- Þegar maður verður veikur á maður ekki sjálfkrafa að verða gjaldþrota líka. Stefnum á gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi. Það er ekki góð hugmynd að dreifa kostnaðinum bara öðruvísi á notendur. Efnaminna fólk mun veigra sér við að leita læknis nema í neyðartilfellum og þá er hætt við að sjúkdómar greinist á síðari stigum þegar þeir eru ekki eins viðráðanlegir. Það er miklu dýrara fyrir okkur öll. Og talandi um heilbrigðiskerfið. Þar þarf meira fé.
- Unga fólkinu okkar líður ekki öllu vel í sálinni. Það er fáránlega dýrt að leita til sálfræðings á Íslandi. Sálfræðingar eiga að sjálfsögðu að vera hluti af opinbera heilbrigðiskerfinu. Forvarnir og snemmtæk íhlutun er nefnilega besta fjárfesting sem eitt samfélag getur varið fé sínu í.
- Biðlistar vegna þjónustu fyrir börn og ungmenni eiga ekki að fyrirfinnast. Ársbið eftir greiningu eða meðferð er fimmtungur af ævi fimm ára barns. Þjónusta við börn má aldrei vera háð efnahag eða getu foreldranna. Því ættum við að reyna að veita sem mesta og besta þjónustu í gegnum skólakerfið. Og þar þarf líka meiri peninga.
- Hlúum betur að barnafjölskyldum. Barnabætur þarf að tvöfalda og ekkert múður. Samfélagið þarf að vera sveigjanlegra og snúast um fleira en vinnu.
- Skólarnir okkar á öllum skólastigum eru fjársveltir. Það verðum við að laga enda menntun grundvöllur að betra samfélagi í framtíðinni.
- Til þess að ungt fólk sjái framtíð á Íslandi þarf það að geta búið einhvers staðar. Það er ekki raunin nú. Í nágrannalöndum okkar eru víða rekin félagsleg húsnæðiskerfi fyrir almenning, laus undan hagnaðarkröfum verktakavæðingarinnar og hávaxtastefnunnar. Samfylkingin ætlar að fara þá leið.
- Lífeyrisþegar eiga að geta lifað mannsæmandi lífi og þeim á ekki að vera refsað fyrir að vinna þegar þeir geta.
- Við þurfum að leggja Útlendingastofnun niður. Þar virðist vera undarlegur vinnustaðamórall sem vonlaust er að vinda ofan af. Lagabreytingar munu því ekki ná að breyta því sem breyta þarf þegar lögin er túlkuð með jafnundarlegum og ómannúðlegum hætti og raun ber vitni. Við eigum að hafa mannúð og ábyrgð að leiðarljósi í þessum málaflokki.
- Ofbeldi verður að uppræta. Við megum aldrei líta svo á að ofbeldi sé óhjákvæmilegur fylgifiskur mannlegs samfélags. Það er það ekki. Höfum hátt!
- Og svo er það stærsta málið og það sem sennilega þarf mest átak til að laga. Á Íslandi þrífst óásættanleg misskipting sem á rót í óréttlátri skiptingu auðlinda landsins. Stóra verkefnið er að auka jöfnuð í samfélaginu. Það á ekki að greiða fólki lægri laun fyrir að hugsa um manneskjur; kenna þeim, hjúkra eða gæta, en að stýra flugumferð eða reikna út burðarþol. Reyndar er afar brýnt að auka jöfnuð á heimsvísu en við getum byrjað hér á landi.
- Hættum að láta ræna okkur. Það er glórulaust að landsmenn allir fái ekki fullt gjald fyrir auðlindirnar sínar til nota í sameiginlegum sjóðum okkar. Alvöru auðlindaákvæði í stjórnarskrá tekur á þessu. Látum ekki plata okkur til að samþykkja eitthvert málamyndaákvæði sem engu breytir. Þjóðin er búin að samþykkja nýja stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu. Stjórnvöld í siðmenntuðum ríkjum virða þjóðaratkvæðagreiðslur. Í því felst enginn pólitískur ómöguleiki.
- Veiðiheimildir á að selja hæstbjóðanda á frjálsum markaði. Þar með geta útgerðarmenn ákveðið sjálfir hvaða verð þeir vilja greiða þjóðinni fyrir að fá að veiða fiskinn í sjónum.
- Við eigum að hætta að gefa landið okkar. Þeir sem vilja nýta íslenska raforku eiga að greiða fullt gjald fyrir það. Þeir sem selja ferðamönnum aðgang að náttúru landsins eiga líka að greiða þjóðinni fullt gjald fyrir það. Þetta eru tæknileg úrlausnarefni og í öðrum löndum eru menn fyrir löngu búnir að finna viðeigandi lausnir. Hér getum við ekki einu sinni komið upp kömrum skammlaust.
- Ýmsir landar okkar hafa ákveðið að greiða ekki skatta nema að litlu leyti og geyma auð sinn í skattaskjólum. Girðum fyrir þá leið og náum í þessa peninga. Breiðu bökin eiga að greiða meira til samfélagsins en þeir sem minna hafa. Brauðmolakenningin hefur verið afsönnuð. Það ætti að vera óþarfi að taka það fram að varast ber að kjósa þá flokka sem flagga formönnum og ráðherrum sem treysta eigin efnahagsstjórn ekki betur en svo að þeir tryggja sig með því að geyma eigur sínar í útlöndum. Slíkir lífskjaraþjófar eiga ekki heima í almannaþjónustu.
Höfundur skipar 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi.