fjárfesta en áhyggjur af því að vera að missa af hækkunum.

„Ávöxtun í fortíð er ekki ávísun á ávöxtun í framtíð,“ má finna í fyrirvörum við auglýsingar fjármálafyrir­tækja. Þetta ætti að segja sig sjálft en því miður hefur ávöxtun síðustu mánaða oft meiri áhrif á fjárfestinga- og sparnaðarákvarðanir en faglegt mat á framtíðarhorfum. Lítil verðbólga síðustu 12 mánuði segir ekkert til um hvernig verðtryggður sparnaður muni ávaxtast rétt eins og að hrunið 2008 var ekki ástæða til að forðast hlutabréf.

Hækkanir rafmynta byggjast að miklu leyti á spákaupmennsku, æsingi og óskhyggju. Fjárfesting getur hugsanlega veitt skjótfenginn gróða en líka lækkað um þriðjung eins og þeir sem stukku seint á Bitcoin vagninn fengu í jólagjöf. Rétt eins og ef fjárfest væri í hlutabréfi nýsköpunarfyrirtækis er mikilvægt að fjárfestar kynni sér málin afar vel og taki ákvörðun um hvort kaupa skuli eða ekki byggða á faglegu mati. Óskhyggja er afar slæmur rökstuðningur fyrir fjárfestingu og ef hún reynist vel er það heppni, ekki færni.

Eftir hækkanir ársins er Bitcoin nú á allra vörum og verður það væntanlega árið 2018. Það verður spennandi að sjá hvort sveiflur minnki, notkun í viðskiptum aukist (án gríðarlegs álags) og aðrar rafmyntir veki álíka athygli.

Höfundur er fræðslustjóri Íslandsbanka.

Greinin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál. 




Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×