Erlent

Manson-fylgjandi fer fram á reynslulausn í tuttugasta skipti

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Leslie Van Houten. Þessi mynd var tekin árið 2003.
Leslie Van Houten. Þessi mynd var tekin árið 2003. vísir/afp
Leslie Van Houten, sem áður var einn fylgjenda Charles Manson, gæti fengið reynslulausn úr lífstíðarfangelsi. Ríkisstjóri Kaliforníu, Jerry Brown, mun taka afstöðu til þess hvort Van Houten fái reynslulausn á næstu mánuðum.

Van Houten hefur alls nítján sinnum verið neitað um reynslulausn en hún hefur verið í fangelsi í yfir fjörutíu ár fyrir morðið á hjónunum Leno og Rosemary La Bianca árið 1969. Hún var jafnframt sökuð um að hafa, ásamt Charles Manson og fylgismönnum hans, myrt leikkonuna Sharon Tate sama ár. Neitaði hún því en viðurkenndi að hafa tekið þátt í seinni morðunum.

Van Houten er nú 66 ára gömul. Hún hefur lokið háskólaprófi og sýnt af sér góða hegðun, að sögn lögmanns hennar í samtali við BBC.

Mál hennar fer fyrir nefnd á næstu vikum og ef mælt verður með reynslulausn mun ríkisstjórinn taka afstöðu til málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×