Hamilton stakk af strax í upphafi og var aldrei ógnað eftir það. Valtteri Bottas á Mercedes varð annar og Sebastian Vettel á Ferrari varð þriðji.
Hamilton hefur nú tekið forystuna í heimsmeistarakeppni ökumanna í fyrsta skipti á tímabilinu. Hann leiðir með þremur stigum, Vettel er annar og Bottas þriðji.
Kimi Raikkonen komst fram úr Valtteri Bottas strax í ræsingunni. Hamilton hélt forystunni en Lance Stroll og Esteban Ocon skiptu um stöðu fyrir aftan Hamilton. Raikkonen tapaði stöðunni aftur til Bottas undir lok fyrsta hrings.
Felipe Massa og Max Verstappen lentu í samstuði í gegnum fyrstu beygjuna á þriðja hring og vinstra framdekkið á bíl Verstappen sprakk.
Vettel kom sér fram úr Lance Stroll á fimmta hring. Vettel var þá orðinn fjórði. Vettel varð svo orðinn þriðji á áttunda hring eftir góðan framúrakstur á Ocon. Á sama tíma voru Mercedes menn fremstir og á auðum sjó.
Raikkonen kom inn á þjónustusvæðið á 16. hring og fékk mjúk dekk undir og skilaði þeim ofur-mjúku. Ocon og Stroll komu svo inn í kjölfarið. Raikkonen komst fram úr Stroll í gegnum þjónusuhlé þremenninganna en Ocon var fremstur í þeirra hópi eftir dekkjaskiptin.

Hamilton tók þjónustuhlé á 33. hring og Bottas tók þá við forystuhlutverkinu í skamma stund en Finninn kom svo inn á næsta hring.
Daniel Ricciardo á Red Bull tók þjónustuhlé á hring 39 og kom út fyrir aftan Raikkonen en á ofur-mjúkum dekkjum og gerði sig líklegan til að sækja hratt á Raikkonen. Hann var snöggur að stela fjórða sætinu af Raikkonen. Hann stakk sér inn í fyrstu beygjuna á 42. hring og stal sætinu af Raikkonen.
Ricciardo sótti að Vettel undir lok keppninnar og gerði sig líklegan til að hirða þriðja sætið af Þjóðverjanum. Ricciardo tókst þó ekki að stela verðlaunasætinu af Vettel.
Hér að neðan má sjá öll úrslit helgarinnar á gagnvirku brautarkorti.