Innlent

Skuldsetning og óvissa sögð skýra lækkunina

Ingvar Helgason skrifar
Jóhann Viðar Ívarsson, sérfræðingur hjá IFS Greiningu.
Jóhann Viðar Ívarsson, sérfræðingur hjá IFS Greiningu.
Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands hefur fallið um 4,6 prósent frá byrjun síðustu viku og um 7,7 prósent frá 28. apríl.

Jóhann Viðar Ívarsson, sérfræðingur hjá IFS greiningu, segir eina skýringu á lækkunum vera að í einhverjum tilfellum virðist hlutabréfakaup hafa verið fjármögnuð með talsverðri lántöku. Búið hafi verið að keyra væntingar fjárfesta óraunhæft mikið upp.

„Svo þegar uppgjörin voru meira í línu við það sem stjórnendur félaganna hafi verið búnir að gefa vísbendingar um eru menn farnir að kalla það vonbrigði,“ segir Jóhann.

Þá sé einnig talsverð óvissa framundan varðandi losun gjaldeyrishafta. Einnig hafi sumir áhyggjur af því að lífeyrissjóðir fái auknar heimildir til fjárfestinga erlendis sem gæti dregið úr eftirspurn á mörkuðum hér á landi. Þá hafi dauft ástand á alþjóðlegum mörkuðum einnig áhrif hér á landi.

„Á sama tíma er talsvert framboð í farvatninu,“ segir Jóhann og nefnir þar sem dæmi fyrirhugaða sölu á eignum sem féllu ríkinu í skaut við uppgjör slitabúa föllnu bankanna. Auk þess sé verið að leita að fjárfestum til að leggja fé í stóriðjuverkefni á borð við kísil- og gagnaver. 

Fréttin birtist í Fréttablaðinu 20.maí




Fleiri fréttir

Sjá meira


×