Piltar fóru ránshendi um töskugeymslu í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum í vikunni og létu greipar sópa. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Suðurnesjum.
Á meðal þess sem piltarnir hnupluðu voru tvær fartölvur, þrír farsímar, hleðslusnúrur, usb-lyklar og dýr merkjafatnaður. Gerðu þeir piltar sér nokkrar ferðir í geymsluna og notuðu við þær vespu sem einn þeirra hafði stolið nokkrum dögum áður.
Hafði lögreglan á Suðurnesjum hendur í hári piltanna og var ránsfengnum, sem fannst hjá þeim, komið í réttar hendur. Piltarnir hafa játað verknaðinn.
Notuðu stolna vespu í ítrekaðar ránsferðir
Anton Egilsson skrifar
